HA vefgrein, Sýningar, Viðtöl
Leave a comment

Safnstjórar á tímamótum

Viðtal við Hörpu Þórsdóttur og Sigríði Sigurjónsdóttur

 

Hönnunarsafn Íslands stendur á tímamótum þar sem nýr forstöðumaður Sigríður Sigurjónsdóttir, hefur tekið við af Hörpu Þórsdóttur sem hefur gegnt þeirri stöðu frá árinu 2009 en Harpa tók nýlega við stjórnun Listasafns Íslands. Þegar Harpa tók upphaflega við starfinu á Hönnunarsafninu voru geymslur og annar rekstur safnsins í iðnaðarhúsnæði að Lyngási 7-9 og lítill sýningarsalur í verslunarrými á Garðatorgi. Eitt helsta markmið Hörpu var að koma allri safnastarfseminni undir sama þakið, en frá árinu 2011 hefur öll starfsemin verið í núverandi húsnæði við Garðatorg. Nýr safnstjóri, Sigríður Sigurjónsdóttir er mörgum kunnug sem Sigga í Sparki en HA tók hana tali í 3. tölublaði þegar Sigríður lokaði dyrum á Spark Design Space við Klapparstíg. Elísabet V. Ingvarsdóttir ræddi við þær í Hönnunarsafninu á síðasta starfsdegi Hörpu.

Þegar þú lítur um öxl Harpa hvað telur þú vera það mikilvægasta sem þú hefur áorkað í starfi forstöðumanns og hvers átt þú eftir að sakna mest?

Harpa: Þegar ég hóf störf var ég upptekin af því að safnið yrði raunverulegt safn eftir ákveðinn tíma, því þrátt fyrir að söfnun hafi verið í gangi þá vantaði safnið sjálft. Ég var í mission og enginn átti að velkjast í vafa um tilverurétt safnsins. Mér fannst einnig mjög mikilvægt og finnst enn, að skapa trúverðugleika um safnið – gagnvart öðrum söfnum, almenningi, hönnunarsamfélaginu og fræðasamfélaginu. Ég held að vel hafi tekist til á tímum sem voru ekki að öllu leyti hliðhollir. En ég á eftir að sakna þess að vera að atast í öllu. Þetta hefur verið mikil „á gólfinu vinna“ því safnið er enn á þeim þroskastað. Það er eitt sem mig langar að komi fram og það er hversu jákvæðir hönnuðir voru, því ég var smá hikandi í byrjun að nálgast þá og bjóða þeim að sýna. En ég fékk aldrei nei, bara já strax og ég er svo þakklát hversu vel þeir tóku í það að sýna. Eins hafa fjölskyldur hönnuða aðstoðað við yfirlitssýningar og þar hafa myndast dýrmæt sambönd. Allt þetta var mjög hvetjandi.

Í þessu samhengi er gaman að heyra frá þér Sigríður hver þín sýn er á starfsemi safnsins og getur þú nefnt einhverjar hugmyndir um safnastarfið undir þinni væntanlegu stjórn?

Sigríður: Ég tel mig vera að koma inn í starfið á hárréttum tíma. Það er búið að byggja upp svo gott safn og ég er algjörlega meðvituð um að það er eitthvað sem ég hefði aldrei getað gert. Allt hér er svo vel skipulagt og margt nýtt fyrir mér eins og t.d. skjalakerfið en það kemur mér skemmtilega á óvart hversu spennt ég er fyrir því. Þó margt sé mér ókunnugt þá nýtist þekking mín og reynsla vonandi vel í nýja starfinu, s.s úr kennslu og stjórnun í LHÍ og svo úr rekstrinum og uppsetingu fjölmargra sýninga í Sparki. En ég sé fyrir mér að það verði ákveðin áherslubreyting í safnastarfinu og að nútíminn komi enn meira inn, þó hann hafi algjörlega verið hér til staðar. Ég hef oft verið andvaka af spenningi eftir að mér var boðið starfið og fæ þá mikið af hugmyndum sem ég get ekki rætt núna. Það er víst ekki hægt að koma öllum hugmyndum í framkvæmd maður verður bara að velja vel og halda góðu starfi áfram gangandi. Ég er líka heppin að geta stólað á hana Þóru, fulltrúa safaneignar, því auðvitað er margt sem lýtur að safngripunum sem ég á eftir að læra.

Þið hafið ólíkan bakgrunn og menntun. Harpa kemur upphaflega við ráðningu meira úr safna og listfræðiheiminum en þú Sigríður hefur verið tengd Listaháskólanum og hönnunarsenunni og því sem er efst á baugi þar. Hvernig nýtist þetta forstöðumanni Hönnunarsafns Íslands – hvað þarf hann til brunns að bera?

Harpa: Ef við horfum á safnið sem lífveru þá fer hún í gegnum mismunandi þroskaskeið og þarf ekki alltaf samskonar næringu til að dafna. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að söfn eru að breytast mikið, nú er tekið miklu meira mið af beinum tengslum við samfélagið. Markmið safna var fyrst að mennta og miðla og það er auðvitað enn til staðar en bæði menntun og miðlun hafa tekið miklum breytingum og söfnin þurfa að fylgja með. Kostur lítils safns er meðal annars sá að það getur snúið sér á punktinum. Smæðin er ákveðin blessun, það eru fáir starfsmenn og fyrir forstöðumanninn verður starfið svo allt annað en bara stjórnun á fólki. Hér er safnið sjálft aðalatriðið og stjórnandinn verður þannig mjög einbeittur að því. Sum risastóru safnanna úti eru hægsiglandi tankskip. Fullfermd breyta þau hægt um stefnu.

Sigríður: Þó ég hafi ekki reynslu úr safni þá hef ég góða reynslu af miðlun en hana tel ég vera eitt veigamesta atriðið í starfi safnastjóra. Mig dreymir um að safnið verði eðlilegur hluti lífsins í kring. Ég kynntist því svo vel í gegnum Spark hvað miðlunarþátturinn er mikilvægur. Fólk hittist þar óvænt og þar urðu oft til áhugaverð, falleg og skemmtileg samtöl. Oft komu nemendur á öllum aldri í heimsókn og svo voru aðrir sem komu bara til að vera. Það er mér mikilvægt að þetta gerist á safninu, að fólk hittist þar óvænt og nýti safnið fyrir spjallfundi. Margt sem ég sá gerast á Klapparstígnum og ætti að geta gerst hér líka – að þetta geti orðið staður þar sem fólk úr hönnunargeiranum hittist og finnist það eiga eitthvað í.

Harpa: Ef ég svara þessu einfalt þá þarf hjarta safnstjórans að snúast um safn. Hann þarf að vera ósérhlífinn og hann þarf að hafa brennandi áhuga á samfélaginu og tengja við það. Að safna inn safngripum, leggja fram sýningarhugmyndir eða vinna rannsóknarverkefni á safninu er viss rýni í samfélagið. Safn er upplýsingamiðstöð og safn á að vera lifandi staður.

Sigríður: Hönnunarsafnið hefur tækifæri til þess að fara út fyrir bygginguna. Í þessu hverfi er áhugaverður arkitektúr sem má tengja á skemmtilegan hátt við safnastarfsemina. Urriðaholt, sem er nú að rísa, er mjög áhugavert hverfi og vel við hæfi að tengja slíkt hönnunarsafni. Safnið er hluti umhverfis þess og safnastarfið getur vel flætt út fyrir. Söfn eru almennt að breytast í þá átt og það er jákvætt.

Það er almennt álit að þú hafir átt farsælt starf á safninu Harpa en hver er þá ástæðan fyrir því að þú leitar á önnur mið?

Harpa: Ég er mjög sátt við það sem ég er búin að gera hér en mér finnst vera kominn tími til að einhver annar taki við. Hér hef ég fengið mjög gott tækifæri og gríðarlega menntun í starfi. Hér er gott samstarf við Garðabæ sem er mikill bakhjarl safnsins og veitir okkur gott aðhald. Það hefur gert safninu kleift að vera lítið safn en þó með töluverð umsvif. Nú finnst mér ég tilbúin að takast á við við eitthvað nýtt.

Það er ekki hjá því komist að ræða það sem oft ber á góma í umræðum um safnið. Það er staðsetning safnsins í Garðabæ og fjarlægðin frá miðbæ Reykjavíkur. Talað er um að safnið sé úr alfaraleið og oft heyrist sagt að staðsetningin hamli tengslum hönnuða og hönnunarsenunnar við safnið. Hver er ykkar skoðun á þessu? – þín byggð á reynslu Harpa og þín Sigríður sem ert t.d. mikil miðbæjarmanneskja.

Harpa: Staðsetningin hefur örugglega eitthvað hamlað tengslum. Ég tók það eiginlega nærri mér í byrjun þegar ég fann fyrir þessu. En þó voru alltaf sumir sem komu hingað reglulega og mér fannst það dýrmætt. Það var eins og það hefði verið minna mál að safnið væri í Elliðaárdalnum eða uppi á Höfða en í Garðabæ í hugum sumra. Þegar ég hóf störf fannst mér áhugavert að safnið væri í Garðabæ og inni í ákveðnu samfélagi. Það er misskilningur að söfn þurfi endilega að vera í miðbæ. Það er áhugavert að koma hingað í annað bæjarfélag bæði fyrir útlendinga og Íslendinga. Þú gerir þér sérstaka ferð í safnið. Þetta er eitthvað sem okkur finnst sjálfsagt annars staðar. Guggenheim byggir í Bilbao og Síldaminjasafnið er á Siglufirði, af hverju ekki Hönnunarsafnið í Garðabæ?

Sigríður: Í þessu samhengi er skemmtilegt að minnast fantasíu sem ég var með í höfðinu þegar ég lokaði Sparki, en það var að flytja það í fallega hannað hús í Garðabæ. Þau eru fjölmörg og sjálf er ég alin upp í einu slíku. Nú eru margir að flýja miðbæinn og margt fyrir utan hann áhugavert. Þegar ég sá starfið auglýst hugsaði ég; auðvitað ætti ég að skoða þetta. Það getur verið ótrúlega spennandi og það er svo margt áhugavert sem hægt er að vinna með hér; gönguleiðir, hjólaleiðir og fallegt umhverfi í kring, eins og Heiðmörk svo eitthvað sé nefnt. Okkur þarf að takast að gera þetta hluta af rútínu hönnunarsenunnar og innan þess ramma. Úr miðbæ Reykjavíkur tekur aðeins tíu mínútur að keyra hingað. Safnið á jafnframt að vera sjálfsagður hluti af lífi bæjarbúa. Hér búa um 14.000 manns og við þurfum að vinna í því að ná enn betur til þeirra.

Þegar þú kveður Hönnunarsafnið Harpa og orðinn safnstjóri Listasafns Íslands, hvaða þýðingu hefur Hönnunarsafn Íslands fyrir þig í nýrri stöðu?

Harpa: Auðvitað bý ég vel að því að hafa séð inn um þessa gátt. Ég hef kynnst meiri fjölbreytni t.d. í framsetningu sýninga og allskonar tengslum. Landamærin núna eru ekki eins heilög og áður og það eru líka margir listamenn sem hafa skarast inn á svið hönnunar. Ég hlýt að flytja eitthvað af þessu með mér, trúi ekki öðru. Eins sé ég alveg fyrir mér mögulegt samstarf við Hönnunarsafnið um stærri verkefni eins og til dæmis ef dekka ætti ákveðið tímabil eða stefnu. En ég sé líka fyrir mér tengsl við Hönnunarsafnið sem þurfa þó ekkert endilega að vera sýningartengd. Það þarf að vinna markvisst í því að kynna hönnuði og listamenn og verk þeirra. Ég er of meðvituð um að íslensk hönnunarsaga er ekki enn nógu sýnileg, sem helst í hendur við það að almennt erum við ekki nógu meðvituð um hana og hvar hana er að finna. Það er mér mikilvægt og kært að safnið hafi orðið að raunverulegu safni og það á krepputímum. Það væri svo ótrúlega skrýtið ef hönnun væri ekki eðlilegur hluti menningararfsins.

Og ein til Sigríðar í lokin. Flestir amk. í hönnunargeiranum þekkja þig nokkuð vel sem Siggu í Sparki, en hver er Sigríður safnstjóri?

Sigríður: Ég á eftir að kynnast Sigríði safnstjóra betur en auðvitað er Sigga í Sparki og reynslan úr LHÍ og það sem ég bý að þaðan, hluti af henni. Mér líður eins og safnið sé hárrétti förunauturinn á þessum tímapunkti og að við munum efla hvort annað. Ég hef alltaf haft mestan áhuga á núinu og framtíðinni en um leið gert mér grein fyrir hversu mikilvægt er að vita og skilja hvaðan maður kemur. Aðallega er ég spennt að koma auga á möguleikana og framkvæma, vera einhverskonar fjöltengi.


Texti: Elísabet V. Ingvarsdóttir. Ljósmyndir: Eygló Gísladóttir

Skildu eftir svar