Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Studio Trippin
— 
Frá hliðarafurð yfir í hönnunarvöru

Áskoranir nútímans og kröfur um sjálfbærni leiða hönnuði í auknum mæli nær uppruna sínum og hvetja þá til að vinna á skapandi hátt úr náttúrulegum hráefnum. Hönnunarteymið Studio Trippin fetar ótroðnar slóðir í nýtingu íslenskra hrosshúða og tekst þannig að breyta áður ónýttri hliðarafurð í áhugaverða hönnunarvöru.

Hrosshúðir hafa lítið verið nýttar hér á landi og Kristín Karlsdóttir fatahönnuður og Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður litu á það sem áhugaverða áskorun. „Húðirnar eru, ólíkt flestum öðrum feldum, af dýri sem hefur fengið góða meðferð og er að öðru leyti fullnýtt. Þess vegna teljum við að það sé mun betra að nýta hrosshúðirnar en að urða þær eða senda úr landi eins og hefur verið gert hingað til. Svo er þetta umhverfisvænni efniviður en gervifeldur,“ segir Valdís.

Kveikjan að verkefninu var námskeið sem Valdís sótti í vöruhönnunarnáminu í LHÍ þar sem lögð var áhersla á mikilvægi hestsins í íslenskri menningu og opnað á umræðu um aukna nýtingu hliðarafurða hans. „Ég varð alveg heltekin af þessu hráefni og í framhaldinu fórum við Kristín að ræða saman og hugmyndir fóru á flug,“ segir Valdís.

Verkefnið fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna síðastliðið vor og í kjölfarið lögðust Kristín og Valdís í rannsóknar- og heimildarvinnu til að kynnast vinnslunni frá grunni. Þær segja þróunarferlið hafa verið lærdómsríkt og áhugavert. „Hrosshúðir eru frekar óþjált hráefni og misþykkar svo það getur verið erfitt að vinna með þær og sauma úr þeim. En við ákváðum að líta á það sem kost,“ segir Kristín. Til dæmis hafi þær með góðum árangri notað þykkari hluta húðarinnar í kraga þar sem alla jafna væru notaðar stífingar: „Við gerðum líka tilraunir með að lita feldinn með náttúrulegum hráefnum sem þekkt eru í jurtalitun. Við prófuðum til dæmis kaktuslús, sem er skordýr sem gefur frá sér breiðan skala af mjög fallegum rauðum og bleikum tónum.“

Á næstunni tekur við frekari hönnunar- og þróunarvinna. „Það eru endalausir möguleikar varðandi hvað er hægt að gera úr litríkum feldi, bæði þegar kemur að fata- og vöruhönnun. Við erum með fullt af hugmyndum sem við ætlum okkur að hrinda í framkvæmd,” segir Kristín.

www.studiotrippin.com

 


Texti Bára Huld Beck / Ljósmyndir Ragna Margét Guðmundsdóttir og Magnús Andersen

Skildu eftir svar