Fatahönnun
Leave a comment

Kraumar undir kvikunni

RFF 2017

Reykjavík Fashion Festival 2017 er rétt handan við hornið og tískuvitar og spekúlantar bíða í ofvæni eftir að sjá hvað kraumar undir niðri í íslensku fatahönnunarsenunni. Viðburðurinn fer fram næstu helgi, 23 – 25. mars en nánari upplýsingar um dagskrá RFF og sjálfa hönnuðina má finna á sérlega vel heppnaðri heimasíðu RFF.

Í ár munu sex hönnunarteymi kynna nýjar línur; Myrka, Cintamani, Magnea, Another Creation, Inklaw og Aníta Hirlekar. Þrír af þessum aðilum sýndu ekki á HönnunarMars í fyrra og HA ákvað að kynna þau sérstaklega núna. (Sjá umfjöllun um hönnuðina sem sýndu á Showroom Reykjavík á HönnunarMars 2016)

 

Inklaw

Ekki er víst að allir lesendur HA þekki til merkisins INKLAW sem gæti talist einskonar spútnik fyrirbæri íslenskar götutísku. (Ritara HA rámar til að mynda í að hafa séð Justin Bieber klæddan í INKLAW fatnað við fleiri en eitt tækifæri). Merkið var stofnað fyrir tæpum þremur árum af tveimur æskuvinum, þeim Guðjóni Geirssyni og Róberti Elmarssyni, þar sem þeim þótti úrval á götufatnaði fyrir karlmenn fremur takmarkað hér á landi. Í fyrstu seldu þeir aðeins áprentaða hlýraboli en þeir félagar heilluðust fljótt af hugmyndinni um að sjá sjálfir um framleiðslu á eigin hönnun frá grunni. Guðjón lærði að sauma á meðan Róbert náði í viðskiptavini og fyrsta fullbúna fatalína INKLAW kom undan saumnálinni árið 2014. Vörurnar voru saumaðar eftir pöntun og seldir í eigin netverslun merkisins.

Í dag standa fjórir einstaklingar að baki INKLAW. Auk Guðjóns og Róberts hafa Anton Sigfússon og Christopher Cannon bæst í hópinn – Anton sem framkvæmdastjóri og Christopher í hönnunar- og framleiðsluteymi. INKLAW er nær eingöngu selt í gegnum internetið og einskorðast kúnnahópurinn ekki aðeins við litla Frónið – vörurnar hafa verið seldar til meira 60 landa og koma viðskiptavinirnir meðal annars frá Kúveit og Súrínam! Það er margt á döfinni hjá INKLAW teyminu en piltarnir eru meðal annars að fikra sig áfram með sölu í verslunum og með opnun pop-up verslunar í miðbæ Reykjavíkur.

INKLAW er að mörgu leiti frábrugðið öðrum þátttakendum RFF í ár, m.a. vegna þess að um er að ræða einu línuna sem er mestmegnis markaðssett fyrir karlmenn. Aðspurðir, segjast þeir félagar þó líta á flestar vörur INKLAW sem „unisex“ og það sést þegar kúnnahópurinn er skoðaður. Að þeirra sögn hafa þeir oft verið inntir eftir sérstakri kvenlínu og þeir segja það alveg vera í myndinni; að þeir verið við þeirri algengu eftirspurn.

Sjálfir segja þeir að hönnun INKLAW byggi á „mínímalískum“ og einföldum grunni en hún sé þrátt fyrir það auðþekkjanleg. Þeir vinna mikið með málningu í stað prents sem gerir hverja flík í raun eina sinnar tegundar. Nýjasta línan nefnist einfaldlega „The Statement“ og verður hún frumsýnd á RFF, þann 25. mars kl. 20:00. „The Statement“ er eins konar nýtt upphaf – fyrsta raunverulega heildstæða línan. Hún er hugsuð sem sjálfstæð og óárstíðabundin og er að vissu leyti byggð á grunni fyrri lína enda hafi þær verið hálfgerður undirbúningur fyrir nýjustu afurðirnar. Þannig mætti líta á nýju línuna sem nokkurs konar yfirlýsta hönnunarstefnu INKLAW, þróaða í takt við nýjustu tískustrauma. Áhorfendur og aðdáendur eiga því í vændum ákveðið „best of“ fyrri ára í bland við eitthvað sem ekki hefur sést áður frá merkinu. Aðspurðir um ástæðu þátttöku sinnar í RFF í ár, segja þeir hátíðina kjörinn vettvang til að kynna nýju „Yfirlýsinguna“ fyrir almenningi sem og alþjóðlegu miðlunum sem munu fylgjast með hátíðinni. INKLAW-menn lofa áhorfendum góðu „show-i“ á laugardaginn sem mun sýna fjölbreytileika þess sem er væntanlegt úr nýju línunni.

 

Cintamani

Vart þarf að kynna sérstaklega íslenska útivistarmerkið CINTAMANI. Flíkur frá merkinu leynast í skápum margra landsmanna enda hefur það verið áberandi á íslenskum útivistar- og fatamarkaði síðan það var stofnað árið 1989, (Lesið viðtal við Jan Davidsson, einn af stofnendum Cintamani, sem birtist í HA nr.4).

Í dag eru fjórir í hönnununar og framleiðsluteymi merkisins: Aðalheiður (Heiða) Birgisdóttir yfirhönnuður, Guðrún Lárusdóttir framleiðslustjóri, Davíð Young listrænn stjórnandi og Selma Ragnarsdóttir klæðskeri.

Heiða Birgisdóttir aðalhönnuður og teymið hennar hjá Cintamani kynnti AW 2017/2018 á Korpúlfsstöðum í desember.

CINTAMANI er ekki að taka þátt í RFF í fyrsta sinn og því þótti ritara HA ekki úr vegi að spyrja hvaða ávinning fyrirtækið sjái af þátttöku sinni. „RFF er frábært tækifæri til þess að sýna nýja línu sem við höfum unnið að síðastliðið eitt og hálft ár,“ svarar yfirhönnuðurinn Heiða Birgisdóttir. „Langstærsti markaður CINTAMANI er enn hérna heima. Vörurnar okkar eru jafnframt fáanlegar í nokkrum öðrum löndum beggja vegna Atlantshafsins og dreifast víða gegnum vefverslunina. Planið er að herja markvisst á erlenda markaði á næstu árum og viljum við því gjarnan fá umfjöllun í erlendri pressu í sambandi við þátttöku okkar í RFF. Auðvitað viljum við líka ná til íslensku kúnnanna okkar – þrátt fyrir öll útrásarplön mun heimamarkaður alltaf vera mjög mikilvægur fyrir okkur,“ bætir Heiða við.

„Þetta er heildstæð lína sem er að mestu leyti byggð á nýjum stílum. Lítill hluti hennar kemur í verslanir í vor en öll línan verður kominn í sölu næsta haust. CINTAMANI hefur yfirleitt ekki verið með afmarkaðar haust/vetrar og vor/sumar línur en líklega mun það þróast í þá átt á næstu árum, sérstaklega ef við förum meira inn á erlendan markað. Það eru ekki jafnmiklar tískusveiflur í útivistarfatnaði eins og öðrum fatnaði. Upp á móti vegur þó mikil þróun í efnavali og útfærslum á alls konar smáatriðum. Það eru einnig alltaf breytingar á litum milli ára og heilmikil þróun í sniðum á útivistarfatnaði,“ útskýrir Heiða en liggja ætti í augum uppi að útivistarfatnaður þarf ekki einungis að vera í takt við tískuna heldur þarf að standast ströngustu kröfur. „Við hugsum mikið um notagildi og viljum að fólk geti helst notað flíkurnar í mismunandi útivist. Umhverfisvitund er ofarlega á blaði hjá okkur og vinnum við að því að gera enn betur í þeim málum. Svo skipta efnin gríðarlegu máli og er ferlið í kringum efnaval yfirleitt ansi langt – nær jafnvel yfir tvær línur,“ segir Heiða og bætir við að þau hjá CINTAMANI vinna með nokkrum mjög góðum og virtum textílframleiðendum sem sé þeim afskaplega verðmætt. „Hönnunarferlið byrjar í raun á því að við sækjum innblástur. Við vinnum litapallettuna mjög fljótlega út frá því og samhliða er í raun verið að móta línuplan til að vinna eftir. Við spáum í efni mjög snemma í ferlinu og þá fara hugmyndirnar yfirleitt að flæða. Sniðin skipta líka mjög miklu máli og í þau er lögð ómæld vinna. Stundum þarf nokkrar tilraunir með framleiðandanum áður en við erum ánægð.“

Að þessu sinni var innblásturinn í nýju línuna sóttur í hella á Íslandi; hraunhella og íshella. Þar er að finna magnaða náttúru og ótal litbrigði og mynstur. „Á ensku útleggst þema línunnar sem „Iceland from below.“ Í þessari nýju línu höfum við kafað aðeins ofan í kjarnann og þá ef til vill í tvennum skilningi, þ.e. kjarna Íslands sem og kjarna vörumerkisins CINTAMANI,“ segir Heiða.

 

MYRKA

„MYRKA hefur verið í fæðingu í tvö ár og er þetta fyrsta heildstæða línan sem ég framleiði undir því vörumerki,“ segir Harpa Einarsdóttir, myndlistarkona og fatahönnuður. „MYRKA stendur fyrir náttúru Íslands og innblásturinn er sóttur í áferðir í landslaginu; hrauninu, mosanum og jöklunum en einnig í menningu okkar og arfleifð; þjóðsögur, völvur og víkinga. Línuna sé ég fyrst og fremst sem hátískuvöru með skemmtilegu íslensku ívafi.“

Þótt MYRKA FW17 kunni að vera fyrsta lína þessa nýja íslenska vörumerkis, er þetta ekki í fyrsta sinn sem Harpa tekur þátt í RFF. „Ég tók tvisvar þátt í RFF með vörumerkið ZISKA. Ég vann að því merki í sex ár en stundum eiga örlögin það til að taka um taumana – þau fá mann til að stíga til baka og skoða hvert maður er að fara. Ég missti það merki úr höndunum en þótt það væri erfitt að skilja við ZISKA, sem jafnframt er mitt listamannsnafn, þá er afskaplega gott að byrja frá grunni með nýjar áherslur og nú er ég reynslunni ríkari. Ég veit að ZISKA mun að einhverju leyti skína í gegn þótt áherslurnar í MYRKA séu öðruvísi og eflaust einlægari. Ég er orðin óhræddari við að leika mér og gera tilraunir með mismunandi efnivið og hef einfaldlega meira gaman af ferlinu sjálfu; sem að mínu mati endurspeglast í nýju línunni. Þó nafnið MYRKA sé drungalegt þá skín ákveðinn léttleiki og leikgleði í gegn í línunni. Ég verð að viðurkenna að það er pínu stressandi að koma með „comeback“ undir nýju vörumerki þó er þessi nýja lína sé án efa fágaðri og metnaðarfyllri en fyrri línur sem ég hef sýnt.“ segir Harpa sem jafnframt mun frumsýna tískumyndband á RFF um helgina. Myndbandið, sem upphaflega var sýnt á Paris Fashion Week síðasta haust, er innblásið af þjóðsögunni um Djáknann á Myrká, sem var færð í nútímalegan búning. „Ýmislegt fleira óvænt mun koma fyrir sjónir áhorfenda,“ segir Harpa sem hefur meðal annars flutt inn norska þjóðlagasöngkonu sem mun opna sýninguna.

„Sérstaða MYRKA, sé merkið borið saman við flóru annarra íslenskra fatamerkja, felst ef til vill í því að hluti línunnar verður ávallt framleiddur og seldur sem myndlist. Sumar flíkur verða þannig númeraðar svo fólk sé meðvitað um að það eigi einstaka flík sem ekki verður fjöldaframleidd. Ég vinn mína hönnun oft eins og myndlist. Sem betur fer vinn ég með mjög þolinmóðum klæðskera því ég leyfi ferlinu að flæða og þróast, allt fram á síðustu mögulegu mínútu. Þegar sköpunargleðin tekur yfir er hugurinn á stanslausri ferð og ég er alltaf að breyta og bæta. Það væri kannski nærtækast að líkja þessu ferli við vinnu myndhöggvara. Myndhöggvari byrjar með stóra steinblokk sem hann smám saman meitlar til og loks fínpússar í fullunnið verk. En ólíkt myndhöggvaranum þá er ég ekki endilega með ákveðna endanlega útkomu fyrir hugskotsjónum; ég leyfi því óvænta að gerast í ferlinu,“ útskýrir Harpa.

Náttúruvernd er Hörpu hugleikin en í MYRKU eru tvær undirlínur, annars vegar MYRKA NÁTTÚRA „For Rebels & Rioters“ og hins vegar MYRKA BE-A-CAUSE. Sú fyrrnefnda er einungis unnin úr endurunnum efnivið en í hinni síðarnefndu er m.a. unnið út frá ýmsum mikilvægum málefnum svo sem náttúruvernd og mannréttindum. Þar er stefnt að samstarfi við listamenn um hönnun á grafík og prenti fyrir flíkur og mun hluti söluágóðans renna til þess málefnis sem ákveðið hefur verið að styrkja hverju sinni.

Fyrsti hluti þessarar fyrstu haust- og vetrarlínu MYRKA fer í sölu von bráðar og verður m.a. fáanlegur á væntanlegri heimasíðu. Harpa tekur fram að einhver hluti þess sem áhorfendur munu sjá á tískusýningunni á föstudaginn verði svokölluð „show pieces“, þ.e. flíkur sem framleiddar eru sérstaklega fyrir tilefnið og henta ekki endilega til framleiðslu. „Í svona sýningu er mjög mikilvægt að hluti línunnar sé einstakur og grípi augað en þarna fæ ég jafnframt útrás fyrir myndlistarsköpun mína. Ég vil taka það fram að ég er mjög þakklát fyrir að fá annað tækifæri til þess að sýna hvað í mér býr og þakka öllu því góða fólki sem hefur stutt mig í gegnum langt vinnuferli og sýnt mér skilning þegar sköpunargleðin tekur yfir.“ segir Harpa að lokum.


Texti : Sunna Örlygsdóttir

Skildu eftir svar