Author: HA magazine

Kraumar undir kvikunni

RFF 2017

Reykjavík Fashion Festival 2017 er rétt handan við hornið og tískuvitar og spekúlantar bíða í ofvæni eftir að sjá hvað kraumar undir niðri í íslensku fatahönnunarsenunni. Viðburðurinn fer fram næstu helgi, 23 – 25. mars en nánari upplýsingar um dagskrá RFF og sjálfa hönnuðina má finna á sérlega vel heppnaðri heimasíðu RFF. Í ár munu sex hönnunarteymi kynna nýjar línur; Myrka, Cintamani, Magnea, Another Creation, Inklaw og Aníta Hirlekar. Þrír af þessum aðilum sýndu ekki á HönnunarMars í fyrra og HA ákvað að kynna þau sérstaklega núna. (Sjá umfjöllun um hönnuðina sem sýndu á Showroom Reykjavík á HönnunarMars 2016)   Inklaw Ekki er víst að allir lesendur HA þekki til merkisins INKLAW sem gæti talist einskonar spútnik fyrirbæri íslenskar götutísku. (Ritara HA rámar til að mynda í að hafa séð Justin Bieber klæddan í INKLAW fatnað við fleiri en eitt tækifæri). Merkið var stofnað fyrir tæpum þremur árum af tveimur æskuvinum, þeim Guðjóni Geirssyni og Róberti Elmarssyni, þar sem þeim þótti úrval á götufatnaði fyrir karlmenn fremur takmarkað hér á landi. Í fyrstu seldu þeir …

Að endurtengjast náttúrunni

Hlín Helga um þema DesignTalks 2017

Nú styttist í DesignTalks, einn vinsælasta hönnunarviðburð hér á landi. Áhugafólk um hönnun sem og áhrifafólk í atvinnulífi og stjórsýslu flykkjast árlega á viðburðinn til sækja sér innblástur; einskonar innblástursforða sem endist jafnvel út árið. Fyrirlestrarröðin fer fram í Hörpu næstkomandi fimmtudag frá 09:00-16:30. (Örfá sæti laus, sjá www.harpa.is) Þemað í ár fjallar um samband okkar við náttúruna. HA tók tal af Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, listrænum stjórnanda DesignTalks, og spurði hana nánar út í þemað og fyrirlesarana í ár. HA: Þemað á DesignTalks í ár tengist sambandi okkar við náttúruna og viðleitni mannsins til að endurtengjast náttúrunni. Geturðu sagt okkur aðeins frá þemanu og af hverju það var valið? Þema þessa árs, eins og svo oft áður, sprettur upp úr rýni í líðandi stund; áhrif samfélagsþróunar á hönnun og áhrif hönnunar á samfélagsmynstur. Ef við tölum um hönnun sem breytingarafl þá má segja að þemað snerti á allra mikilvægustu spurningunum í dag. Hvernig getur hönnun breytt heiminum? Hvaða áhrif getum við haft? Hvað viljum við gera? Hvað eru hönnuðir út um allan heim að fást …

Dæmisögur

vöruhönnun á 21. öld

„Í hönnunarfaginu er uppi stöðug krafa um nýjungar og hraða. Verkefnin eru þó ekki af þeim toga heldur eru þau dæmisögur um þróun sem hefur átt sér stað yfir langt tímabil. Að baki þeim liggur raunveruleg og djúpstæð þekking á viðfangsefninu.“ segir í texta á sýningunni Dæmisögur – vöruhönnun á 21. öld – sem opnar á Kjarvalsstöðum laugardaginn 4. Mars kl. 16:00. Þar verða sýnd nokkur verkefni á sviði vöruhönnunar sem endurspegla ólíkar áherslur vöruhönnunar og veita innsýn í helstu strauma og stefnur í faginu hér á landi undanfarin ár. Verkefnin endurspegla fjölbreytileika fagsins og sýna þau tækifæri sem samfélaginu standa til boða með því að nýta krafta skapandi hugsunar. Sýningarstjórn er í höndum Sigríðar Sigurjónsdóttur, sem var um árabil prófessor við vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands (2005-2012) og rak hönnunargalleríðið Spark Design Space sem lagðist í dvala síðastliðið vor. Sigríður hefur unnið sýninguna í samstarfi með Ólöfu Sigurðardóttur forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur en hugmyndin fæddist eftir að Ólöf fylgdist með ólíkum áherslum í útskriftarverkefnum frá nemendum Listaháskóla Íslands, en skólinn hefur undanfarið haldið útskriftarsýningar í Listasafni Reykjavíkur. „Vöruhönnuðir …

Snerting með birtu, andrúm í efni

Minningarorð um Högnu Sigurdardottur arkitekt

Það dugði ekki minna en fullt snjótungl, tímabundinn tunglmyrkva og halastjörnu til að kalla Högnu Sigurðardóttur upp til stjarnanna föstudagsnóttina síðastliðna. Öflugt ákall himintunglanna leysti hana loks úr viðjum langvinnra og erfiðra veikinda, að loknu ævistarfi sem um margt var sérstakt og örlátt. Högna fæddist á Heimaey í Vestmannaeyjum, þann 6.júlí 1929 en hún ákvað snemma að helga sig listinni að byggja. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fluttist hún Parísar þar sem hún lauk námi í byggingarlist frá hinum virta listaskóla École Nationale Supérieure des Beaux-Arts vorið 1960. Að sumu leyti má segja að örlögin hafi ráðið því að hún ílengdist að námi loknu, stofnaði teiknistofu og átti megnið af sínum starfsferli í Frakklandi, sem að sögn Högnu var sársaukafullt að ýmsu leyti. Með vinnunni ytra vann hún jafnframt handfylli verka á Íslandi, og önnur sem voru aldrei byggð, en lifa í fallegum teikningum og líkönum. Án efa eru það persónulegustu verk hennar, sem áttu sér rætur í íslenskum byggingararfi og landslagi sem hafa auðgað íslenska byggingarlist og menningararf. Hinir andstæðu heimar og …

SEB

Smíði í skala

Edda Bergsteinsdóttir gullsmiður er ein þeirra sem hlaut styrk úr Hönnunarsjóði í ár. Styrkinn fékk hún til frekari markaðsetningar á SEB Jewellery, sem er yfirheiti á skartgripalínum hennar, þar sem geómetrísk form lifna við og taka á sig form dýra. HA fékk að forvitnast um hönnuðinn og hugmyndafræðina að baki skartgripalínum hennar.   Hvað réði því að þú ákvaðst að læra gullsmíði? Mér hefur alltaf fundist gaman að teikna og búa til hluti og ef ég hefði ekki orðið gullsmiður þá er alveg á hreinu að ég hefði samt sem áður fengist við einhvers konar sköpun. Það að búa til eitthvað alveg frá grunni er ótrúlega góð tilfinning og í gullsmíðinni fæ ég þeirri þörf fullnægt. Þar get ég byggt upp mín eigin form og línur og séð til þess að hluturinn sem ég er að skapa gangi upp frá öllum sjónarhornum. Þú lærðir arkitektúr um tíma áður en þú fórst í gullsmíði. Hvernig var að stökkva á milli svo ólíkra stærðarskala, úr hinu stóra og efnismikla yfir í hið smáa og fíngerða? Þegar ég …

Samtvinna

Haust- og vetrarlínur nokkurra íslenskra fatahönnuða

Fatahönnunarfélag Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir árlegri samsýningu félagsmanna í tengslum við HönnunarMars. Að afstöðnum HönnunarMars, 10.–13. mars 2016, stóð félagið fyrir sýningunni Showroom Reykjavík (SR) í Ráðhúsi Reykjavíkur og listrænn stjórnandi sýningarinnar var Guðrún Sturludóttir. Á sýninguna voru valdir sjö íslenskir fatahönnuðir sem sýndu fatalínur sínar fyrir haust/vetur 2016–2017.  Sýningin var sett upp sem vörusýningarrými* (e. showroom) að erlendri fyrirmynd þar sem markmiðið var að kynna fatalínur komandi árstíða fyrir erlendum og innlendum kaupaðilum og blaðamönnum auk þess sem sýningin var opin gestum og gangandi. Mikil ánægja var með sýninguna meðal þátttakenda og skipuleggjenda enda þótti umgjörð sýningarinnar vera til fyrirmyndar og aðsókn gesta fór fram úr björtustu vonum. Sjaldan hafa aðdáendur íslenskrar fatahönnunar komist jafn snemma í návígi við fatalínur komandi hausts eins og á SR en línur hönnuðanna sjö eru nú flestar komnar í verslanir og biðin eftir því sem hugurinn girntist í mars því senn á enda. HA talaði við hönnuðina og skoðaði nýju línurnar.   KYRJA „Ég hanna eftir eigin innsæi,“ svarar Sif Baldursdóttir, hönnuður Kyrju, aðspurð um hvert hún hafi …

Endurkoma

Don Cano

Ef eitthvað fangaði stemningu níunda áratugarins á Íslandi voru það fötin frá Don Cano. Litskrúðugar flíkurnar, sem voru hannaðar og framleiddar á Íslandi, boðuðu eitthvað brakandi ferskt í upphafi áratugarins. Á þessum tíma var break-dansinn í algleymingi, eða skrykk-dansinn eins og hann var kallaður á góðri íslensku, og þegar svölustu dansararnir og afreksfólk í íþróttum fór að sjást í fötum frá Don Cano varð fatamerkið á svipstundu eitt vinsælasta tískumerkið í sögu landsins. Fötin voru með eindæmum vönduð, létt og þægileg og höfðuðu til allra aldurshópa. Æðið var um tíma svo yfirgengilegt að slegist var um flíkurnar þegar þær komu í verslanir og um miðbik áratugarins gekk annar hver landsmaður í fötum frá Don Cano. Nú þremur áratugum síðar er orðrómur á kreiki um endurkomu Don Cano. Er það tóm óskhyggja eða er eitthvað til í þessum sögusögnum? Jan Davidsson, fyrrum eigandi og aðalhönnuður Don Cano, er eini maðurinn sem getur svarað því. „Kannski er kominn tími til að viðurkenna að endurkoma Don Cano hefur verið í gerjun hjá mér um nokkurt skeið og nú …

Sjáið okkur

Ímyndarsköpun og hlutverk hönnunar í íslensku rappi

  Tónlistarbransinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Með tilkomu streymisveitna hefur plötusala dregist saman á ógnarhraða og á síðustu fjórum árum hefur plötusala á Íslandi dregist saman um 50%. Árið 2012 seldust 250.000 eintök hér á landi en árið 2015 seldust aðeins um 126.000 eintök og enn dregur úr sölunni. Á sama tíma hefur íslensk tónlist aldrei verið í meiri útrás. Miðað við höfðatölu er í raun ótrúlegt hvað Ísland hefur getið af sér marga heimsfræga tónlistarmenn; kanónur á borð við Björk, Sigur rós, Of Monsters and Men, Kaleo, Jóhann Jóhannsson, Ólaf Arnalds og fleiri íslenskir tónlistarmenn eru alþekkt vörumerki erlendis. Útón, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, hefur rekið öflugt kynningarstarf og veitir tónlistarmönnum loftbrú yfir á erlenda markaði með styrkjum, ráðgjöf og öflugu tengslaneti. Sprenging hefur orðið í tíðni tónlistarhátíða á borð við Iceland Airwaves, Sónar Reykjavík, Secret Solstice, Extreme Chill, Eistnaflug, LungA og svo mætti lengi telja. Í raun má segja að ekki sé laus helgi yfir sumartímann vegna tónlistarviðburða. Þegar gróskan er svona mikil getur verið snúið fyrir tónlistarmenn að …

Islanders

Að fanga anda íslenskra híbýla

Heimasíðan Islanders hefur vakið mikla athygli undanfarna mánuði en þar gefst fólki kostur á að líta inn á áhugaverð íslensk heimili. Á heimasíðunni eru persónuleg einkenni híbýlanna dregin fram með alúðlegum hætti, bæði í máli og myndum. Verkefnið er hugarfóstur Auðar Gnár innanhússhönnuðar og Írisar Ann ljósmyndara en þær segja að vöntun hafi verið fyrir nýrri nálgun í kynningu á íslenskum heimilum, sér í lagi heimilum þar sem eigendur þora að fara sínar eigin leiðir. Nýlega litu þær við á heimili Ragnheiðar Jónsdóttur sem býr í einu af merkari húsum landsins, Bakkaflöt 1 í Garðabæ. Húsið er teiknað af Högnu Sigurðardóttur arkitekt og þykir eitt af merkari verkum í íslenskri nútímabyggingarlist. Bakkaflötin hefur hlotið margar viðurkenningar og var meðal annars valið ein af 100 merkilegustu byggingum 20. aldar í Evrópu. HA talaði við þær Auði og Írisi um verkefnið og kannaði hvort þau hýbílin á Icelanders eigi sér einhvern óvæntan samnefnara.   HA: Hvernig kom verkefnið til og hvers skonar heimili eruð þið að sýna? Íris: Við kynntust fyrst í tengslum við Further North, fyrirtæki Auðar, en síðustu ár hef ég …

Engin brögð í tafli

Um hönnun og furðulegar flugur á einvígi aldarinnar

Viðureign Bobby Fischers og Boris Spasskys sem fór fram í Laug­ar­dal­s­höll 11. júlí 1972 er án efa eitt frægasta skákeinvígi sögu­nnar. Baráttan, sem New York Times kallaði „einvígi ald­ar­innar”, var ekki aðeins milli tveggja manna heldur milli ríkjandi stórvelda þess tíma, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Á hápunkti kalda stríðsins mættust stórveldin á miðri leið og háðu þessa taugatrekkjandi orrustu á Íslandi. Rússar höfðu þá haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og töldu það sanna vitsmuna- og hugmyndafræðilega yfirburði sína. Það var því allt í húfi fyrir Bandaríkjamenn og gríðarleg pressa var lögð á herðar hins unga sérvitrings, Bobby Fischers. Heimamenn fundu einnig fyrir pressunni, enda var þetta í fyrsta sinn sem allur heimurinn horfði til Íslands. Nú skyldi hanna umgjörð ein­vígsins með sæmandi hætti. Heimsbyggðin fylgdist forviða með þegar stórmeistararnir hófu leikinn. Fischer virtist eiga erfitt með einbeitingu í fyrstu skákinni og gerði furðuleg mistök sem varð til þess að Spassky sigraði örugglega. Fischer virtist í andlegu ójafnvægi og hafði allt á hornum sér. Hann kvartaði yfir því að taflborðið væri of glansandi, ljósin …