Álit / pistlar
Leave a comment

Sjáið okkur

Ímyndarsköpun og hlutverk hönnunar í íslensku rappi

 

Tónlistarbransinn hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Með tilkomu streymisveitna hefur plötusala dregist saman á ógnarhraða og á síðustu fjórum árum hefur plötusala á Íslandi dregist saman um 50%. Árið 2012 seldust 250.000 eintök hér á landi en árið 2015 seldust aðeins um 126.000 eintök og enn dregur úr sölunni. Á sama tíma hefur íslensk tónlist aldrei verið í meiri útrás. Miðað við höfðatölu er í raun ótrúlegt hvað Ísland hefur getið af sér marga heimsfræga tónlistarmenn; kanónur á borð við Björk, Sigur rós, Of Monsters and Men, Kaleo, Jóhann Jóhannsson, Ólaf Arnalds og fleiri íslenskir tónlistarmenn eru alþekkt vörumerki erlendis. Útón, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, hefur rekið öflugt kynningarstarf og veitir tónlistarmönnum loftbrú yfir á erlenda markaði með styrkjum, ráðgjöf og öflugu tengslaneti. Sprenging hefur orðið í tíðni tónlistarhátíða á borð við Iceland Airwaves, Sónar Reykjavík, Secret Solstice, Extreme Chill, Eistnaflug, LungA og svo mætti lengi telja. Í raun má segja að ekki sé laus helgi yfir sumartímann vegna tónlistarviðburða.

Þegar gróskan er svona mikil getur verið snúið fyrir tónlistarmenn að skapa sérstöðu og koma sér á framfæri. Það þarf að virkja hugmyndaflugið, sýna útsjónarsemi og leita nýrra leiða til að vekja á sér athygli. Hljómsveitir sem ná samningum við stór útgáfufyrirtæki hafa oft öflug markaðsteymi á bakvið sig en tónlistariðnaðurinn hefur verið að breytast hratt og í dag eru stórir plötusamningar ekki eins mikilvægir hljómsveitum til að koma sér á framfæri og áður fyrr. Nýir miðlar eins og Snapchat, Instagram og Twitter eru öflugustu auglýsingatækin í dag og hafa í raun fært minna þekktum tónlistarmönnum ný vopn í hendur, sér í lagi þeim yngri sem alist hafa upp við þá öru tækniþróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.

screen-shot-2015-11-02-at-12-35-55

101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson

Sú tónlistarstefna sem er í hvað mestri uppsveiflu þessa dagana er tvímælalaust Hip Hop. Stundum er talað um að rappið sé nýja pönkið, með tilheyrandi „gerðu það sjálfur“ DIY viðhorfi og rapparar keppast nú við að senda frá sér nýtt efni. Margir þeirra hafa jafnvel alfarið gefist upp á plötuútgáfu og reiða sig þess í stað á tekjur af tónleikahaldi og sölu á ýmiskonar varningi. Tónlistarmyndbönd þykja enn ein áhrifamesta leiðin til að koma sér á framfæri og kynna ný lög en ný gullöld tónlistarmyndbanda virðist vera gengin í garð og í þetta skiptið fer hún fram á netinu en ekki á PoppTV. Rapparinn Gísli Pálmi reið á vaðið með stöðugum straumi tónlistarmyndbanda á YouTube, en eins og frægt er orðið rokseldist platan hans þegar hún loksins kom út. Nærtækasta dæmið er kannski íslensk/enska hljómsveitin Cryptochrome sem mánaðarlega gefur út myndband við hvert einasta lag af komandi plötu sinni More Human, sem von er á í vetur.


HA hafði samband við nokkra rappara sem hafa látið hvað mest að sér kveða undanfarið, en í staðinn fyrir að tala við þá um tónlistina, könnuðum við sjónheim þeirra og afstöðu til hönnunar og markaðsmála.

Sturla Atlas

Hljómsveitin Sturla Atlas skaust fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um rúmu ári með dularfullri Twitter herferð: Hver er þessi Sturla Atlas? Það birtust myndir á netinu af þekktum einstaklingum í Sturlu-stuttermabolum og myllumerkið #sturlaseason skaut upp kollinum hvert sem litið var. Sturla Atlas reyndist vera Sigurbjartur Sturla Atlason ásamt Jóhanni Kristófer Stefánssyni (betur þekktur sem Joey Christ), Loga Pedro og Arnari Inga. Hópurinn í kringum hljómsveitina er þó mun stærri, þar á meðal er umboðsmaðurinn Egill Ástráðsson, listrænn stjórnandi og ljósmyndari Kjartan Hreinsson, auk Péturs Kiernan og Brynjars Barkarsonar sem sjá um kynningarmál. Jón Pétur Þorsteinsson hannaði fyrsta stuttermabolinn og plötuumslagið en Sigurður Oddson hefur séð um alla hönnun upp frá því, oft í samstarfi við Kjartan. Við þennan hóp má bæta Sigríði Ólafsdóttur framleiðanda og Unnsteini Manuel tónlistarmanni. Í grunninn er Sturla Atlas vinahópur af Skólavörðuholtinu sem gengur undir nafninu 101 Boys.

screen-shot-2015-11-02-at-12-36-54_crop

101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson


Það má kannski fleygja því fram að Sturla Atlas sé sjálfsmeðvitaðasti tónlistarhópur landsins en meðlimir ganga fagmannlega til verka og hugsa vandlega um alla framsetningu á tónlist sinni. Ævintýrið hófst á Twitter í byrjun maí 2015, stuttu seinna kynntu þeir plötuna sína með herferð sem var gerð út frá Snapchat reikningi Nova. Sama dag kom út frumraun Kjartans í myndbandsgerð við lagið Over Here. Þegar platan kom svo loks út um mánuði síðar, þá samhliða öðru myndbandi, hreinlega sprakk allt og Sturla var á allra vörum. Athygli vekur að hljómsveitin hefur ekki selt eina einustu plötu; þær eru allar fáanlegar til niðurhals á netinu án endurgjalds. Í staðinn reiðir hópurinn sig á tónleikatekjur og sölu á nýstárlegum varningi, þeir gera boli, buff og „fanzine“ – lítil tísku- og ljósmyndatímarit.

screen-shot-2015-11-02-at-12-34-28_crop

Sturla Atlas í 101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson

HA: #Sturlaseason var afar vel heppnuð og frumleg kynningarherferð og segja má að þið hafið farið nýjar leiðir í markaðsetningu íslenskrar tónlistar. Plötunni var gríðarlega vel tekið og skilaði meðal annars verðlaunum fyrir nýliða ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hefði þetta verið hægt án samfélagsmiðlanna og bjuggust þið við svona mikilli athygli?

 „Það var engin leið að vita nákvæmlega hvernig fólk myndi bregðast við en við bjuggumst alls ekki við svona miklum viðbrögðum. Við höfum alltaf verið með mjög sterkan „presence“ á netinu og það hefur auðvitað gert helling fyrir okkur, enda samfélagsmiðlar algjört undirstöðuatriði þegar kemur tónlistarútgáfu.“

screen-shot-2015-11-02-at-12-37-35

Joey Christ í 101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson


HA: Þið fóruð óhefbundna leið og gáfuð tónlistina ykkar, var það erfið ákvörðun?

Það kom aldrei neitt annað til greina en að gefa tónlistina. Það er okkur mest í hag að sem flestir heyri tónlistina þegar við erum að stíga okkar fyrstu skref.“


HA: Þið vinnið náið með Kjartani Hreinssyni sem er titlaður listrænan stjórnandi verkefnisins, hver er fókusinn í því samstarfi?

„Við Kjartan höfum verið vinir í mörg ár og samstarf okkar er mjög náttúrulegt. Fókusinn er bara hugarheimur okkar vinanna. Zine-in sem hann hefur gert síðustu ár eru bæði mjög entertaining og flott, það lá því beinast við að stækka útgáfuna okkar og gera 101 zine.“

screen-shot-2015-11-02-at-12-36-02

101 Boys zine eftir Kjartan HreinssonHA: Í nýlegu viðtali sem birtist í i-D Magazine talið þið um þá áráttu útlendinga að telja íslenska menningu óaðskiljanlega náttúrunni; að á Íslandi verði allir svo innblásnir af umhverfi sínu og þaðan komi gróskan. Eruð þið fyrst og fremst borgarbörn, uppalin á Skólavörðuholtinu í 101 Reykjavík og sækið innblástur þangað?

„Að spila náttúruspilið bara vegna þess að maður er íslenskur er eitthvað sem myndi ekki hvarla að okkur að gera. Að alast upp í 101 er stór hluti af okkar sjálfsmynd og það mótar okkur í lífi og starfi. Við erum stoltir af því að vera úr 101.“

screen-shot-2015-11-02-at-12-37-44_crop

101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson


HA: Þið eruð örugglega eina rappbandið sem hefur tekið þátt á HönnunarMars en þar kynntuð þið konsept vatnsflösku; Sturla Aqua. Er von á vatnsflöskunni í verslanir?

Það er alls ekki útilokað að við vinnum áfram með Sturla Aqua en það er löng leið frá HönnunarMars í verslanir 10-11.“

sturla_aqua-7130

Sturla Aqua fatnaður og vatnsflaska á HönnunarMars 2016


HA: Tónlistarmenn erlendis hafa í auknum mæli selt vörur sem teljast óhefðbundar. Breski raftónlistarmaðurinn Sophie gaf til dæmis út víbrador í fyrra og tónlistarmaðurinn QT, hjá sömu útgáfu, byggir alla sína hugmyndafræði á að tónlistin hans sé samofin ímynduðum orkudrykk sem síðar seldist upp þegar hann kom á markað. Kanye West varpaði lögunum sínum á byggingar þegar hann gaf út plötuna Yeezus, Beyonce frumsýndi nýja plötu sem sjónlistaverk á HBO, Frank Ocean byggði upp eftirvæntinu eftir nýjustu plötu sinni með þriggja vikna óræðu „livestream“, og plötunni fylgdi svo veglegt tímarit, aðeins fáanlegt í Pop-Up búðum víða um heim. Afhverju haldið þið að tónlistarmenn leggi svona mikið á sig í dag, eru svona gjörningar það sem koma skal?

„Við erum stór hópur og allir hafa ólíkan bakgrunn en okkur hefur tekist að nýta styrkleika hvers annars og það er nákvæmlega það sem okkur finnst lang feitast við þetta allt saman og það er líka bara rétt að byrja. Núna þegar við erum orðnir meira established en fyrir ári og meiri peningur kemur inn í batteríið okkar, gefst okkur tækifæri til að hugsa stærra; einmitt eins og þessir listamenn sem þú nefnir eru að gera. Ætli listamenn séu ekki bara orðnir betri í því að sjá sóknarfæri í mismunandi miðlum og þannig breytist líka krafa áhorfenda til vinnu þeirra. Að vera með tískusýningu eða einhvern vídeógjörning er bara frekar feitt dæmi. Okkur langar allavega að vera að vinna á þessu leveli, þar sem 101 boys kollektívið getur framleitt hvaða feita dæmi sem er.“

screen-shot-2015-11-02-at-12-38-02

Stula Atlas í 101 Boys zine eftir Kjartan Hreinsson

Lógó- og leturmeðferðir hjá Sturlu Atlas vísa nokkuð í iðnaðartengda fagurfræði; svo sem bílaframleiðanda eins og Subaru eða Formúlu 1. Þetta sést á flestöllu kynningarefni hljómsveitarinnar; plötuumslögunum, bolum og jafnvel buffum. Við spurðum hönnuðinn Sigurð Oddsson út í hugmyndafræðina á bak við þennan sjónheim.

Sigurður Oddson: „Bandið hafði mótað sér ákveðna myndræna sérstöðu með stíliseringu og location með Kjartani Hreinssyni, sem ég reyndi að útvíkka yfir á grafískan heim sem þeir gætu kallað sinn eigin. Sá heimur kallast á við sömu tilvísanir og ljósmyndirnar, einhverskonar fortíðar-vörumerkjablæti, en ég bætti við mínu eigin handbragði og hugmyndum sem einkum vísa í framtíðina, geimferðir og tækni, sem eru mér ofarlega í huga.“

screen-shot-2015-11-02-at-12-34-03

101 Boys zine – Kjartan Hreinsson


GKR

Gaukur Grétuson, betur þekktur undir nafninu GKR, steig á stokk snemma árs 2015, þá tvítugur. Eftir að lag hans Morgunmatur sló í gegn í október í fyrra hefur hann staðið mjög framarlega í íslensku hip hop senunni. Yfirlýst markmið GKR hefur alltaf verið að brjótast út fyrir landamæri með tónlist sinni og ef marka má nýlega umfjöllun erlendra miðla má vel vera að hann sé að ná þeim áfanga.

Gaukur er sjálfs síns herra og vinnur fullkomlega sjálfstætt, þar sem hann bregður sér í öll nauðsynleg hlutverk. Hann sinnir eigin umboðsmálum og bókunum og leikstýrir, tekur upp, klippir og fullvinnur eigin tónlistarmyndbönd. Í sjónræna hlutanum nýtur hann stuðnings þeirra Sigurðar Ýmis og Benedikts Andrasonar. Þó tónlistin sé auðvitað í fyrirrúmi eru það ekki síður myndböndin sem vekja athygli. Þau endurspegla tónlistina fullkomlega; einlæg en gamansöm, hröð og virkilega litrík.

gkr3-1814-mynd-kjartan-hreins

Gaukur Grétuson GKR – Mynd : Kjartan Hreinsson

HA: Þér hefur verið tíðrætt um að það hafi gert mikið fyrir þig að skipta úr bóklegu námi yfir í Myndlistaskólann í Reykjavík. Hvað gerði það fyrir þig sem listamann?

Myndlistaskólinn hvatti mig áfram til að vera ég sjálfur, þjálfaði huga minn til að vinna betur úr hugmyndum og kenndi mér að gefast ekki upp þó ég væri áttavilltur í þeim verkefnum sem ég tók að mér.“


HA: Verkin tala auðvitað fyrir sig sjálf en telur þú nauðsynlegt að byggja upp „hype“ til að fólk taki eftir þeim?

Leggðu inn mikla vinnu, allt annað kemur. Auðvitað er nauðsynlegt að vekja á sér athygli en ef þú leggur hart að þér, sama hvert verkefnið er, þá skilar það sér á endanum.

dsc02718-mynd-benedikt-andrason

GKR – Mynd: Benedikt Andrason

HA: Tónlistarmyndbönd eru óaðskiljanlegur hluti af tónlist í dag. Hljóð og mynd endurspegla hvert annað og úr verður samtengdur heimur, stundum er jafnvel hægt að tala um samskynjun. Myndbandið við Morgunmat kom út fyrir rúmlega ári, og var algjör litasprengja í skammdeginu. Hvaða hugmyndir liggja þar að baki?

„Ég skynjaði bara ákveðna liti í laginu og vildi ná þeim fram, gulur litur (fann mikið fyrir grænum en hafði ekki tíma til að skjóta aðra senu), ég elska þetta vídjó, mér finnst það mikið á undan sínum tíma hér á Íslandi, þó ég segi sjálfur frá. Tónlistarmyndbönd skipta miklu máli, mér finnst samt mikilvægt að þau séu skemmtilega unnin, leiðinleg vídjó eru ekki skemmtileg.“

screen-shot-2016-11-16-at-00-48-12

Gaukur í lúfri litapallettu í myndbandinu við lagið Morgunmatur

HA: Þú styðst við „live visuals“ á tónleikum þegar tækifæri gefst til, eins og til dæmis á Sónar í byrjun árs og nú síðast á Airwaves. Leggurðu mikla vinnu í tónleikana þína, að búa til atriði eða auka upplifun tónleikagesta?

„Ég hef reynt að gera það og mun leggja enn meira upp úr því á næstunni. Það sem skiptir samt mestu máli er að eyða allri feimni, tengja vel við áhorfendur og láta þau finna hversu gaman það getur verið að sleppa sér.“


HA: Þú gengur líka í GKR fötum. Er eftirspurn á GKR varningi eins og bolum eða peysum?

„Já, virkilega mikil eftirspurn.“

HA: Er krefjandi að vera eigin Art Director?

Alltof krefjandi, ekki mennskt.“

HA: Hvernig finnst þér að vera tónlistarmaður á Íslandi? Er Íslenskur markaður takmarkandi?

Ísland er jafn takmarkandi og heilinn þinn leyfir.“

HA: Hvað er á döfinni?


Kemur allt í ljós.“

Þegar GKR var inntur eftir frekari svörum vísaði hann í lag sitt; Tala um:

Hef margt í höndunum sem fáir hérna vita um
og ef að stórt er spurt, ekki mikið af svörum
kinka bara kollinum
vona að þú farir burt

gkr-talaum-hugmynd-mynd-gaukur-gretusson

Þess má geta að nýjasta smáskífa Gauks kom út í formi morgunkornskassa. Við báðum hönnuðinn Sigurð Ými, sem einnig hefur komið að tónleikagrafíkinni, að segja okkur frá þessu óvenjulega útspili.

Sigurður Ýmir:Okkur fannst mjög viðeigandi að gera plötuumslagið að alvöru morgunkornskassa frekar en að fara hefðbundnu leiðina. Litapælingarnar koma beint frá vídjóinu við Morgunmat, og Gaukur á það til að vera litríkur, bæði bókstaflega og í táknrænni merkingu. Við tókum smá snúning á klassískum morgunkornsumbúðum og samþeyttum því við persónuleika Gauks. Í leiðinni erum einnig að reyna að ná til fólks með því að skapa hlut sem er gaman að eiga meðfram tónlistinni.“

gkrumslo%cc%88g_crop

Emmsjé Gauti

Emmsjé Gauti er enginn nýgræðingur í hip hop senunni á Íslandi, enda búinn að vera að í 13 ár og hefur verið á miklu flugi undanfarið. Fyrsta plata hans kom út árið 2011, önnur árið 2013 en sú þriðja og nýjasta, Vagg & Velta, er tiltölulega nýkomin í verslanir. Gauti hópfjármagnaði þá síðustu, sem var tvöföld vínylútgáfa, með hjálp Karolina Fund og bauð einnig upp á alls konar aukavarning samhliða útgáfu plötunnar; nælur, derhúfur, kaffibolla og jafnvel snekkjuferð.

eyglo-gisladottir-2

MC Gauti – Mynd: Eygló Gísladóttir

HA: Keypti einhver snekkjuferðina?

„Nei, því miður. Ég er samt sem áður í tveimur facebook grúppum hjá vinahópum sem reyndu að smala saman fólki í þessa ferð. Þetta mun verða að veruleika við tækifæri. Annars var þetta auðvitað góð leið til að fá fjölmiðla með sér í lið. Maður á alltaf að hugsa í djúsí fyrirsögnum.“

HA: Hvernig gekk hópfjármögnunin og afhverju ákvaðstu að fara þessa leið?

„Í raun og veru vissi ég ekki hvort það væri mikill áhugi fyrir rapp vínyl á Íslandi. Ég kynnti mér hópfjármögnunina og fannst það vera sniðug leið til þess kanna hvort það væri áhugi fyrir því að fá Vagg & Veltu á vínyl. Það er dýrt að gera vínylplötu og ég þorði ekki að taka þessa áhættu án þess að sjá hvort það væri spenna fyrir þessu. Karolina Fund er sniðugt því þú getur sett upp hugmynd og ef það er ekki nægur áhugi fyrir henni þá fá allir endurgreitt sem hafa lagt eitthvað til. En ég náði upp í 100% og vel rúmlega það. Útkoman er frábær og ég vona að vínyllinn verði á flakki löngu eftir að ég er hættur.“

vaggogveltacrew_bw

Vagg & Velta krúið

HA: Hönnuðurinn Bobby Breiðholt sá um útlitið á plötunni, ásamt kynningarefni og öðrum varningi. Hvernig var samstarfi ykkar háttað og hverjar voru áherslurnar?

„Í raun og veru var ég í smá bobba þegar ég talaði við Bobby. Ég var búinn að tala við aðra frábæra artista sem voru byrjaðir á artworki fyrir plötuna en mér fannst það bara ekki vera að smella og ég var kominn í tímaþröng. Ég settist niður með Bobby í kaffi og við hentum á milli okkar nokkrum hugmyndum og svo fékk hann í raun og veru frjálsar hendur til að vinna artworkið áfram. Hann sendi á mig hugmynd af coverinu og ég varð strax hrifinn af því. Hann hannaði svo umslagið í kringum myndir sem Magnús Leifsson tók af mér við gerðina á myndbandinu Strákarnir, og það setti tóninn fyrir restina. Í fyrstu fannst mér logoið V&V heldur einfalt en það tók mig ekki langan tíma að sjá fegurðina í því og það varð partur af öllum varning í kringum plötuna. Bobby Breiðholt er frábær listamaður og ég er mjög glaður að hafa fengið hann í lið með mér.“

emmsje-2

HA: Á útgáfutónleikunum varst þú með stóran fána með V&V lógóinu á sviðinu. Finnst þér mikilvægt að skapa sjónræn tengsl við tónlistina með þessum hætti?

„Þetta er allt partur af því að gera heiminn í kringum tónlistina meira spennandi. Það gerir líka helling fyrir mig að leyfa öðrum listamönnum að taka þátt í ferlinu með mér. Persónulega finnst mér sjónræni og áþreifanlegi parturinn vera jafn mikilvægur og sjálf tónlistin. Þetta helst allt í hendur og gerir þetta skemmtilegra.“

HA: Sviðsframkoman var einnig virkilega metnaðarfull, auk þess sem þú kemur reglulega fram með fullskipaðri hljómsveit. Hvernig er að setja svona mikið púður í sviðsframkomu?

„Útgáfutónleikarnir voru algjör snilld. Ég fékk þá hugmynd að setja sviðið í miðjuna og byggja upp palla í kringum sviðið til að hámarka nánd við áhorfendur. Þetta gekk mjög vel enda var ég með fagfólk með mér í liði sem sá um að láta hugmyndina verða að veruleika. Mér finnst skipta miklu máli að sýna tónleikagestum þá virðingu að fara 100% inn í hvert skipti sem ég kem fram. Auðvitað er performanceið misjafnt eins og dagarnir sjálfir en ég reyni að leggja mig allan fram í hvert einasta skipti. Í raun og veru er ég ekki bara að gera þetta fyrir fólkið í salnum heldur fyrir sjálfan mig líka. Það skilar sér alltaf út í salinn þegar manni líður vel á sviðinu.“

esther-thorvaldsdottir

Útgáfutónleikar MC Gauta – Mynd: Esther Þorvaldsdóttir

HA: Húrra Reykjavík var með Pop-Up búð í tilefni útgáfunnar. Vanalega nálgast maður varning á tónleikunum sjálfum, en þú færðir hugmyndina yfir í fatabúðir. Var einhver sérstök hugmynd þar að baki?

„Eins og staðan er núna þá erum við að byggja upp online síðu fyrir varninginn sem ég er að selja. Það er auðvitað hægt að nálgast hann á tónleikum þegar ég spila en þess utan var smá vesen að nálgast hann. Við höfum verið að vinna með merch email addressu og þeir sem hafa keypt af okkur hafa þurft að fara í gegnum smá ferli til að nálgast vöruna. Pop-up búðin var leið til þess að hafa vörurnar aðgengilegri fyrir fólk. Búðin var opin í 7 daga og við héldum meðal annars tónleika fyrsta daginn til þess að vekja athygli á henni.“

eyglo-gisladottir

Mynd: Eygló Gísladóttir

HA: Þú fórst nýlega í samstarf með 66° norður og framleiddir fatnað. Hvernig kom það til?


“Ég var búinn að vera í smá samstarfi við 66° þegar þau stungu upp á að gera jakka fyrir mig og hljómsveitameðlimina. Ég var mjög sáttur með það enda 66° í miklu uppáhaldi hjá mér. Eftir að jakkarnir komu þá stakk ég upp á því að ég myndi kaupa af þeim nokkra jakka og selja sjálfur. Þau tóku vel í það og samstarfið virkaði vel. V&V lógóið sem Bobby Breiðholt gerði fyrir plötuna er svo stílhreint og fallegt og kom virkilega vel út á þessum flíkum. Það væri spennandi að taka samstarfið við 66° lengra og við Geoffrey Skywalker erum með spennandi hluti í kortunum.“

vogv_vinyl_cover
Það er augljóst að Gauti er ekki að hægja ferðina, því skömmu eftir að viðtalið var tekið kynnti hann nýja plötu á vegum nýstofnaðrar plötuútgáfu Priksins, Sticky Records, lét framleiða fyrir sig 3D prentaðan dótakall í sinni eigin mynd, tölvuleik, auk nýrra vesta í áframhaldandi samstarfi við 66°. Við heyrðum í Bobby Breiðholt og fengum hans hlið á hönnunarferlinu.

Bobby Breiðholt: „Ég vildi strax að umslagið væri mótsögn við hugtakið Vagg & Velta. Að plata sem er full af djammi og bangerum væri í lágstemmdu og mínimalísku umslagi. Myndir Magnúsar Leifssonar af Gauta sitjandi einum í einhverri ömmuíbúð undirstrika það. Lognið á undan storminum – eða þynnkan eftirá. Hin mínimalísku áhrif eru svolítið japönsk, með vísun í svokallaða „obi” borða sem eru oft utan á japönskum útgáfum af vestrænum popplötum. Plötunni fylgdi mikið af „merch“ og hentaði útlitið á plötunni vel í það. Hljómsveitin er jafnan hvítklædd á sviði og náði það ákveðinni fullkomnun í samstarfi Gauta með 66° sem framleiddu hvítan regnstakk með útliti plötunnar.“

 

CYBER


Cyber er samstarfsverkefni þeirra Sölku Valsdóttur, Bleach Pistol og Jóhönnu Rakel, Junior Cheese. Síðastliðin þrjú ár hafa þær verið ötulir liðsmenn rapp-kollektívsins Reykjavíkurdætra, en eftir tónleikavertíð sumarsins gáfu þær út fimm laga smáskífuna CYBER IS CRAP undir nýjum formerkjum. Nýju bandi fylgja nýjar áherslur og hafa þær vakið athygli fyrir sérkennilega fagurfræði og vægast sagt óheflað málfar.

cyber-41-of-60_net

Cyber – Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir

HA: Hver er munurinn á því að starfa tvær saman eða innan stærri hóps eins og í Reykjavíkurdætrum?

Það er bara allt aðeins meira lemon squeezy, þ.e.a.s. aðeins auðveldara, það tekur bara eitt símtal eða sms að ákveða hluti en ekki 30 eins og með RVK-dætrum. Kosturinn við að vera tvær kemur kannski helst fram í hljóðheiminum okkar. Við náum að vinna mjög náið saman og með pródúserum og getum þannig þróað hvert lag allt öðruvísi en við erum vanar að gera með Reykjavíkurdætrum.“

HA: Smáskífan kom út í mjög takmörkuðu upplagi, en fór svo í streymi á netinu. Hafið þið mótað ykkur ákveðna stefnu þegar kemur að markaðssetningu og hversu miklu máli skiptir sjónræni þátturinn?

Salka: „Ekki beint, en Jóhanna er mjög mikið fyrir svona limited-edition-exclusivity, eins og með allt merch sem við gerum. Geisladiskurinn var gerður í litlu upplagi (30-50 stk) og verður aldrei prentaður aftur. Jóhanna brennir alveg stenslana og eyðir upphaflegu teikningunum. En hún er alveg smá nöttuð náttla.“

Jóhanna: „Hey, dómari! Nei, það skiptir mig bara máli að við séum að gera eftirsóknarverða hluti. Ég bara elska þegar þú veist að ekki allir í bænum munu eiga eins dót og þú. En ég held að það sé t.d. ein leið til að láta taka eftir sér, að gera fáa og fallega hluti.“

cyber-6-of-60_net

Cyber – Mynd: Hrefna Björg GylfadóttirHA: Sjónheimur Cyber vísar aftur fyrir sig í tíma með skírskotunum í 90’s og 00’s tísku, en fólk hefur misjafnar skoðanir á fagurfræðilegu gildi þessara áratuga. Er ljótt fallegt?

Jóhanna: „Er eitthvað í alvöru ljótt? Erum við ekki bara með mismuandi augu?“

Salka: „Mér finnst þetta kannski frekar snúast um að það sem er „asnalegt“ er kúl. Ef þú getur rokkað eitthvað sem er asnalegt þá gefur þú frá þér þá ímynd að þú sért mjög sjálfsöruggur og þar að leiðandi verður fyrirbærið sjálft kúl. Ég held að allt geti orðið fallegt í augum fólks ef rétta manneskjan klæðist því á réttan hátt.“


HA: Er træbalið að koma til baka?

„Það er komið og farið kallinn minn, keep up wif da times“.

HA: Í nýrri bylgju feminismans hefur verið rætt um „Softness as a Weapon“; að taka kyngerðum litum og óvæginni framsetningu á sjálfinu fagnandi og nýta til að ögra viðteknum hugmyndum um kyn. Þið eruð einmitt með einkennandi litapalletu, mjúka pastel liti og „kvenlega tóna“, bleikt og fjólublátt. Eru meiningar í þessu litavali hjá ykkur og geta tilfinningar verið pólítískar?

„Litavalið var ekki beint valið á neinum pólitískum forsendum en vissulega er ástæðan fyrir því að okkur finnast þessir litir fallegir sú að við eigum okkur fyrirmyndir sem hafa klæðst og skartað þeim. Við erum þess vegna kannski second generation af soft-týpunni. En annars er pastelið líka frekar búið, við ætlum að drepa það eftir Airwaves og halda jarðarför á baðherberginu á Oddson!“

cyber-38-of-60_net

Cyber – Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir

HA: Plötuumslagið og kynningarefnið er morandi í vísunum í stafræna menningu og því sem hefur verið kallað hin nýja fagurfræði – þar sem hið stafræna og hið áþreifanlega blandast saman. Hvaðan kemur sá innblástur?

Salka: „Við unnum umslagið með Grétu Þorkelsdóttur sem er mjög hrifin af þessu concepti, þ.e.a.s. að blanda saman stafrænu og áþreifanlegu efni. En augljóslega vísar það stafræna í nafnið okkar, Cyber. Jóhönnu langaði líka svo mikið í tramp-stamp flúr og eina leiðin fyrir mig til að tala hana af því var að fallast á að setja tramp stampið á plötucoverið. Jóhanna er nefnilega undirfatamódel hjá vefversluninni minni blúndurogfleira.co.uk og mig grunaði að sölu færi hrakandi ef hún skartaði einhverju huge ass tribal á mjóbakinu.“

framhlid

Smáskífan CYBER IS CRAP


HA: Í stað hefðbundinna útgáfutónleika buðuð þið fólki í heimsókn og hlustunarpartí í vinnuaðstöðunni ykkar úti á Granda. Er mikilvægt að finna upp á nýjum leiðum til að kynna efnið sitt í stað þess að fara hefðbundar leiðir eins og að herja á barina?

„Já það held ég, sérstaklega í dag þar sem áherslur í tónlist og markaðsetningunni sem henni fylgir hefur breyst svo mikið með öllu digitalinu. Það snýst allt um að bjóða upp á eitthvað spennandi, að skapa sér einhvern heim sem fólk vill taka þátt í. Þess vegna fannst okkur liggja fyrir að bjóða fólki inn í vinnurýmið okkar, eða í þann heim sem tónlistin okkar varð til.“

cyber-4-of-60_net

Cyber – Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir

HA: Hver eru svo næstu skref?

„Svo mikið. Við erum að fara koma með jóla-línuna af bestu jólagjöfum sem þú getur boðið fólki upp á: Rúmföt, nærbuxur og ilmkerti. Ýmislegt fleira. Síðan erum við bara á fullu að vinna í nýju efni, það er að segja í tónlist!“

Gréta Þorkels hönnuður hafði þetta segja um samstarf hennar með Cyber:

Gréta:CYBER IS CRAP er suðupottur áhrifa og tilvísana. Hönnunarferlið var hratt og einkenndist af spurningum eins og „hvað finnst þér um tribal?“ og „er of langt gengið að nota letur úr goth tattoo lettering generator?“ Undir miklum áhrifum frá hetjum mínum og þeirra, saumaði ég hugmyndirnar okkar saman úr chrome-bakgrunni af gamalli myndasíðu, ramma úr Word, tölvuteiknaðar keðjur, Cloister Black & Helvetica, (því afhverju myndi maður nota Helvetica lengur?) og 3D útgáfa af tribalmunstri af bol sem Junior Cheese á. Prentað úr ljósritunarvél og handskorið á 4. hæðinni í mænuherbergi LHÍ. Stundum þarf maður ekki að hugsa það mikið um hlutina.“

bakhlid

Træbalið er víst komið og farið. Smáskífan CYBER IS CRAPÞað er ljóst að gróskan og hraðinn í íslensku rappi er gífurlegur og þess að merkja þurfti að endurskrifa greinina í sífellu meðan hún var unnin, þar sem viðmælendur kepptust við að gefa út ný lög og nýjan varning. Sturla Atlas voru nýlega bókaðir á bransahátíðina Eurosonic Noorderslag í Hollandi, GKR gaf loksins út fatnað en lagerinn seldist upp á einni helgi og skömmu síðar kom ofangreind smáskífa í morgunkornskassanum. Gauti kynnti nýja plötu með 3D prentuðum dótakalli og tölvuleik og Cyber hafa þegar auglýst yfirvofandi jarðarför pastelsins. Með fjölbreytt vopn í höndum eru tækifærin endalaus og ljóst er að við áhorfendur eigum von á fleiri nýjungum þegar kemur að markaðssetingu tónlistar.


Texti : Ingi Kristján Sigurmarsson

Skildu eftir svar