Álit / pistlar
Leave a comment

HA, hvað ertu að segja?

Leiðari HA

Hönnunarsaga Íslands er hvorki löng né fyrirferðarmikil í samanburði við sögu nágrannaþjóða okkar. Í norrænu samhengi má líkja íslensku hönnunarsenunni við ungling en eins og flestir vita geta unglingsárin verið erfið. Á þeim tíma er sjálfsmyndin í mótun og tilfinningaskalinn þolprófaður.


Arnar Fells — Ritstjóri

Unglingurinn er sjaldan tekinn alvarlega og hann upplifir sig lítinn og óreyndan. Sem unglingur reiðir maður sig á stuðning þeirra sem standa manni næst en á sama tíma þráir maður að geta staðið óstuddur og sjálfstæður. Hönnunarsamfélagið á Íslandi er einmitt á viðkvæmum tímamótum sem líkja má við unglingsárin. Við erum smám saman að uppgötva eigið ágæti og viljum láta taka okkur alvarlega, ekki bara í norrænu eða alþjóðlegu samhengi heldur einnig í íslensku atvinnulífi. Við erum hluti af þjóðfélagshópi sem gerir sér grein fyrir raunverulegum ávinningi þess að fjárfesta í hönnun og skapandi greinum til langs tíma. Við viljum koma að stórum og smáum ákvarðanatökum, jafnt í stjórnsýslu sem einkageiranum, og þannig móta okkur betri framtíð. Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning og æ fleiri skilja nú mikilvægi hönnunar. Efling Listaháskóla Íslands og stofnun Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarsafnsins hefur haft þar mikið að segja. Þótt hafi orðið breyting til batnaðar eru kimar þjóðfélagsins margir og misfljótir að taka við sér. Hægfara breytingar geta alið á gremju yfir því að „hinir“ sjái ekki ljósið en það þýðir lítið að hrista höfuðið yfir rangri stefnu fólks, fyrirtækja eða stjórnvalda. Hönnuðir sem bölsótast yfir skilningsleysi í umhverfi sínu fá litlu framgengt en góðir hönnuðir sem leggja áherslu á að upplýsa og fræða hafa allt í hendi sér. Það er einmitt það sem við ætlum okkur að gera með

HA_issue_02-7

tímaritinu HA. Við viljum efla almennan áhuga á hönnun og arkitektúr með því að sýna áhrif greinanna og mikilvægi þeirra. HA mun verða vettvangur gagnrýninnar hugsunar og stuðla að aukinni þekkingu á hönnun og arkitektúr. Hvað er meira viðeigandi en að tengja nafn slíks tímarits við spurnarorðið ha? Hið sérkennilega íslenska orð sem lýsir undrun og fróðleiksfýsn, sem eru einmitt dyggðir skapandi fólks. Talandi um skapandi fólk þá langar mig að þakka hinu

undirmannaða en stórhuga teymi sem að tímaritinu stendur. Ritið er gott dæmi um hverju er hægt að áorka með skýrri hugsjón og hæfileikaríku fólki. Það er von okkar að þú, lesandi góður, skiljir mikilvægi þess að HA festi sig í sessi. Taktu þátt í umræðunni og hjálpaðu okkur að upplýsa og fræða með það að markmiði að gera sífellt betur.

Skildu eftir svar