Fatahönnun, Textílhönnun
Leave a comment

Endurkoma

Don Cano

Ef eitthvað fangaði stemningu níunda áratugarins á Íslandi voru það fötin frá Don Cano. Litskrúðugar flíkurnar, sem voru hannaðar og framleiddar á Íslandi, boðuðu eitthvað brakandi ferskt í upphafi áratugarins. Á þessum tíma var break-dansinn í algleymingi, eða skrykk-dansinn eins og hann var kallaður á góðri íslensku, og þegar svölustu dansararnir og afreksfólk í íþróttum fór að sjást í fötum frá Don Cano varð fatamerkið á svipstundu eitt vinsælasta tískumerkið í sögu landsins. Fötin voru með eindæmum vönduð, létt og þægileg og höfðuðu til allra aldurshópa. Æðið var um tíma svo yfirgengilegt að slegist var um flíkurnar þegar þær komu í verslanir og um miðbik áratugarins gekk annar hver landsmaður í fötum frá Don Cano.

don-cano5_net

Nú þremur áratugum síðar er orðrómur á kreiki um endurkomu Don Cano. Er það tóm óskhyggja eða er eitthvað til í þessum sögusögnum? Jan Davidsson, fyrrum eigandi og aðalhönnuður Don Cano, er eini maðurinn sem getur svarað því.

„Kannski er kominn tími til að viðurkenna að endurkoma Don Cano hefur verið í gerjun hjá mér um nokkurt skeið og nú er svo komið að ný lína er farin að taka á sig mynd,“ segir Jan í símann þegar hann er inntur eftir sögusögnunum. Eftir stutt spjall býður hann okkur að kíkja í heimsókn til að skoða frumgerðir úr nýju línunni.

Jan tekur vel á móti okkur. Hann er í þykkri, víkingalegri peysu, stuttbuxum og íþróttaskóm. Íþróttamannslegir kálfarnir bera þess merki að hann sé í fantagóðu formi þótt hann sé nýskriðinn yfir 70 ára múrinn. „Já, ég spila mikið golf og á góðum dögum, þegar ég næ góðri tengingu við boltann, er ég meira að segja nokkuð góður,“ segir Jan léttur í bragði.

dsc03080

Íslenskur sjómaður eða japanskur stríðsmaður?

Eftir stutt spjall við Jan er auðséð að hann er metnaðarfullur maður sem virðist eiga auðvelt með að skilja hismið frá kjarnanum. Þeir sem þekkja til vita að hann er mikill reynslubolti á sínu sviði en eftir Don Cano-ævintýrið tók hann við stöðu yfirhönnuðar hjá 66°Norður og seinna stofnaði hann Cintamani.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni, sérstaklega framförum í textíliðnaði og á framleiðslusviði almennt. Það má segja að ég hafi fengið áhugann í vöggugjöf,“ segir Jan sem er fæddur og uppalinn í nágrenni við Ulericehamn, lítinn iðnaðarbæ á Vestur-Gautlandi í Svíþjóð, þar sem foreldrar hans störfuðu í fataverksmiðju. „Þegar ég var smápolli var ég alltaf á vappi um verksmiðjuna og var með nefið ofan í öllu,“ segir Jan og sýnir okkur teikningar og snið sem hann er að vinna með fyrir nýju Don Cano-línuna. Hann sýnir okkur efnisbúta og talar um eiginleika þeirra af ástríðu. Þar á meðal er ofurlétt efni frá Ísrael sem hefur nærri yfirnáttúrulegan öndunareiginleika og er því tilvalið fyrir íþróttafatnað.

don cano25.tiff

Síðustu ár hefur Jan ferðast mikið og heimsótt saumaverksmiðjur og textílframleiðendur um allan heim og nú eftir nokkurra ára leit segist hann hafa fundið réttu efnin og rétta fólkið til að vinna með en vill ekki fara nánar út í það. Hins vegar stendur ekki á svarinu þegar hann er beðinn um að lýsa væntanlegri línu frá Don Cano. „Í nýju línunni er ég að tengja aftur við klæðskerann innra með mér. Jakkarnir í línunni munu gefa þessa einstöku tilfinningu um hið fullkomna snið,“ segir hann og vippar sér fimlega í jakka úr nýju línunni. Hann réttir handleggina beint upp í loft til að sýna teygjanleikann í aðsniðnum jakkanum og útskýrir að galdurinn liggi í því að hafa fóðrið úr efni sem gefur meira eftir en ytra byrði jakkans. Jan fer vandlega yfir hvert smáatriði; saumana, vasana, staðsetningu á vösum og staðsetningu handarkrika og axla. Hann setur á sig hettuna og rennir upp háum kraganum með rennilás sem vísar örlítið skáhallt þannig að aðeins hluti andlitsins er sjáanlegur. Hettan liggur þétt upp að andlitinu og á henni er lítið der sem minnir einna helst á skyggni á gömlum sjóhatti. Jan er í einni svipan orðinn eins og sjálfskipuð ofurhetja, sem minnir einna helst á blöndu af íslenskum sjómanni og japönskum stríðsmanni. „Ég hef verið undir miklum áhrifum frá klæðnaði japanskra samúræja stríðsmanna. Það er eitthvað þar sem sífellt togar í mig,“ segir Jan og hreyfir sig fimlega um rýmið eins og stríðsmaður með sverð sem undirbýr sig fyrir bardaga.

don-cano0113

Ráðgjafinn sem varð eftir

Þegar Jan var tvítugur fór hann í klæðskeranám til Gautaborgar og að námi loknu flutti hann til London og starfaði þar sem klæðskeri hjá tískuhúsinu James & James. Fyrirtækið stóð við hina frægu klæðskeragötu Savile Row en þar sá Jan til þess að breskur aðall væri sæmilega til fara.

Jan segir að röð tilviljana hafi svo ráðið því að hann hafi komið til Íslands fyrst árið 1970. Á þeim tíma var hann starfsmaður norsks ráðgjafafyrirtækis og var í teymi sem kom til landsins í boði íslenska ríkisins til að veita ráðgjöf við framleiðslu. Á þeim tíma höfðu íslenskir ráðamenn háleita drauma um að hér á landi væri hægt að byggja upp blómlegan textíl- og fataiðnað og styrkir frá Sameinuðu þjóðunum áttu að gera það mögulegt.

„Ég varð samstundis hugfanginn af Íslandi og þó að ég hafi aldrei ætlað að stoppa hér lengi þá var ég sá eini úr hópnum sem ílengdist og ég er hér enn,“ segir Jan sem starfaði sem ráðgjafi fyrstu árin á Íslandi. „Ég hef sérstakan áhuga á því að straumlínulaga framleiðsluferli og það var einmitt það sem ég gerði fyrir fjölda íslenskra fyrirtækja, þar á meðal minn uppáhaldskúnna, Karnabæ,“ segir Jan. Hann minnist þess að þegar mest var voru um 400 starfsmenn hjá Karnabæ og þeir höfðu vart undan við að sauma hinar geysivinsælu Bandito-gallabuxur, sem þá voru það heitasta á íslenskum markaði.

don cano18.tiff

Slegist um herra Cano

Talið berst að upphafi Don Cano-ævintýrsins. Jan segir okkur að merkið hafi orðið til um það leyti sem hann stofnaði framleiðslufyrirtækið Scana með Karli Magnússyni í kringum árið 1980. „Ég fékk mörg gylliboð á þessum tíma en ég er gæddur þeim „eiginleika“ að vilja aldrei fara auðveldu leiðina, heldur veðja ég allaf á lítilmagnann,“ segir Jan sem var yfirhönnuður og stýrði framleiðsluferlinu hjá Scana.

don-cano15_net

Fyrstu flíkurnar undir merkjum Don Cano birtust í verslunum árið 1981 og næstu árin þurfti fyrirtækið að glíma við það lúxusvandamál að fötin voru alltaf uppseld. „Okkur hafði aldrei órað fyrir slíkum viðtökum en það var nærri ómögulegt að anna eftirspurn. Verslunareigendur slógust um að selja fötin og fólk hreinlega barðist um flíkurnar í búðunum,“ segir Jan og bætir við að föt frá Don Cano hafi einnig selst vel í nágrannalöndunum og jafnvel í Japan um tíma. Vel lukkaðar markaðsherferðir Don Cano áttu sinn þátt í velgengninni. Módelin voru ekki af verri endanum en Hólmfríður Karlsdóttir sást nokkrum sinnum í auglýsingum fyrir Don Cano og það áður en hún hlaut titilinn Ungfrú alheimur árið 1985. Það varð fyrirtækinu til happs að Jan hafði töluverða reynslu af markaðsetningu enda hafði hann áður unnið sem ráðgjafi með markaðsstjórum stórra fatamerkja bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. „Ég hef alla tíð haft sterka þörf fyrir að gera eitthvað öðruvísi, eitthvað einstakt og að mínu mati kristallaðist það í Don Cano. Á þeim tíma vorum við í fararbroddi bæði í hönnun og framleiðslu á Íslandi og vorum uppfull af orku, bjartsýni og sjálfsöryggi,“ segir Jan.

don-cano12_net

Klæddi pólfara og forseta

Í miðri uppsveiflu Don Cano-ævintýrsins flutti Jan til Bandaríkjanna til að sinna fleiri verkefnum: „Ég var með mörg járn í eldinum á þessum tíma og það að ég bjó í Bandaríkjunum bitnaði því miður á Don Cano og átti ef til vill stóran þátt í því að fyrirtækið hætti loks rekstri.“ Þegar Jan flutti aftur heim frá Bandaríkjunum árið 1989 gekk hann við liðs við 66°Norður, sem þá var betur þekkt sem Sjóklæðagerðin, til að hanna útivistarlínu. Á þeim tíma var fyrirtækið með fjölmörg undirmerki og vörumerkið 66° var ekki mjög sterkt. „Ég átti stóran þátt í því að breyta áherslum og sameina öll vörumerkin undir eitt og sama merkið; 66°Norður. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í því að byggja upp vörumerkið og ég er ánægður að sjá hvað fyrirtækinu vegnar vel í dag. Þar er gott fólk og stefnan er skýr,“ segir Jan.

Eftir nokkur ár hjá 66°Norður hóf Jan samstarf með Hermanni Sigursteinssyni og saman stofnuðu þeir sitt eigið fyrirtæki, Cintamani, sem sérhæfði sig í útivistarfatnaði…

[…] – lestu lengri útgáfu viðtalsins í HA#4

…Þótt Jan hafi augljóslega verið upptekinn síðustu áratugi hefur hann alltaf gefið sér tíma til að sinna klæðskerastörfum fyrir útvalda einstaklinga. Á sínum yngri árum klæddi hann breska aðalsmenn og hefðarfrúr og það breyttist ekki þegar hann flutti til Íslands. Frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta, þótti fátt betra en að spóka sig í þægilegum fötum frá Don Cano og Jan sinnti einnig klæðskerastörfum fyrir Ólaf Ragnar Grímsson forseta.

don-cano7_fix_net

Enn dyggir aðdáendur

Síðustu ár hefur Jan framleitt fatnað undir merkinu Jan Davidsson en það merki rekur hann ásamt dóttur sinni, Freyju Andreu Davidsson. Þykkar peysur og vígalegir loðjakkar eru meðal þess sem er að finna í fatalínunni og fötin bera augljós merki um að vera hönnuð af alúð og metnaði.

Þegar Jan er spurður af hverju hann hyggist blása lífi í Don Cano segist hann ekki geta svarað því auðveldlega. „Stundum rogast maður lengi með hugmyndir í kollinum og að lokum verður maður að koma þeim frá sér. Hver veit, kannski er ég með smá samviskubit yfir því að hafa vanrækt Don Cano á þeim tímapunkti þegar fyrirtækið þurfti hvað mest á mér að halda. En mig langar að taka það fram að ég hef aldrei litið á hönnun sem vinnu; þetta er bara innri þörf sem kemur náttúrulega og ég hef aldrei gert þetta peningsins vegna. Né heldur hef ég áhuga á að sigra heiminn, því hvers virði er það að sigra heiminn ef maður tapar sér í leiðinni?“

don-cano0097

Að sögn Jans verður nýja Don Cano-línan framleidd í Lettlandi en í fyrstu verður hún aðeins markaðssett á Íslandi. „Það er greinilegt að merkið á sér enn dygga aðdáendur því ég finn fyrir mjög miklum áhuga. Samt sem áður ætla ég að byrja eins smátt og ég mögulega get og líklega mun ég aðeins gera sölusamning við eina búð til að byrja með,“ segir Jan og bætir við að jakkarnir í nýju línunni verði kynhlutlausir eða „gender neutral“; þeir eru með öðrum orðum ekki hannaðir með sérstakt kyn eða aldur í huga.

Það er ekki hægt annað en að enda spjallið á að spyrja Jan hvenær hann ætli að sýna nýju línuna frá Don Cano: „Ég hef aldrei kunnað neitt sérstaklega vel við það að setja mér tímamörk og ég þoli það mjög illa ef einhver annar reynir að setja mér tímaramma. Ég vil miklu frekar taka mér nægan tíma, vinna hlutina vel og kynna afraksturinn þegar ég er fullkomlega sáttur. Hver veit nema Don Cano láti sjá sig á HönnunarMars 2017?“

– Endurkoma Don Cano er grein úr HA nr.4


Texti : Arnar Fells Gunnarsson

Skildu eftir svar