Álit / pistlar, HönnunarMars, Landslagsarkitektúr
Leave a comment

Samtal um hönnun

Dagur B. Eggertsson og Björn Steinar Blumenstein

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður hittust og ræddu saman um hönnun, borgarskipulag og auðvitað borgarhátíðina HönnunarMars. Hvaða merkingu hefur hátíðin í þeirra huga?

Dagur: Ég tengi HönnunarMars við þá deiglu og grósku sem spratt fram í samfélaginu eftir hrun. Bankarnir voru fallnir og margir trúðu að til væri ein lausn við öllum vandamálum. HönnunarMars og hönnun var eitt af þeim elementum þar sem fólk fann með hjartanu, þekkingu og sköpun leið út úr krappri stöðu og það var ekki einhver leið heldur leið í átt að betra samfélagi og betra lífi.

Björn: Það er einmitt oft á svona umbrotstímum sem hönnun og list nær að
blómstra. Eins og á þessum tíma í kringum hrunið. Það ýtir á fólk að vera meira skapandi.

Dagur: Nákvæmlega. Mörg hönnunar- og skipulagstengd verkefni fóru í gang þarna, í kjölfar uppsagna hjá arkitektastofum. Fagfólk hópaðist saman og úr urðu verkefni eins og Hæg breytileg átt og Betri borgarbragur sem enn er hægt að sækja mikla næringu í þegar kemur að alls konar ákvörðunum og stefnumörkun. Maður getur velt fyrir sér hvar þessi næring verður til þegar allir vinna langa vinnudaga í verkefnum sem þarf að skila á morgun.

Björn: Einmitt. Ef þú ert hvort eð er að fara að vera í einhverjum blankheitum og veseni er allt eins gott að elta ástríðuna. Fyrir mitt leyti er HönnunarMars mjög mikilvægur vettvangur til að kynna það sem ég er að gera. Það er ekki eins og það séu tækifæri á hverju strái. Ég finn líka meira og meira hvernig hátíðin mótar eins konar stefnu í hönnunarmálum. Þar deila allir þekkingu sinni á sama tíma og í kjölfarið verður meira um samtal milli hönnuða, jafnt þeirra á milli og við samfélagið.

Dagur: Það er mjög áhugavert. Er þetta kannski svona Iceland Airwaves hönnunar? Þar sem þau sem eru nöfn sýna það sem er nýjast hjá þeim og aðrir ná áheyrn og slá í gegn? Þegar ég er spurður að því hverju ég er stoltastur af í borginni er tónlist eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann og þá er ég oft að reyna að útskýra fyrir fólki að jaðarinn er „mainstream“ á Íslandi. Er það þannig líka í hönnun?

Björn: Já, Björk segir einmitt hluti sem mér finnst vera hægt að heimfæra á hönnun. Til dæmis sagði hún í Rokk í Reykjavík að ástæðan fyrir því að íslensk tónlist væri sérstök væri sú að þau gætu svo gott sem gleymt því að selja mörg eintök af plötum, við værum bara 300 þúsund. Sem aftur kemur inn á að það er eins gott að eltast bara við það sem þú hefur virkilegan áhuga á.

Dagur: Akkúrat!

Björn: Ég held að hönnunarsenan í heild á Íslandi sé hægt og rólega að finna samtón og komast að niðurstöðu um hvað grafísk hönnun, vöruhönnun og allt þetta er á Íslandi. Þetta mjakast. Ætli við neglum það ekki bara á þessu ári?

Dagur: Ég er allavega mjög spenntur. Vitund um hönnun alltaf verið til staðar í þessari borg og umræður um hús en stóra breytingin er að bilið milli húsanna er orðið merkilegt viðfangsefni. Hönnun borgarrýmisins. Við vitum núna, og ég sem læknir, hvaða áhrif hönnun, bæði slæm og góð, getur haft á líðan og hegðun. Þú skapar líf í borg með því að búa til falleg, vel hönnuð og vel lýst borgarrými.

Björn: Það vita náttúrulega fáir betur en þú hvernig hvert einasta smáatriði í umhverfinu er hannað í þaula. En ein spurning fyrir þig Dagur, hvernig er hægt að hanna betra samfélag og hvað getum við hönnuðir gert til að stuðla að því?

Dagur: Ég held að upphafspunkturinn í því sé að ræða hvert markmiðið á að vera. Betra samfélag, er það ekki samfélag sem skapar velsæld fyrir sem flesta og helst alla? Ég átta mig alltaf betur og betur á því eftir því sem ég er lengur í borgarmálunum hvað borgarskipulagið skiptir miklu máli. En það á við um fleira. Nýjustu skólarnir okkar byggja til dæmis ekki bara á hugmynd um skóla heldur þátttöku þeirra sem halda uppi skólastarfinu, foreldra, nemenda og starfsfólks skólanna.

Björn: Væri þá kannski svarið að fá fleiri hópa inn í ferlið að hanna betra samfélag?

Dagur: Klárlega!

Björn: Hvernig getum við brúað bilið milli stjórnsýslu, hönnuða og samfélags þannig að sem flestir geti tekið þátt?

Dagur: Á stjórnsýslumáli köllum við þetta ferla. Lýðræðislegir ferlar safna upplýsingum áður en ákvarðanir eru teknar. Við höfum sótt innblástur í skapandi ferli hönnunar og nýtt þá leið í stefnumótun til þess að taka ákvarðanir í málum sem eru ekki hönnun í hefðbundnum skilningi. Þetta er hluti af þeim hugmyndum sem hafa komið inn í umræðuna á síðustu 10 árum. Af meiri krafti en áður.

Björn: En getum við [hönnuðir] farið lengra inn á ykkar svið?

Dagur: Við erum alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum og leiðum til að ná markmiðum okkar. Við erum að reyna að búa til betri borg, auka lífsgæði og við trúum því að við gerum það með uppbyggilegri þátttöku sem flestra. Þegar nánar er að gáð þá eru hönnuðir býsna víða og aðferðir hönnunar nýttar víðar en fólk áttar sig almennt á þegar borgarmál eru annarsvegar.


Viðtalið birtist í HA Extra nr.2 fyrir HönnunarMars 2019.
Texti : Álfrún Pálsdóttir og María Kristín Jónsdóttir. Myndir: Axel Sigurðarson

Skildu eftir svar