Design Talks - Fyrirlestraröð HönnunarMars, HönnunarMars, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Björn Steinar Blumenstein

Verkefni vöruhönnuðarins Björns Steinars Blumenstein veita skarpa sýn á þær margslungnu framleiðsluleiðir sem eru grundvöllur hversdagslegs lífsstíls okkar. Með gagnrýnum en jafnframt lausnamiðuðum nálgunum kannar hann nýjar leiðir sem við getum haft í huga og nýtt okkur í því skyni að takast á við hnattvæddan heim og hið sjálfgefna hlutverk okkar sem neytendur. Við hittum Björn Steinar til að ræða tvær nýjar sýningar sem hann stendur fyrir á HönnunarMars og þátttöku hans á DesignTalks-ráðstefnunni.

Verkin þín virka á mig eins og nokkurs konar hönnunarrannsókn. Hver er helsta ástæðan fyrir þessari nálgun?
Hönnun er ennþá nokkuð tilraunakennd á Íslandi og hönnuðir hafa enn ekki hlotið fastan sess innan samfélagsins svo við erum nokkuð frjáls. Það er á margan hátt mjög gott en getur líka verið hamlandi. Við búum yfir frekar fáum auðlindum og innviðir fyrir nýtingu þeirra eru að mestu leyti ómótaðir. Það tel ég að sé kveikjan að öllum þessum skrítnu verkefnum þar sem hönnuðir gera beinar tilraunir með efni og láta reyna á þolmörk þeirra og umgjarðarinnar í kring.

Getum við aðeins rýnt í sýningarnar þínar á HönnunarMars 2018 og hönnunarferlið þar að baki?
Catch of the Day er verkefni sem tekst á við matarsóun. Ég hef verið að kafa ofan í ruslagáma í nokkur ár og fékk nóg af því að sjá í ruslinu mat sem ekkert var að. Ég fór í kjölfarið að velta því fyrir mér hvað hægt væri að gera við þetta hráefni.

Allt sem inniheldur meira en 20% alkóhól þarf ekki að hafa „best fyrir“ merkingu. Þar af leiðandi datt mér í hug að koma mætti í veg fyrir að matvælum væri sóað – og gefa þeim endalaust geymsluþol – með því að framleiða vodka úr aflögu matvælum.

Ég byrjaði á að vinna þetta með áfengisframleiðendum en það fór gríðarlegur tími í formsatriði sem hægðu á öllu ferlinu. Mér fannst ég þurfa að taka á þessu strax svo ég bjó til frjáls (e. open-source) eimingartæki sem bjóða fleirum að taka þátt í vinnslunni. Þetta er ef til vill ekki fullkomin lausn en engu að síður leið til að koma af stað mjög mikilvægri umræðu. Hugsunin er að minnsta kosti lausnamiðuð.

Aðstæður næsta verkefnis hjá þér eru allt aðrar – afar vel heppnað samstarf við íslenska skógrækt með það að augnamiði að undirbúa hana fyrir framtíðina.
Það verkefni kallast Skógarnytjar. Ég er að vinna með Skógræktarfélagi Íslands við að kortleggja nytjaskóga á Íslandi og nýtingarmöguleika þeirra. Í kjölfarið útbjó ég stuttan leiðarvísi fyrir hönnuði og bauð þeim að taka þátt í verkefninu og hanna úr íslenskum við. Ég hef sent þetta til u.þ.b. 100 hönnuða og ætla að koma þeim tillögum sem mér berast í verk. Á sýningunni á HönnunarMars verða fyrstu frumgerðirnar til sýnis.

Þetta verkefni varð til vegna þess að Ísland hefur verið skóglaust í þúsund ár og við erum fyrst nú komin með við í nýtanlegu magni. En ef allt fer fram sem horfir verður enginn farvegur tilbúinn fyrir afurðina þegar við fáum fyrstu uppskeruna í hendurnar.

Við núverandi aðstæður eru 80% af öllum innlendum við brennd og nýtt sem kolefnisgjafi í kísilmálmvinnslu. Það stafar af því að virðisaukandi úrvinnsluiðnaður er ekki til staðar. Til þess að auka verðmætasköpun skógareigenda – svo þeir hafi hvata til að halda áfram og efla skógrækt – þarf að styrkja úrvinnsluiðnað úr timbri. Ég er að reyna að skapa forsendur fyrir slíku og vekja áhuga fólks á að takast á við stöðuna sem komin er upp en það er ljóst að það er mikið og þarft verk fyrir höndum.

Ef við opnum augun og hönnum með framtíðina í huga ættum við að geta gert ráðstafanir núna til að koma í veg fyrir vandamál sem eru rétt handan við hornið.

Þú ætlar að halda fyrirlestur á DesignTalks-ráðstefnunni um samvinnuverkefni þitt Cargo. Hvað geturðu sagt okkur um það?
Flutningagámurinn er einn af lykilþáttunum í flóknu kerfi sem gerir lifnaðarhætti samtímans mögulega en flest sinnum við okkar daglega lífi án þess að átta okkur á því hve umfangsmikil áhrif hans eru. Cargo er verkefni sem ég vann með kollega mínum, Johonnu Seelemann, en það tekur á ferli sem er okkur að mestu hulið dagsdaglega – ferlinu á milli framleiðslu og neyslu – og gerir það sýnilegra.

Okkur langaði til að segja sögu Íslands á tímum alþjóðlegra farmaflutninga með mjög íslenskum afurðum, áli og þorski. Í því skyni útbjuggum við meðal annars tveggja metra langan „made-in“ miða fyrir dós af Appelsíni til að útskýra ferlið frá uppgreftri hráefnis og áfram í gegnum öll framleiðsluskrefin.

Hvernig myndirðu tengja verkefni þín hvert öðru?
Mikilvægt stef í öllum mínum verkum er bæði að varpa ljósi á ólík málefni og leggja til einhvers konar lausn. Fyrir utan að rannsaka og fræða legg ég mig alltaf fram um að gera eitthvað sem skiptir máli, grípa til aðgerða á einhvern hátt og opna verkefnin svo hægt sé að bjóða fleirum að taka þátt.

Hvar staðseturðu sjálfan þig sem hönnuð í samtímanum?
Ég hallast æ meira að samvinnu í hönnun – þar sem ég er í raunverulegum aðstæðum að vinna með og tengjast fólki, eins og skógræktendum eða bændum, sækja í þekkingu og visku annarra og skoða hana með eigin augum. Ég vil sjá rannsóknar- og tilraunaverkefni fá meira vægi í hönnun.

Á vissan hátt eru þessi verkefni sem ég mun kynna á HönnunarMars mjög staðbundin og gera Ísland að nokkurs konar myndlíkingu fyrir heiminn. Það er mikilvægt fyrir mig sem hönnuð að halda áfram að rækta með mér sterka rödd sem miðlar mikilvægum málefnum til fjöldans með það að markmiði að móta framtíðina.


Texti: Michelle Site / Ljósmyndir: Rafael Pinho & Björn Steinar Blumenstein

Skildu eftir svar