Grafísk Hönnun
Leave a comment

TypoCraft Helsinki til Reykjavík

Verkefnið TypoCraftHelsinki á rætur sínar að rekja til Finnlands og er eins konar farandsýning þar sem finnskir hönnuðir ferðast til ólíkra landa og vinna með þarlendum hönnuðum, í þessu tilfelli frá Íslandi. Verkefnið sameinar leturgerð, hönnun, list og handbragð — en fyrsta sýningin var haldin árið 2015. Í ár munu átta hönnuðir eða stúdíó frá hvoru landi taka þátt í sýningunni sem haldin verður í portinu í Hafnarhúsinu. Hönnuðirnir vinna með þemað leiðangur og útgangspunktur verkefnisins er týpógrafía í hinum ýmsu myndum.

Magnús Hreggviðsson, formaður Félags íslenskra teiknara, er einn af skipuleggjendum sýningarinnar og tekur einnig þátt í henni sem meðlimur Børk Studio. Hann tók enn fremur þátt í að velja íslenska hönnuði inn á sýninguna. „Ég kem inn í þetta sem tengiliður íslensku hönnuðanna,“ segir hann. „Alls konar hönnuðir geta tekið þátt í verkefninu en við vildum einbeita okkur að því að velja inn grafíska hönnuði þar sem við komum inn í þetta á forsendum FÍT. Við vildum þó velja grafíska hönnuði sem vinna með fjölbreytta miðla, hvort sem það eru skúlptúrar, textíll, vídjó eða eitthvað annað. Við vildum fá fjölbreyttar nálganir á efnið og forðast það að sýna bara postera og hönnuði frá auglýsingastofum. Svo þarf ekki að hugsa um þemað, leiðangur, sem lokaniðurstöðu heldur getur afraksturinn líka verið rannsókn eða ferli. Þetta er skemmtilegt verkefni að því leyti að þetta hvetur til samstarfs á milli hönnuða frá ólíkum löndum.“

Leturhönnuðurinn Rakel Tómasdóttir er einn af þátttakendum sýningarinnar en hún sýnir veggspjaldaseríu með letrinu Silk. Rakel byrjaði að hanna Silk í leturhönnunaráfanga í Listaháskólanum og endaði svo á því að nota það fyrir tímaritið Glamour, sem hún setur upp. Letrið þróaðist síðan yfir í lokaverkefnið hennar þar sem hún gerði úr því leturfjölskyldu. „Letrið er fínlegt, enda hannað með tískutímarit í huga. Það var frekar lengi í vinnslu enda algjört maus að búa til svona letur.“ Aðspurð um veggspjöldin segir Rakel að þema sýningarinnar, leiðangur, hafi minnt sig á kulda og drunga. „Ég tek texta og brýt hann upp og blanda honum inn í íslenskt landslag. Ég er í raun að reyna að aðskilja hljóðið frá stöfunum, svo að fókusinn sé á form stafanna frekar en merkingu þeirra.“

Sýnendur á TypoCraft Helsinki to Reykjavík eru Stúdío Kleina, Rakel Tómasdóttir, Sigga Rún, Magnús Ingvar Ágústsson, Viktor Weisshappel og Børk studio frá Íslandi og Inka Bell, Ilona Ilottu, Ilkka Kärkkäinen & Vera Kulju, Tony Eräpuro, Päivi Meuronen, Tuula Pöyhönen, Tuija Tarkiainen, Laura Villi, Eeva Sivula og Fru frá Finnlandi.


Texti Kolbrún Þóra Löve / Ljósmyndir Rafael Pinho

Skildu eftir svar