Engin brögð í tafli
—
Um hönnun og furðulegar flugur á einvígi aldarinnar
Viðureign Bobby Fischers og Boris Spasskys sem fór fram í Laugardalshöll 11. júlí 1972 er án efa eitt frægasta skákeinvígi sögunnar. Baráttan, sem New York Times kallaði „einvígi aldarinnar”, var ekki aðeins milli tveggja manna heldur milli ríkjandi stórvelda þess tíma, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Á hápunkti kalda stríðsins mættust stórveldin á miðri leið og háðu þessa taugatrekkjandi orrustu á Íslandi. Rússar höfðu þá haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og töldu það sanna vitsmuna- og hugmyndafræðilega yfirburði sína. Það var því allt í húfi fyrir Bandaríkjamenn og gríðarleg pressa var lögð á herðar hins unga sérvitrings, Bobby Fischers. Heimamenn fundu einnig fyrir pressunni, enda var þetta í fyrsta sinn sem allur heimurinn horfði til Íslands. Nú skyldi hanna umgjörð einvígsins með sæmandi hætti. Heimsbyggðin fylgdist forviða með þegar stórmeistararnir hófu leikinn. Fischer virtist eiga erfitt með einbeitingu í fyrstu skákinni og gerði furðuleg mistök sem varð til þess að Spassky sigraði örugglega. Fischer virtist í andlegu ójafnvægi og hafði allt á hornum sér. Hann kvartaði yfir því að taflborðið væri of glansandi, ljósin …