HA vefgrein, Viðtöl
Leave a comment

Islanders

Að fanga anda íslenskra híbýla

Heimasíðan Islanders hefur vakið mikla athygli undanfarna mánuði en þar gefst fólki kostur á að líta inn á áhugaverð íslensk heimili. Á heimasíðunni eru persónuleg einkenni híbýlanna dregin fram með alúðlegum hætti, bæði í máli og myndum. Verkefnið er hugarfóstur Auðar Gnár innanhússhönnuðar og Írisar Ann ljósmyndara en þær segja að vöntun hafi verið fyrir nýrri nálgun í kynningu á íslenskum heimilum, sér í lagi heimilum þar sem eigendur þora að fara sínar eigin leiðir.

Nýlega litu þær við á heimili Ragnheiðar Jónsdóttur sem býr í einu af merkari húsum landsins, Bakkaflöt 1 í Garðabæ. Húsið er teiknað af Högnu Sigurðardóttur arkitekt og þykir eitt af merkari verkum í íslenskri nútímabyggingarlist. Bakkaflötin hefur hlotið margar viðurkenningar og var meðal annars valið ein af 100 merkilegustu byggingum 20. aldar í Evrópu.

HA talaði við þær Auði og Írisi um verkefnið og kannaði hvort þau hýbílin á Icelanders eigi sér einhvern óvæntan samnefnara.

 

Auður Gná og Íris Ann

Auður Gná innanhússhönnuður og Íris Ann ljósmyndari

HA: Hvernig kom verkefnið til og hvers skonar heimili eruð þið að sýna?

Íris: Við kynntust fyrst í tengslum við Further North, fyrirtæki Auðar, en síðustu ár hef ég séð um að taka ljósmyndir fyrir fyrirtækið.  Auður: Ég hafði lengi gengið með hugmyndina um Islanders í maganum en það var ekki fyrr en ég nefndi hugmyndina við Írisi að boltinn fór að rúlla og nú eftir langan undirbúning og þrotlausa vinnu er Islanders orðið að veruleika.

Á Iselanders viljum við sýna híbýli sem hefur verið breytt í sérstakan heim, nokkurs konar paradís. Við viljum skoða og fanga þessa grunnþörf mannsins í að búa sér til griðarstað, þar sem hann finnur fyrir fullkomnu öryggi og vellíðan.

17-1

screen-shot-2016-09-28-at-13-24-43

HA: Hvernig gegnur að finna réttu heimilin og eru eigendur þeirra alltaf tilbúnir að hleypa ykkur inn með myndavélina?

Við fylgjum oftast eigin nefi þegar kemur að því að hafa samband við fólk. Suma þekkjum við, af öðrum höfum við heyrt og í einhverjum tilfellum nálgumst við fólk sem býr í húsum sem okkur hefur lengi dreymt um að heimsækja og upplifa. Það má segja að verkefnið í heild sinni hafi gengið mun betur en við áttum von á. Það skín eflaust í gegn að þetta er draumaverkefni og áhugamál okkar beggja, sem verður til þess fólk vill taka þátt í verkefninu og treystir okkur fyrir því að taka og birta myndir af heimilum þeirra. Við erum mjög þakklátar fyrir það, án velvilja þessa fólks hefði verkefnið aldrei farið af stað og ekki fengið svona mikla athygli.

sigrun-12

sigrun-16-1

HA: Er hönnun áberandi á þeim heimilum sem þið hafið heimsótt?

Hönnun er í rauninni bara einn þáttur í því að búa til áhugavert heimili. Fram að þessu höfum við heimsótt mikið af fólki sem vinnur í skapandi greinum, eins og hönnuði og myndlistarfólk, eða fólki sem á einhvern hátt tengist þeim geirum. Þetta fólk skapar sinn eigin heim sem er ekki líkur neinu öðru. Heimilin verða allt að því tímalaus, þar sem hver hlutur hefur verið hugsaður og hefur þýðingu fyrir viðkomandi. Oft eru þetta hlutir sem finnast á ferðalögum eða erfast frá ættingjum og stundum eru það hönnunarhlutir. Okkar fólk fer mismunandi leiðir í að búa til sinn heim og það er mjög misjafnt hvort hönnun komi þar við sögu eða ekki. Við setjum áherslu á að sýna hvernig heimilið þróast í takt við persónuleika viðkomandi eiganda, en oftar en ekki tengist fólk hlutum sínum sterkum tilfinningaböndum og hefur tilhneigingu til að leita uppi sérstæða hluti sem ekki sjást annars staðar.

anna-13staerri

8-1-2

HA: Er einhver samnefnari í þeim íbúðum sem þið hafið skoðað?

Samnefnari þeirra íbúða sem við höfum ljósmyndað er sá að eigendurnir hafa oftar en ekki búið erlendis eða ferðast mikið. Þar liggur grunnstefið hjá flestum og sú víðsýni sem ferðalangar hafa, flyst yfir á heimilin. En eins og allt sem endar með að hafa vægi og þunga, þá er það ekki skapað á einni nóttu, eða einu ári, eða jafnvel 10 árum. Þetta eru allt heimili sem hafa þróast hægt og bítandi í takt við lífssýn og persónuleika eigandanna. Við erum í raun að sýna allt annað en staðalímyndina um að íbúar á norðurslóðum búi á einhvern ákveðinn hátt. Raunin er sú að fólk sækir í sinn persónulega reynslubanka þegar það vill fara sínar eigin leiðir og skapa eitthvað einstakt. Að því leiti eru þessi heimili ekki táknmynd íslenskrar hönnunar, þau endurspegla frekar ákveðna lífssýn og eða tíðaranda sem hefur haft áhrif á eigendur þeirra. Fólkið sem við höfum heimsótt á það sameiginlegt að það leggur mikla vinnu og metnað í að búa til heimili sem líkjast ekki neinu öðru, það vill búa sér til frumlegan, fágaðan og afgerandi heim, þar liggur samnefnarinn.

aunonymus1-7

HA: Endurspeglar heimilið alltaf persónuleika eigandans?

Það mjög gaman að sjá hvað fólk er tilbúið til að fara óhefðbundnar leiðir þegar kemur að því að móta heimilið og oftar en ekki virkar það eins og síðasta púsluspilið til að skilja eigandann fullkomlega. Við viðurkennum fúslega að heimilin koma oft á óvart og það minnir mann á dæma aldrei að bókina eftir kápunni.

bara-8-1-3

bara-3-3

HA: Hvað hefur komið ykkur mest á óvart í verkefninu?

Í gegnum vinnuna við Islanders höfum við fundið að það er alltaf þörf fyrir einhverju nýju, sterku og frumlegu. Flestir sem við höfum leitað til, t.d. varðandi auglýsingasölu sem fram að þessu hefur verið okkar eina tekjulind, hafa tekið okkur mjög vel og sjá fljótt hvaða vægi svona verkefni hefur fyrir íslenskt samfélag. Sérstaklega á tímum þar sem þjóðin rembist við að skilgreina sig í nýjum veruleika ferðaiðnaðarins. Við erum á því að hlutirnir hafa þróast í of einsleita átt, of margar keðjur og of margir veitingastaðir hafa eins yfirbragð. Eitthvað sem maður hefur oft séð áður í öðrum borgum.

En það sem hefur komið okkur mest á óvart er hversu vel fólk hefur tekið verkefninu og hvatningin sem við höfum fengið úr öllum áttum, jafnvel frá fólki sem við þekkjum ekki neitt. Það gleður okkur mikið að fá slíkar móttökur því við reynum að vinna efnið af mikilli virðingu og metnaði. Það virðist almennt vera óþjótandi áhugi fyrir því að setja fólk og heimili í sögulegt samhengi í stað þess búa til einhverja ímynd sem hefur ekkert með okkar menningu eða viðhorf að gera.

kjartan-1-3

kjartan-2-3

HA: Hvað er framundan hjá ykkur?

Við erum sífellt að hugsa og vinna efni fyrir vefinn. Í grunninn mun hann alltaf snúast um íslensk híbýli en nú erum við að skoða ýmsar aðrar hugmyndir og viðbætur. Þessa dagana erum við til dæmis að undirbúa ferðalag út fyrir landsteinana til að heimsækja Íslendinga sem búa erlendis. Einnig eru við að skoða samstarf við myndlistarmenn en ætlunin er að vera með myndlistarsýningar á Islanders. Flestir af okkar viðmælendum eru miklir listaverkasafnarar og okkur finnst tilvalið að bjóða gestum síðunnar að skoða verk og jafnvel kaupa verk sem eru unnin sérstaklega fyrir okkur. Það styttist líka í að við opnum vefverslun, þar sem við verðum aðallega með íslenska hönnun í bland við erlenda. Við erum einnig í viðræðum við samstarfsaðila um að útbúa fyrir okkur sérstakar vörur sem verða eingöngu seldar á síðunni okkar, en við erum afar spenntar fyrir því. Svo er ætlunin að gefa innlitin út í bók sem vonandi kemur út fyrr en seinna. Það er margt fleira í pípunum og nú bráðvantar okkur fleiri áhugasama penna úr ólíkum hönnunargreinum. Að lokum viljum við aftur þakka öllum þeim sem hafa sýnt okkur áhuga og hvatt okkur áfram.

Auður Gná lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og er einnig með B.A. gráðu í innanhússarkitektur frá Elisava í Barcelona, hún á og rekur hönnunarfyrirtækið Further North.

Íris Ann er með meistaragráðu í ljósmyndun og sjónlist. Hún hóf nám í Flórens, fór svo í áframhaldandi nám til Mílanó og kláraði námið í Reykjavík.


Samantekt: Arnar Fells. Ljósmyndir: Íris Ann – ljósmyndir fengnar af www.islanders.is

Skildu eftir svar