Viðtöl
Leave a comment

Sara Jónsdóttir, stjórnandi HönnunarMars

Í ár fagnar HönnunarMars tíu ára afmæli sínu. Hvaða breytingar hafa orðið á hátíðinni á þessum áratug og hvert stefnir hún?
Hátíðin og sjálf hönnunarsenan hafa farið í gegnum töluvert þroskaferli á þessum tíu árum. Umfang hátíðarinnar eykst með ári hverju og hún hefur skapað sér fastan sess í hugum hönnuða og borgarbúa.

Viðfangsefni, þemu og hvaða greinar eru mest áberandi hverju sinni hefur verið breytilegt ár frá ári. Það er þó sífellt meira um þverfagleg verkefni og verkefni sem ná út fyrir hinar hefðbundnu hönnunargreinar. Skilningur á hönnun og mikilvægi hennar hefur aukist marktækt á þessum árum og það eru sífellt fleiri sem skilja að hönnun er aðferða- og hugmyndafræði sem á heima innan allra innviða samfélagsins, allt frá landbúnaði yfir í fjármálakerfi.

Markmið HönnunarMars er að auðga samfélag hönnuða og þjappa því saman, að skapa vettvang þar sem tengingar myndast, samstarfsverkefni verða til og íslensk hönnun fær brautargengi innanlands sem utan. Framundan er skarpari fókus og enn meiri gæði.

Hverjar eru helstu áskoranirnar við að halda hátíð eins og HönnunarMars?
Helsta áskorunin er að fá milljón púsl til að raðast rétt á sama tíma. Það er þannig með undirbúning hátíða sem þessarar að fæst mál leysast fyrr en á síðustu metrunum. Það getur verið temmilega streituvaldandi þó hlutir hafi nú yfirleitt tilhneigingu til að fara nákvæmlega eins og þeir eiga að fara. Önnur stór áskorun er útsjónarsemi við að láta stóra hátíð ganga upp á tiltölulega litlu fjármagni og fámennu teymi.

Hvert er hlutverk og gildi HönnunarMars fyrir hönnunarsenuna og íslenskt samfélag?
Hátíðin er uppskeruhátíð íslenskra hönnuða og arkitekta og um leið er hún stærsta kynningarafl þeirra – gagnvart íslenskum almenningi og viðskiptalífi og langt út fyrir landsteinana. Á hátíðina kemur árlega fjöldi erlendra blaðamanna til að fjalla um hana og kynna sér það helsta sem er að gerast í hönnun á Íslandi. Í hátíðinni felast ótvíræð viðskiptatækifæri og hún á ríkulegan þátt í að stækka starfsumhverfi íslenskra hönnuða, jafnt faglega og landfræðilega. Þá er hátíðin einnig vettvangur fyrir hönnuði og aðra áhugasama til að sækja sér innblástur, en DesignTalks er gríðarlega metnaðarfull alþjóðleg hönnunarráðstefna þar sem framúrskarandi hönnuðir víðs vegar að taka til máls. HönnunarMars hefur upp á svo margt að bjóða og hver og einn getur sótt sér það sem hann sækist eftir hverju sinni –  hvort sem það er tengslanet, viðskipti, kynning, innblástur eða hrein og bein skemmtun.

Hvað þykir þér skemmtilegast við starfið?
Stórt á litið er það þegar vel tekst til og tilætluðum árangri er náð. Fiðringurinn kemur við að sjá heildarmyndina birtast fyrir augum sér – stundin þegar allir viðburðir og sýningar opna og afrakstur hönnuða og arkitekta kemur í ljós. Eins þykir mér alltaf sérstaklega gaman þegar ákveðnir galdrar eiga sér stað og sýningar og viðburðir sem láta ekki mikið yfir sér í upphafi ná að koma mér skemmtilega á óvart.

 


Texti Sigríður Ásgeirsdóttir / Ljósmynd Rafael Pinho

Skildu eftir svar