HA vefgrein, Sýningar, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Dæmisögur

vöruhönnun á 21. öld

„Í hönnunarfaginu er uppi stöðug krafa um nýjungar og hraða. Verkefnin eru þó ekki af þeim toga heldur eru þau dæmisögur um þróun sem hefur átt sér stað yfir langt tímabil. Að baki þeim liggur raunveruleg og djúpstæð þekking á viðfangsefninu.“

segir í texta á sýningunni Dæmisögur – vöruhönnun á 21. öld – sem opnar á Kjarvalsstöðum laugardaginn 4. Mars kl. 16:00.

Þar verða sýnd nokkur verkefni á sviði vöruhönnunar sem endurspegla ólíkar áherslur vöruhönnunar og veita innsýn í helstu strauma og stefnur í faginu hér á landi undanfarin ár. Verkefnin endurspegla fjölbreytileika fagsins og sýna þau tækifæri sem samfélaginu standa til boða með því að nýta krafta skapandi hugsunar.

Sýningarstjórn er í höndum Sigríðar Sigurjónsdóttur, sem var um árabil prófessor við vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands (2005-2012) og rak hönnunargalleríðið Spark Design Space sem lagðist í dvala síðastliðið vor. Sigríður hefur unnið sýninguna í samstarfi með Ólöfu Sigurðardóttur forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur en hugmyndin fæddist eftir að Ólöf fylgdist með ólíkum áherslum í útskriftarverkefnum frá nemendum Listaháskóla Íslands, en skólinn hefur undanfarið haldið útskriftarsýningar í Listasafni Reykjavíkur.

„Vöruhönnuðir fást við að búa til vörur og skapa upplifun, þeir greina þörf og tækifæri auk þess sem framleiðsluferli og umhverfisáhrif hafa sitt að segja um efnisval og útfærslu. Ég valdi hönnuði sem sem hafa frekar skýrar áherslur og hafa unnið með þær um langt skeið og þannig öðlast dýpt og skilning á viðfangsefni sínu.“ segir Sigríður um hvernig hún valdi hönnuðina á sýninguna.

Sex ólíkir hönnuðir og fyrirtæki voru valin út frá ákveðnum áhersluþáttum; upplifun, handverki, staðbundinni framleiðslu, efnisrannsóknum, fjöldaframleiðslu og hreyfanleika. Þó hönnuðirnir séu hér allir undir merkjum vöruhönnunar má skilgreina verk sumra einnig mjög skýrt undir t.d. hatti upplifunarhönnunar og iðnhönnunar. Á þann hátt varpar sýningin á áhugaverðan hátt ljósi á þau óljósu mörk sem eru í dag á milli hönnunargreina. Til að mynda sýnir flothetta Unnar Valdísar Kristjánsdóttur áhrifamátt upplifunarhönnunar en verkefni hennar hefur hlotið athygli víða um heim og hefur í raun öðlast sjálfstætt líf og sýnir stöðugt nýjar víddir. Hönnun Brynjars Sigurðarsonar sýnir með áhugaverðum hætti hvernig samvinna hönnuða og handverksfólks getur leitt hönnun inn á ófyrirséðar brautir. Tinna Gunnarsdóttir iðnhönnuður sýnir muni sem eiga það sameiginlegt að eiga ættir að rekja til staðbundinnar framleiðslu og gefa góða mynd af þeirri verðmætu verkþekkingu sem smærri og stærri fyrirtæki hér á landi búa yfir. Rannsóknarverkefnið „Leitin að íslensku postulíni“ veitir einstaka innsýn inn í hið langa rannsóknarferli sem hönnuðir þurfa að fara í gegnum áður en fullunnin vara verður til. Verk Sigríðar Heimisdóttur leiðir gesti sýningarinnar inn í heim fjöldaframleiddar hönnunarvöru og að síðustu má segja að góð hönnun hafi burði til að hreyfa við fólki, jafnvel í orðsins fyllstu merkingu, en það er einmitt það sem Össur ehf gerir með byltingakenndri stoðtækni sem verður sýnd undir formerkjum hreyfingar.

„Allir þáttakendurnir á sýningunni vinna í alþjóðlegu samhengi og samstarfi og eru fullkomlega samkeppnishæfir. Dæmisgögurnar hér sýna að tækifæri og innblástur leynast víða eins og til dæmis í jarðveginum, í baðmenningunni, í tækniþekkingu og aldagömlu handverki tengt sjómennsku. Það sem mestu máli skiptir er að gera hlutina vel. Tækifæri geta líka verið svo hættuleg ef ekki er vandað til verka þannig að það er allt í lagi að taka því rólega og vanda valið á tækifærunum“, segir Sigríður um samkeppnishæfni íslenskrar hönnunar í alþjóðlegu samhengi.

Þegar HA leit við á Kjarvalsstöðum til að fylgjast með undirbúning sýningarinnar voru Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður, Ólöf Erla Bjarnadóttir keramiker og Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur að undirbúa framsetningu á rannsóknarverkefni þeirra; Leitin að íslenska postulíni.

Verkefnið hefur gengið út á það að skoða og kanna möguleikann á því að nýta íslensk jarðefni til þess að búa til nothæft postulín. Til þess þurfti sameinaða þekkingu jarðfræðings, keramikers og vöruhönnuðar en þessi skemmtilegi hópur hefur undanfarið rannsakað umbreytingu náttúruefna og samband mannsins við þau; hvernig efnum úr náttúrunni er blandað saman og ný efni verða til.

Að þeirra sögn hefur rannsóknin hefur gengið vel. Þau hafa ferðast víða um land til að safna efnum og sýnum. Undanfarnir 8 mánuðir hafa í umfangmikla tilraunavinnu, sem enn stendur yfir, og segja þremenningarnar að með hverri tilraun opnist nýjir möguleikar en jafnframt verða spurningarnar fleiri.


Umsjón og ljósmyndir : Arnar Fells Gunnarsson

Skildu eftir svar