Design Talks - Fyrirlestraröð HönnunarMars, Viðtöl
Leave a comment

Að endurtengjast náttúrunni

Hlín Helga um þema DesignTalks 2017

Nú styttist í DesignTalks, einn vinsælasta hönnunarviðburð hér á landi. Áhugafólk um hönnun sem og áhrifafólk í atvinnulífi og stjórsýslu flykkjast árlega á viðburðinn til sækja sér innblástur; einskonar innblástursforða sem endist jafnvel út árið. Fyrirlestrarröðin fer fram í Hörpu næstkomandi fimmtudag frá 09:00-16:30. rfá sæti laus, sjá www.harpa.is)

Þemað í ár fjallar um samband okkar við náttúruna. HA tók tal af Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, listrænum stjórnanda DesignTalks, og spurði hana nánar út í þemað og fyrirlesarana í ár.

Hlín Helga á DesignTalks 2016

HA: Þemað á DesignTalks í ár tengist sambandi okkar við náttúruna og viðleitni mannsins til að endurtengjast náttúrunni. Geturðu sagt okkur aðeins frá þemanu og af hverju það var valið?

Þema þessa árs, eins og svo oft áður, sprettur upp úr rýni í líðandi stund; áhrif samfélagsþróunar á hönnun og áhrif hönnunar á samfélagsmynstur. Ef við tölum um hönnun sem breytingarafl þá má segja að þemað snerti á allra mikilvægustu spurningunum í dag. Hvernig getur hönnun breytt heiminum? Hvaða áhrif getum við haft? Hvað viljum við gera? Hvað eru hönnuðir út um allan heim að fást við? Hver er undiraldan? Af hverju er verið að hanna matarstell úr kúamykju, einnota flöskur úr mjólkurafurðum, strigaskó úr endurunnu plasti úr hafinu, píkuskoðunarspegla, endurútgefa húsgögn brutalismans og skapa sýndarveruleika sem miða að endurskilgreiningu mannlegrar skynjunar? Getur verið að á tímum óvissu og hraða leitum við inn í okkur sjálf; inn í kjarnann? Inn í skynjunina, fegurðina, ljótleikann? Uppgötvum þar að jörðin þarfnast okkar og við hennar? Þráum sannleikann en hverfumst inn í sýndarheima?  Náttúran er umhverfið og við sjálf, samkennd og sjálfbærni.

Hið margverðlaunaða sýndarveruleikaverk ITEOTA frá Marshmallow Laser Feast

Hvernig valdir þú fyrirlesarana og hver er þeirra nálgun á þemað?

Þetta er nú einhverskonar innsæisvefnaður í bland við mjög praktísk mál tengd dagatölum framúrskarandi hönnuða um allan heim.  Maður byrjar á því sem þykir mest spennandi og svo vefur maður utan á það, fær fullt af „nei-um“ og nokkur mikilvæg já og smám saman teiknar myndin sig. Þemað í ár er mjög samofið fyrirlesurunum en út frá mjög ólíkum hliðum. Alexander Taylor tók þátt í þverfaglegu samstarfsverkefni Adidas og hafverndarsamtökunum Parley for the Oceans, en þar hannaði hann strigaskó úr veiðarfærum og plasti sem áður menguðu sjóChristien Meindertsma vekur okkur til umhugsunar um náttúruleg hráefni og úrvinnslu þeirra sem hafa orðið okkur ósýnileg og fjarlæg í framleiðsluháttum nútímans, t.d. Eins og í verkefninu PIG 05049 þar sem hún fjallar um allt sem gert er úr afurðum svína. Michele Degen, sem einnig leitar sannleikans og gansæisins, leitast við að brjóta staðalímyndir og viðteknar venjur og tabú með píkuskoðunarspeglinum Vulva Versa. Hún vill eyða skömminni við nána sjálfsskoðun og opna á samtal, ekki aðeins meðal kvenna, heldur meðal samfélagsins í heild. Svo er það hið margverðlaunaða sýndarveruleikaverk ITEOTA sem Ersin Han Ersin frá Marshmallow Laser Feast mun kafa inn í með okkur. Í verkinu sjáum við heiminn með augum dýra og öðlumst aukna samkennd með náttúrunni. Þetta snýst ekki bara um okkur.

Útsýnið í sýndarveruleikaverkinu ITEOTA frá Marshmallow Laser Feast

Færa má rök fyrir því að síðastliðna öld hafi maðurinn misst sjónar á náttúrunni og sjálfinu því hann hefur einblínt svo stíft á tækni og vísindi. Heldur þú að tæknin sé núna að ná því stigi að hún geti hjálpað okkur að finna aftur þessar glötuðu tengingar?

Því lengra sem við förum í tækninni því nær færumst við náttúrunni finnst mér, eins furðulegt og það nú hljómar. Sjáið bara Digital heiminn hennar Bjarkar. Við notum tæknina líka í auknum mæli til að skilja og tengja við náttúruna eins og t.d. í ITEOTA verkefninu sem ég nefndi hér að ofan. Gott dæmi um það hvernig hönnun getur haft áhrif er að myndgera vandamál sem annars er erfitt að festa hendur á, t.d. eins og í verkefninu Italian Limes sem grafíski hönnuðurinn Elisa Pasqual og arkitektinn Marco Ferrari hjá Studio Folder stýra. Jöklar í Ölpunum – eins og annarsstaðar – eru að bráðna og þar með “bráðna” landamærin líka sem liggja þar um. Þetta vekur ýmsar áhugaverðar spurningar um landamæri nú þegar fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aldrei verið hærri og valdamenn hyggjast byggja nýja veggi.

Áhugsamir geta enn freistað þess að fá miða á www.harpa.is


Umsjón: Arnar Fells Gunnarsson

Frá DesignTalks 2016. Mynd: Ragna Margrét

 

Skildu eftir svar