Álit / pistlar, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Kúlur kveða sér hljóðs

Bryndís Bolla

Kúlur Bryndísar Bolladóttur má finna víða. Þær bregða sér í ólík hlutverk eftir því hvaða efni hún notar við uppbyggingu hennar. Í vörulínunni hennar KULA er meðal annars að finna snaga, hitaplatta, leikföng, hljóðdempara og hljóðdreifara. Grunnformið er þó alltaf hálf eða heil kúla þar sem efsta lagið er þæfð ull.


Texti: Sigríður Maack / Myndir:Ernir Eyjólfsson & A2F arkitektar

FMOS09

Bryndís er menntaður myndlistarmaður og textílhönnuður. Hún hefur unnið að framleiðslu sinni síðan 2009. Í upphafi hannaði hún skálar og diskamottur fyrir Örva starfsþjálfun þar sem hekl var hitapressað ofan í plast. Bryndís er meðal þeirra hönnuða sem hafa landað samningi á Design Match, sem er stefnumót hönnuða og framleiðenda á HönnunarMars ár hvert. Danski hönnunarvöruframleiðandinn Normann Copenhagen hóf framleiðslu á snögum og hitaplöttum í vörulínunni KULA sem þróaðir höfðu verið í samstarfi við Örva. Seinna fluttist framleiðslan austur á land þaðan sem vel lá við að flytja vörurnar með Norrænu til söluaðila um alla Evrópu.

Í seinni tíð hafa viðfangsefni Bryndísar einkum snúist um listrænar hljóðlausnir. Nýverið vann hún áhugaverð hljóð- og innsetningarverk fyrir nýja framhaldsskólann í Mosfellsbæ, FMOS. Lausnirnar hannaði hún í samstarfi við arkitekta hússins, þau Aðalheiði Atladóttur og Falk Krüger hjá A2F arkitektum.

FMOS25

Bryndís vann einnig litasamstæður sem notaðar voru við val á gleri og textíl. Aðalheiður segir að snemma í ferlinu hafi verið lögð áhersla á að listskreyting yrði órjúfanlegur hluti af húsinu og því ákveðið að efna til lokaðrar samkeppni. Fjórum listamönnum var boðið til þátttöku og bárust mjög áhugaverðar og fjölbreyttar tillögur frá þeim öllum. Dómnefndin var þó einhuga um að tillaga Bryndísar, „Frjór vegur til framtíðar“, samræmdist best þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með.

FMOS46

Í FMOS var lögð áhersla á vistvæna hönnun og endurnýtingu hráefna. Segist Bryndís því hafa lagt í mikla rannsóknarvinnu á því sviði. „Ég fór meðal annars í Endurvinnsluna og sá þar glermulning sem sólin skein á. Þá tók hjarta mitt kipp.

Ég kynnti mér hvernig gler hefur verið notað til að styrkja steypu og fleira. Ég fékk Gísla, gólflagningamann hjá Mallandi, í lið með mér og við gerðum nokkrar prófanir á vinnslu efnis. Við enduðum á því að slípa glerið niður og lögðum það eins og steinteppi. Í opinberum byggingum eru hins vegar gerðar miklar kröfur um vottanir og því gekk þetta ekki. En ég hélt áfram að leita og fann að lokum út úr því hvernig hægt er að nota gler sem uppfyllingarefni í gólflausnum.“

FMOS49

Bryndís segir að unnið hafi verið með hugmyndir um flæði í gegnum skólann og endurtekningu í litaspili og formum. „Þar vorum við algjörlega að tala sama tungumálið. Litaval er sótt í náttúruna, sóleyjargulur, himinblár, grasgrænn og allt látið tóna fallega saman. „Frjór grænn jarðvegur“ er grænt flöskugler sem glitrar á þegar gengið er inn í skólann og svífandi kornin í loftinu festast á veggi sem „ullarhnoðrar“. Mig langaði líka að tengja glerið út í steypuna í anddyri skólans þar sem náttúra og bygging mætast.“

FMOS44

Samstarf þeirra Aðalheiðar og Bryndísar hófst snemma í hönnunarferli byggingarinnar og lauk ekki fyrr en hún var tekin í notkun. Verkefnið þróaðist og breyttist í ferlinu vegna ýmissa þátta. Eins og fyrr sagði þurfti að sleppa fyrir–huguðu glergólfi en þess í stað fengu vegglistaverkin mun meira vægi. Bryndís segir það hafa legið beint við að taka þau inn í hljóðútreikninga og þar með hófst samstarf við Guðrúnu Jónsdóttur, hljóðverkfræðing hjá EFLU verkfræðistofu, sem sá um hljóðhönnun hússins.

FMOS19

Prófanir voru gerðar hjá Nýsköpunarmiðstöð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og virkni hljóðlausnanna reyndist vera í hæsta gæðaflokki. Niðurstöðurnar hafa skapað ný tækifæri fyrir Bryndísi. „Samvinnan með A2F hefur haft mikið að segja fyrir mitt fyrirtæki. Án þeirrar reynslu væri fyrirtækið ekki á þeim stað sem það er í dag. Síðan 2013 hef ég verið að stefna inn á erlendan markað og á síðasta ári gerði ég samning við fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf í hljóðlausnum“, segir Bryndís.

Aðalheiður er sammála Bryndísi um mikilvægi þess að þverfaglegt samtal eigi sér stað. „Þannig er fræjum sáð og til verður eitthvað alveg nýtt. En til að allt gangi upp þarf að aðlaga og fínpússa hlutina þar til allt smellur. Í þessu tilfelli gekk allt eins og í sögu og við erum afar ánægð með útkomu samstarfsins.“

20150114_ernir_MG_5443

Frá 2006 hefur Bryndís unnið að þróun þæfingarvélar með ullarvinnslu Frú Láru á Seyðisfirði en að sögn Bryndísar hefur engin sambærileg framleiðsla verið til staðar á Íslandi. „Ég legg mikið upp úr því að vinna úr íslensku hráefni og reyna að byggja upp innlendan iðnað. Í kreppunni gafst tækifæri til að fá fólk til að vinna að nýjungum. Hraðinn hafði minnkað og tími gafst til að staldra við og mynda samtal sem ekki var hægt áður. Við verðum að læra að nýta skapandi hugsun og samstarf í víðara samhengi.“

 

Skildu eftir svar