Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Hanna Dís Whitehead

Vöruhönnuðurinn Hanna Dís Whitehead útskrifaðist frá Hönnunarakademíunni í Eindhoven árið 2011 og rekur í dag hönnunarstofuna Studio Hanna Whitehead á Suð-Austurlandi. Gestum HönnunarMars í ár gefst kostur á að kynna sér verk hennar á tveimur sýningum: annars vegar á einkasýningunni Annað samtaI í Safnahúsinu og hins vegar á sýningunni Illikambur í Gallerí Harbinger.

„Hingað til hefur vörulínan einkum snúist um að hanna hluti sem ekki hafa fyrirfram ákveðið notagildi en í þetta sinn er ég að vissu leyti búin að snúa þessu við,“ segir Hanna Dís um línuna Annað samtal (e. Another Dialog) og útskýrir hvernig verkefnið hafi í raun þróast út frá samtölum við gesti á fyrri sýningum hennar. „Hér hef ég í fyrsta skipti unnið og betrumbætt vörurnar mínar svo þær falli að hugmyndum gesta um notagildi þeirra. Að þessu sinni vinn ég aðallega með keramík og leik mér að því að framkalla mismunandi efnistilfinningu með ólíkum glerungum. Þannig get ég til að mynda unnið keramík út frá plast- eða jafnvel gúmmítilfinningu.“

Samsýninguna Milla Snorrason x Studio Hanna Whitehead – Illikambur mætti einnig kalla nokkurs konar samtal. Þar er nýrri línu Millu Snorrason, fatamerkis Hildu Gunnarsdóttur fatahönnuðar, teflt fram í áhugaverðu samspili við skartgripi sem Hanna Dís hefur hannað sérstaklega fyrir línuna. Við vinnslu Illakambs sótti Hilda innblástur í litadýrð og náttúrufegurð samnefnds svæðis í Lónsöræfum. „Þetta samstarf hófst á því að Hilda sendi mér ljósmyndir sem hún tók á ferð sinni um Illakamb. Við unnum þetta síðan í raun mjög sjálfstætt en með sama útgangspunkti. Við höfum því að vissu leyti treyst á ferlið og að verk okkar eigi eftir að falla vel að hvert öðru – sem hefur verið raunin hingað til.“

Undanfarin ár hefur Hönnunarmiðstöð Íslands staðið fyrir DesignMatch – kaupstefnu íslenskra hönnuða við erlend fyrirtæki og framleiðendur á HönnunarMars. Hanna Dís er meðal þeirra hönnuða sem hafa í kjölfarið gengið til samninga en í framhaldi af fundi hennar með stofnanda Ferm LIVING á DesignMatch 2016 bauðst henni að þróa kertastjaka úr eigin smiðju inn í vörulínu fyrirtækisins. Úr varð stjakinn Around sem kom á alþjóðlegan markað í nóvember á síðasta ári. „Ferlið var mjög skemmtilegt og öll okkar samskipti ánægjuleg,“ segir Hanna Dís um samstarfið. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég hannaði inn í vörulínu fyrirtækis af þessari stærðargráðu og fyrir mig er þessi reynsla – og að hafa prófað þetta ferli – mjög mikilvæg.“

Þátttakendur í DesignMatch í ár eru DesignHouse Stockholm, Nuovum, PAD Lifestyle, Thomas Eyck, Tom Dixon, TRE og Vij5.


Texti Sunna Örlygs / Ljósmyndir Tian Khee Siong

Skildu eftir svar