Grafísk Hönnun
Leave a comment

Viskubrunnur

Lífsreglur og heilræði frá Gísla B. Björnssyni

Fáir hafa markað grafíska hönnun á Íslandi dýpri sporum en Gísli B. Björnson teiknari. Afkastamikill ferill hans nær yfir fimm áratugi og hann telst meðal upphafsmanna módernisma í grafískri hönnun á Íslandi. Við báðum Gísla að veita úr viskubrunni sínum og gefa upp nokkar dýrmætar lífsreglur sem teiknarar eða aðrir hönnuðir geta haft til hliðsjónar í hörðum heimi hönnunar og auglýsinga.


Höfundur: Arnar Ingi Viðarsson / Ljósmyndir: Arnar Fells

Samvinna, ekki samkeppni
Hlutverk okkar er ekki eingöngu að taka við beiðnum um vinnu heldur einnig að sýna frumkvæði. Símtal eða heimsókn, án þess að það sé pantað fyrir fram, getur leitt til betra samstarfs, nýrra verkefna og verið metið að verðleikum.

Allt er gott í hófi
Til eru þúsundir mismunandi leturtegunda og hver hönnuður á sitt eða sín óskastafróf. Mér hafa dugað fá en góð letur og ég kæmist trúlega af með fjögur valin letur með sínum afbrigðum.

Lærðu að segja nei
Það er mikilvægara en að kunna latínu. Verkkaupar hafa sterka tilhneigingu til að ráðskast með hönnuði. Við verðum að hafa sterka vitund, sjálfsvirðingu og kjark til að vinna úr þessu á jákvæðan hátt og reyna sáttaleið. Að þóknast öðrum gegn eigin samvisku er ekki farsæl leið.

Betur sjá augu en auga
Það er hollt að fá álit annarra hönnuða á verki sem er í vinnslu. Mörg verk hafa þannig farið á betri veg og mistökum hefur verið forðað en þau kosta tíma og peninga. Að loka sig af í sjálfumgleði er ekki gott. Umræða og skoðanaskipti eru af hinu góða og rétt er að viðurkenna veikleika og leita betri lausna.

Lífið er besti skólinn
Allt lífið er skóli og sjálfsmenntun er þar stærsti þátturinn. Að fylgjast með, lesa, hlusta, skoða og ferðast, sjá lífið og listina. Hönnuður sem lokar sig af og fylgist ekki með mun fljótlega staðna.

Fylgstu með Viskubrunninum í næsta tímariti HA

Gísli B. Björnsson - Ljósmynd / photograph : Arnar Fells

Gísli B. Björnsson – Ljósmynd / photograph : Arnar Fells

Skildu eftir svar