Ástþór Helgason, nýr stjórnandi HönnunarMars, hefur haft í nógu að snúast undanfarið við að móta heildstæða hátíð með nýrri sýn – og fersku útliti úr smiðju Studio Studio.
– Hvaða hlutverki gegnir HönnunarMars fyrir íslenskt samfélag?
HönnunarMars er í sífelldri þróun og hefur fest rækilega í sessi sem uppskeruhátíð íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Hátíðin hefur átt ríkan þátt í að breyta landslagi hönnunar og því skynbragði sem fólk ber á hana. Þessi þróun er í takt við þá staðreynd að hönnun og arkitektúr gegnir sífellt mikilvægara hlutverki í samfélaginu – enda er hönnunarhugsun eitt verðmætasta verkfærið sem við eigum til að auka lífsgæði og velsæld. Svo komum við auðvitað saman til að gleðjast, mynda tengsl og finna hugmyndum okkar farveg.
– Hvað einkennir hátíðina í ár?
Fjölbreytileiki – sjálfbærni og lausnamiðuð framtíðarhugsun eru ríkjandi stef í dagskrá hátíðarinnar. Á DesignTalks, alþjóðlegu hönnunarráðstefnunni, eru slík verkefni í forgrunni. Þar verður fjallað um hvernig breyta megi heiminum til hins betra, hvar fari saman áhugaverðar breytingar og árangursríkar lausnir á erfiðum málum. Hátíðin í heild sinni endurspeglar að hönnun teygir sig nú inn á flest svið samfélagsins – til að mynda í öllum ferlum, framleiðslu og skipulagi.
Studio Studio, grafísku hönnuðirnir Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir, hanna nýtt einkenni HönnunarMars.
– Hvernig kviknaði hugmyndin að útliti hátíðarinnar og hverju viljið þið koma til skila?
Nýja einkennið byggir á því eldra – sem endurspeglar ákveðið ferli, framsækni og sérstöðu. Við settum stefnuna á að móta sterkt einkenni með afmörkuðum ramma sem býður upp á sveiganleika. Hann má svo laga að ólíkum miðlum sem gerir einkennið í raun síbreytilegt. Líkt og áður er teflt fram jákvæðu yfirbragði og tilraunagleði og fjólublái liturinn verður áfram í forgrunni. Stór hluti nýja einkennisins er íslenskt letur sem hannað er af Universal Thirst. Skilaboðin eru nokkuð óræð en með skýrt markmið – að vekja áleitnar spurningar um hlutverk hönnuða og hönnunar í samfélaginu.
Viðtalið birtist í HA Extra nr.2 fyrir HönnunarMars 2019.
Texti : Ingunn Eyþórsdóttir. Mynd: Rafael Pinho