Fatahönnun
Leave a comment

Samtvinna

Haust- og vetrarlínur nokkurra íslenskra fatahönnuða

Fatahönnunarfélag Íslands hefur undanfarin ár staðið fyrir árlegri samsýningu félagsmanna í tengslum við HönnunarMars. Að afstöðnum HönnunarMars, 10.–13. mars 2016, stóð félagið fyrir sýningunni Showroom Reykjavík (SR) í Ráðhúsi Reykjavíkur og listrænn stjórnandi sýningarinnar var Guðrún Sturludóttir. Á sýninguna voru valdir sjö íslenskir fatahönnuðir sem sýndu fatalínur sínar fyrir haust/vetur 2016–2017.  Sýningin var sett upp sem vörusýningarrými* (e. showroom) að erlendri fyrirmynd þar sem markmiðið var að kynna fatalínur komandi árstíða fyrir erlendum og innlendum kaupaðilum og blaðamönnum auk þess sem sýningin var opin gestum og gangandi. Mikil ánægja var með sýninguna meðal þátttakenda og skipuleggjenda enda þótti umgjörð sýningarinnar vera til fyrirmyndar og aðsókn gesta fór fram úr björtustu vonum.

Sjaldan hafa aðdáendur íslenskrar fatahönnunar komist jafn snemma í návígi við fatalínur komandi hausts eins og á SR en línur hönnuðanna sjö eru nú flestar komnar í verslanir og biðin eftir því sem hugurinn girntist í mars því senn á enda. HA talaði við hönnuðina og skoðaði nýju línurnar.

Mynd: Kolbrún Klara Gunnarsdóttir

 

KYRJA

„Ég hanna eftir eigin innsæi,“ svarar Sif Baldursdóttir, hönnuður Kyrju, aðspurð um hvert hún hafi sótt innblástur í þá fatalínu sem hún sýndi á SR. „Ég sé sjálf um alla mína sníðagerð og byrja kannski með væga hugmynd um staka flík sem ég síðan vinn beint í snið. Út frá því mótast og þróast sú hugmynd síðan yfir í heildstæða fatalínu,“ segir Sif og bætir við að bláa mohair-kápan sé ákveðin lykilflík í línunni. Hún hafi unnið mikið að því að finna nýja útfærslu á ermum og leikið sér með kraga í þessari tilteknu línu sem er væntanleg í Kiosk, Laugavegi 65, á næstunni.

_kyrja2_net _kyrja6_net

„Mér fannst skemmtilegt að geta sýnt fólki aðeins hvað væri í gangi,“ segir hún um þátttöku sína í SR; „að leyfa fötunum að standa fyrir sínu – ekki endilega að vera með eitthvað „show.““ Hún hefur áður kynnt merki sitt, Kyrju, í vörusýningarrými í París en segir að til að slík kynning skili sér almennilega þurfi að taka þátt oftar en einu sinni og að það sé mjög kostnaðarsamt.

 

HELICOPTER

Undir þetta tekur Helga Lilja Magnúsdóttir hjá fatamerkinu Helicopter, sem tvisvar hefur sýnt föt á sýningum erlendis. Hún segir ung íslensk fatamerki því miður skorta fjárhagslega getu til að taka reglulega þátt í erlendum sýningum en segir það jafnframt mikilvægt eigi þáttakan að bera árangur. „Mér fannst takast rosa vel til með SR. Góð mæting og útlitið á sýningunni var flott. Við skiptumst á að vera með yfirsetu á meðan sýningunni stóð og fólk virtist almennt mjög meðvitað um sýninguna og mætti!“ Helga sendir frá sér tvær til þrjár línur á ári en línan sem hún sýndi á SR, „As seen on TV“, er haust- og vetrarlínan 2016/2017 og er fáanleg í Kiosk. Föt frá Helicopter hafa einnig verið fáanleg í Snúrunni, Síðumúla 21, og Garðshorni á Akureyri.

 

_helicopter_grey_dress_short_14_flat2 _helicopter_green_dress_pullover_ocean_01

Þegar Helga flutti til Berlínar heillaðist hún algjörlega af marglyttum sem hún sá í sædýrasafni þar í borg og út frá þeim vann fyrstu línu sína þar ytra. „Ég var samt ekki búin að afgreiða marglytturnar þegar sú lína var tilbúin svo ég fór að teikna með bleki í vatn og taka myndir af því sem líktist gripörmum marglyttna. Öll línan er þannig innblásin af sjónum, vatninu og marglyttunum en með nýrri nálgun,“ útskýrir Helga sem segir ýmislegt spennandi í farvatninu fyrir næstu línu Helicopter. „Ég er að prófa að vinna línuna mína öðruvísi en áður og er mjög spennt að sjá hvort það muni ganga upp!“

 

ANÍTA HIRLEKAR

„Það er jákvætt að hafa eitthvað sem heldur utan um íslenska fatahönnun. Þetta er lítill iðnaður hér á landi og það er gott að finna fyrir svo mikilli samstöðu meðal fatahönnuðanna. Spennandi væri að fara með SR erlendis og sýna þannig hvað Ísland hefur fram að færa. Það er fínt að byrja á Íslandi og læra af því en markmiðið þarf alltaf að vera að geta síðar farið á erlendan markað,“ segir Aníta Hirlekar sem sýndi á SR vor- og sumarlínu 2016, sem hún hafði áður frumsýnt á London Fashion Week, auk nýrrar vetrarlínu. Þar vann hún áfram með kunnugleg stef úr fyrri línum: marglitað og óreiðukennt flæði á bakhlið útsaums.

Aníta notar áhugaverðar og litríkar litasamsetningar og segist horfa mikið til verka Nínu Tryggvadóttur. „Ég notaði fín efni í þessa línu, svo sem silki og siffon, reif þau niður og saumaði úr þeim.“ Textílinn vann hún þannig sjálf – enda nefnir hún textílinn sem einkennandi fyrir sitt merki – og kallaði fram andstæður með einföldum, skúlptúrískum formum. Aníta stefnir á að gera tvær línur á ári en segir að þar sem hver flík sé handgerð og mikið lagt upp úr gæðum verði augljóslega ekki um fjöldaframleiðslu að ræða. Flíkurnar sem hún kynnti í mars verða aðeins framleiddar eftir pöntun og geta áhugasamir sett sig beint í samband við Anítu.

 

MILLA SNORRASON

Hildu Gunnarsdóttur, sem hannar undir merkinu Milla Snorrason, finnst gaman að fara í gönguferðir innanlands og fá þaðan innblástur. Línan „Vondugil“ var einmitt unnin að hluta til úr ferð um hálendið í fyrra og dregur nafn sitt af einu örnefnanna sem varð á vegi Hildu. „Ég tók myndir af snjóalögum í fjöllum og notaði formin úr þeim, ásamt yfirborðsmyndum af snjó og sandi, til þess að búa til mynstur fyrir línuna. Ég er byrjuð að undirbúa nýju línuna en þar vinn ég meðal annars út frá ferðalagi um Fjallabak nyrðri,“ segir Hilda sem hefur að jafnaði gert eina línu á ári. Hluti úr línunni „Vondugil“ er nú þegar fáanlegur í Kiosk.

strakagil - milla snorrasonstrakagil - milla snorrason

„Ég var mjög ánægð með SR sem slíkt. Þetta var mjög góð kynning á línunum fyrir íslenska kúnna og íslenskan markað en gallinn var sá að það komu ekki margir erlendir kaupaðilar eða innkaupastjórar til Íslands. Vörusýningarrými fyrir íslenska fatahönnuði er algerlega þess virði að styrkja en það mætti færa það út fyrir landsteinana,“ segir Hilda.

 

MAGNEA

Magnea Einarsdóttir tekur í sama streng og bætir við að ef aftur verði af SR sé tvennt í stöðunni: að halda það erlendis eða „einfaldlega“ flytja inn erlenda kaupaðila. „Þetta er í raun alltaf tvíþætt hjá mér,“ svarar Magnea þegar hún er innt eftir því hvaða hugmyndir liggi að baki haust- og vetrarlínunni 2016/2017; „textílþróun í bland við ferskan tískuinnblástur annars staðar frá.“ Hún þróar öll efni frá grunni og vinnur með hugmyndir sem hún hefur verið að þróa áfram í hverri línu MAGNEU síðastliðin fjögur ár, það er að vinna með prjónaaðferðir og nota til þess ull í bland við óhefðbundnari efni. „Fyrir þessa línu var ég að skoða barnamyndir af sjálfri mér frá byrjun tíunda áratugarins þar sem ég er í missmekklegum og oft og tíðum bleikum fötum og krumpugöllum. Þar að auki skoðaði ég sportfatnað frá tímabilinu þar í kring, 80’s og 90’s, og fékk ýmis „element“ að láni þaðan.

_magneayp4a8695_flatten_netyp4a8535-1_net

Ég geri eina stóra línu á ári og hluti hennar er nú þegar fáanlegur í verslunum,“ segir Magnea en auk þess að fást í Kiosk hefur MAGNEA fengist í Mýrinni í Kringlunni. Magnea fékk í vor úthlutað styrk frá Hönnunarsjóði Íslands og stefnan með næstu línu er tekin á erlendan markað.

 

ANOTHER CREATION

Stór hluti af hugmyndafræði Another Creation er fjölnotagildi – vandaðar fjölnota flíkur sem á auðveldan hátt er hægt að breyta til að hæfa bæði breytilegu tilefni og smekk. „Margir enda oft á að kaupa sér svart þótt þeir séu mjög hrifnir af einhverju aðeins hressara. Efnið í kjólunum, buxunum og samfestingunum er því tvöfalt. Það er svart öðru megin en það er hægt að snúa flíkunum við,“ útskýrir hönnuðurinn, Ýr Þrastardóttir.

Á kápum og jökkum er hægt að skipta um ermar, kraga og hettur og segist Ýr sjá fyrir sér að í komandi línum merkisins komi inn nýjungar í fylgihlutum, svo sem nýjar ermar og hettur, sem hægt verði að nota við flíkur úr þeirri línu sem hún sýndi á SR. „Þróun línunnar er búin að taka svolítið langan tíma en núna er ég samt byrjuð að þróa nýjar flíkur fyrir næsta haust. Ég hugsa að ég muni héðan í frá aðeins gera eitt „season“ á ári. Það hentar mér aðeins betur auk þess sem sumartímabilið hérna er í raun svo stutt að mér finnst konur frekar vera að versla þunna, hvíta sumar- og siffonkjóla þegar þær eru staddar erlendis og í meiri hita. Á Íslandi er haustið meira allsráðandi,“ segir Ýr sem telur SR hafa verið mjög góða kynningu á línunni fyrir íslenskan markað en Another Creation er fáanlegt í P3, Miðstræti 12.

EYGLO

„Þetta er glæpalína. Mikið um vopn og dautt fólk,“ segir Eygló Margrét Lárusdóttir um „Murder she wrote“, haust- og vetrarlínu EYGLO sem er innblásin af samnefndum sjónvarpsþáttum og inniheldur meðal annars prjónakjólinn „Litla Hraun“. „Í línunni vinn ég mikið með prjón og svo laserskorin efni,“ bætir hún við og tekur sem dæmi „Jessicu“-jakkann – bikerjakka úr samanlímdu ultrasuede þar sem hægt er að ná fram þrívíddaráhrifum með því að laserskera mynstur í ytra lagið þannig að litur neðra lagsins skíni í gegn. „Það var rosa góð mæting og gaman að sýna gestum og gangandi hvað maður er að bauka,“ svarar Eygló aðspurð um þátttöku sína í SR.

 

Hún myndi hiklaust taka þátt ef af SR yrði í annað sinn að því gefnu að ný lína yrði tilbúin í tæka tíð. Hrynjandin í tískuheiminum sé sífellt að breytast og sjálf sé hún tvístígandi varðandi það hvernig hún vilji haga sínum línum í framtíðinni; hvort hún geri hugsanlega eina stóra línu á ári í stað tveggja. „Heilinn er kominn á fullt í sambandi við næstu línu. Ég er í áframhaldandi textílpælingum og það er alltaf gaman að byrja upp á nýtt; byrja á nýrri línu og fá frábærar hugmyndir,“ segir Eygló. Fyrir áhugasama spennufíkla er „Murder she wrote“ komin í Kiosk.


Texti : Sunna Örlygsdóttir

Skildu eftir svar