Síbreytilegur og sveigjanlegur rammi
—
Ástþór Helgason og Studio Studio
Ástþór Helgason, nýr stjórnandi HönnunarMars, hefur haft í nógu að snúast undanfarið við að móta heildstæða hátíð með nýrri sýn – og fersku útliti úr smiðju Studio Studio. – Hvaða hlutverki gegnir HönnunarMars fyrir íslenskt samfélag? HönnunarMars er í sífelldri þróun og hefur fest rækilega í sessi sem uppskeruhátíð íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Hátíðin hefur átt ríkan þátt í að breyta landslagi hönnunar og því skynbragði sem fólk ber á hana. Þessi þróun er í takt við þá staðreynd að hönnun og arkitektúr gegnir sífellt mikilvægara hlutverki í samfélaginu – enda er hönnunarhugsun eitt verðmætasta verkfærið sem við eigum til að auka lífsgæði og velsæld. Svo komum við auðvitað saman til að gleðjast, mynda tengsl og finna hugmyndum okkar farveg. – Hvað einkennir hátíðina í ár? Fjölbreytileiki – sjálfbærni og lausnamiðuð framtíðarhugsun eru ríkjandi stef í dagskrá hátíðarinnar. Á DesignTalks, alþjóðlegu hönnunarráðstefnunni, eru slík verkefni í forgrunni. Þar verður fjallað um hvernig breyta megi heiminum til hins betra, hvar fari saman áhugaverðar breytingar og árangursríkar lausnir á erfiðum málum. Hátíðin í heild sinni endurspeglar að …