HA vefgrein, HönnunarMars, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Eitt stykki hönnun, takk

Kolbrún Vaka Helgadóttir

Eitt stykki hönnun, takk er ný þriggja þátta sjónvarpsröð um HönnunarMars. Þættirnir eru í umsjón Kolbrúnar Vöku Helgadóttur og sýndir í Ríkissjónvarpinu í aðdraganda hátíðarinnar í ár.

„HönnunarMars fagnaði áratugsafmæli í fyrra og mér fannst tilvalið að nota tímamótin til að að sýna almenningi hátíðina frá öðru sjónarhorni. Ég fékk Janus Braga Jakobsson kvikmyndargerðarmann til liðs við mig og við fylgdum áhugaverðum hönnuðum eftir í rúmt ár,“ útskýrir Kolbrún og heldur áfram: „Þeir hönnuðir sem urðu fyrir valinu voru með spennandi verkefni í gangi sem öll höfðu samfélagslega skírskotun; vöruhönnuðirnir Róshildur og Snæbjörn í 1+1+1 eru hluti af Sweet Salone, tilraunaverkefni Auroru Foundation, sem felur í sér samstarf við handverksfólk í Sierra Leone, vöruhönnuðurinn Valdís Steinarsdóttir og fatahönnuðurinn Kristín Karlsdóttir í Studio Trippin nýta áður ónýtta hliðarafurð af hrossum í áhugaverða hönnunarvöru, og verkefni vöruhönnuðarins Búa Bjarmars Aðalsteinssonar, Stússað í steininum, sem hlotið hefur mikið lof, miðar að því að efla starfsgetu og starfsánægju fanga á Litla-Hrauni.“

Angel Trinidad, sjálfstætt starfandi blaðamaður í Hollandi, er einnig á meðal viðmælenda í þáttunum en hún þræðir árlega tugi hönnunarhátíða um heim allan. HönnunarMars er í sérstöku uppáhaldi hjá henni og er það helst smæð hátíðarinnar og nálægðin við hönnuðina sem heillar. „Það er hennar upplifun að íslensk hönnunarsena sé að þróast á svipaðan hátt og víða annars staðar – að áherslur hönnuða séu í takti við þær stóru áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir,“ segir Kolbrún og tekur sjálf í sama streng: „Það er ljóst að hlutverk hönnunar er að breytast og mér finnst dagskrá hátíðarinnar síðustu ár benda eindregið til þess að íslenskir hönnuðir séu í meira mæli en áður að leita leiða til að tækla ákveðin vandamál um leið og þeir fegra umhverfið og vinna að bættu samfélagi. Það er ánægjuleg þróun og ég hlakka til að sjá hvert hönnuðir leiða okkur í framtíðinni!“

Eitt stykki hönnun, takk er á dagskrá RÚV fimmtudagana 14., 21. og 28. mars kl. 20:30 og á ruv.is

Viðtalið birtist í HA Extra nr.2 fyrir HönnunarMars 2019.
Texti : Ingunn Eyþórsdóttir. Mynd: Rafael Pinho

Skildu eftir svar