Innanhússarkitektúr og húsgagnahönnun
Leave a comment

Engin brögð í tafli

Um hönnun og furðulegar flugur á einvígi aldarinnar

Viðureign Bobby Fischers og Boris Spasskys sem fór fram í Laug­ar­dal­s­höll 11. júlí 1972 er án efa eitt frægasta skákeinvígi sögu­nnar. Baráttan, sem New York Times kallaði „einvígi ald­ar­innar”, var ekki aðeins milli tveggja manna heldur milli ríkjandi stórvelda þess tíma, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Á hápunkti kalda stríðsins mættust stórveldin á miðri leið og háðu þessa taugatrekkjandi orrustu á Íslandi. Rússar höfðu þá haldið heimsmeistaratitlinum í skák samfleytt í 24 ár og töldu það sanna vitsmuna- og hugmyndafræðilega yfirburði sína. Það var því allt í húfi fyrir Bandaríkjamenn og gríðarleg pressa var lögð á herðar hins unga sérvitrings, Bobby Fischers. Heimamenn fundu einnig fyrir pressunni, enda var þetta í fyrsta sinn sem allur heimurinn horfði til Íslands. Nú skyldi hanna umgjörð ein­vígsins með sæmandi hætti.

laugardalsho%cc%88llin

Laugardalshöllin undirbúin fyrir viðbruðinn sem kom Íslandi á kortið

Heimsbyggðin fylgdist forviða með þegar stórmeistararnir hófu leikinn. Fischer virtist eiga erfitt með einbeitingu í fyrstu skákinni og gerði furðuleg mistök sem varð til þess að Spassky sigraði örugglega. Fischer virtist í andlegu ójafnvægi og hafði allt á hornum sér. Hann kvartaði yfir því að taflborðið væri of glansandi, ljósin of björt, myndavélar sjónvarpsins væru of háværar og þar fram eftir götunum.

svipir

Þegar mótshaldarar hunsuðu kvartanir Fischers neitaði hann að mæta aftur að taflborðinu og Spassky var dæmdur sigur í annarri skákinni. Staðan var 2–0 Rússum í vil og pressan virtist vera hinum unga Fischer ofviða. Þegar þarna var komið sögu var viðruð sú hugmynd að dæma Spassky sigur og krýna hann heimsmeistara en Rússinn hafði engan áhuga á því að taka titilinn með þeim hætti; til þess var hann of mikill keppnismaður. Þess í stað samþykkti Spassky duttlungakennda skilmála Fischers og þriðja skákin var tefld í bakherbergi, á annarri skákplötu, víðs fjarri myndavélum og áhorfendum.

fisher-og-spasky

Breytingarnar höfðu góð áhrif á Fischer og nú vann hann hverja skákina á fætur annarri. Eftir magnaðan sigur hans í þrettándu skákinni voru þjálfarar Spasskys orðnir óþreyju­fullir. Þeir voru sannfærðir um að útsendarar frá Bandaríkjunum hefðu komið fyrir búnaði í stólunum sem sendu frá sér rafsegulbylgjur sem virkuðu truflandi á Spassky. Eftir umfangsmikla leit mótshaldara og íslensku lögreglunnar í taflborði, stólum og ljósabúnaði fundust þó engin grunsamleg njósnatæki eða bylgjusendar. Það eina sem þeir höfðu upp úr krafsinu voru tvær dauðar húsflugur og keppnin var því látin halda áfram.

fluga-sott

Gera þurfti hlé á einvíginu þegar Bobby Fischer kom auga á dauða flugu í ljósabúnaðinum sem hannaður var af Aðalsteini Tryggvasyni, húsrafvirkja Laugardalshallar. Flugan vakti svo mikla tortryggni hjá Fischer að Aðalsteinn þurfti að príla upp stóran stiga og fjarlægja hana. Athugið að á myndinni situr Fischer ekki í stólnum sem Hjalti Geir Kristinsson hannaði, enda féllu þeir ekki í náðina hjá hinum verðandi meistara.

Fischer og Spassky tefldu það sem eftir var af mótinu með stórveldin andandi ofan í hálsmálin. Eftir sigur Fischers í 21. skákinni varð ljóst að honum hefði tekist að stöðva 24 ára sigurgöngu Rússa og hann var krýndur heimsmeistari í skák, með 12½ vinning á móti 8½ vinningi. Fischer skráði sig þannig á spjöld sögunnar en sigur hans þótti einstakur fyrir þær sakir að í Bandaríkjunum var engin teljandi skákmenning. Systir Fischers lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að sigri bróður hennar mætti líkja við það ef eskimói hefði búið sér til tennisvöll í snjó og æft sig uns hann varð heimsmeistari.

taflbord_fullres_brunt_bw

Mynd: Þjóðminjasafn Íslands

Hönnun sögusviðs fyrir þessa taugatrekkjandi orrustu kalda stríðsins féll í hendur Gunnari Magnússyni hús­gagna­arkitekt sem var afkastamikill hönnuður á þessum tíma og einn sá fremsti á sínu sviði hér á landi. Gunnar hannaði skákborðið að beiðni Skáksambands Íslands og fékk til þess frjálsar hendur. Hann kom teikningum sínum til Ragnars Haraldssonar húsgagnasmiðs, sem smíðaði skákborðið úr gegnheilum mahónívið. Borðið er sléttpússað með rúnnuðum brúnum og að hluta til klætt ljósu leðri en Gunnar hannaði einnig samstæð hliðarborð fyrir vatnsflöskur, kaffibolla og annað. Þjóðin fylgdist spennt með smíðinni og töluvert var fjallað um hönnunina í fjölmiðlum. Hönnun Gunnars þótti með eindæmum vel heppnuð en enginn hægðarleikur var að gera stórmeisturunum til geðs, sérstaklega ekki þeim bandaríska. Hjalti Geir Kristjánsson húsgagnaarkitekt hannaði stólana sem nota átti í einvíginu. En stólar Hjalta féllu ekki í náðina hjá meisturunum sem vildu frekar sitja í sínum eigin stólum.

100perulampinn

Bobby Fisher krýndur heimsmeistari í skák undir „100 peru lampanum“ sem Aðalsteinn Tryggvason hannaði fyrir einvígið en lýsingin var sögð vera sú metnaðarfyllsta sem sést hafði hér á landi. Lampinn var smíðaður í RAFHA sem seinna varð að Flúrlampar ehf.

Upphaflega var ætlunin að smíða sjálfa skákplötuna úr íslenskum steintegundum en þeirri plötu var hafnað af Fischer því honum þóttu reitirnir of stórir. Skáksamband Íslands var meðvitað um sérvisku Fischers og bað Ragnar um að smíða tíu tréplötur úr mismunandi viðartegundum svo meistararnir hefðu gott úrval. Á endanum fór það svo einvígið var háð á tveimur skákplötum og flakkað var á milli þeirra eftir geðþótta Fischers. Önnur platan var steypt í Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar en þar voru reitirnir úr dökku ensku flögubergi og hvítum marmara. Sú plata var notuð í nokkrum af fyrstu skákunum. Flestar skákirnar fóru fram á einni af tréplötum Ragnars en hana mátti fella ofan í sjálft skákborðið. Tréplatan er í einkaeigu en sjálft skákborðið, stólarnir og steypta platan eru í eigu Skáksambands Íslands en í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Á borðinu má sjá nöfn Spasskys og Fischers en þeir skrifuðu þau þar til minningar um þennan sögufræga viðburð sem kom litla Íslandi á kortið.

Áhugasömum er bent á sögulega kvikmynd um einvígið; Pawn Sacrifice með Tobey Maguire í hlutverki Bobby Fisher.


Texti: Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson. Ljósmyndir frá einvíginu: Kristinn H. Benediktsson

Skildu eftir svar