Vöruhönnuðurinn Theodóra Alfreðsdóttir hefur í nógu að snúast á HönnunarMars en hún verður meðal fyrirlesara á DesignTalks ráðstefnunni auk þess sem verk hennar verða til sýnis á alls þremur sýningum; einkasýningunni Mót | tilraunir í Kjallaranum í Geysi Heima, Staðbundið landslag, sýningu Fólks Reykjavík, og Formex Nova í Norræna húsinu en Theodóra er meðal þeirra hönnuða sem tilnefndir eru til norrænu hönnunarverðlaunanna Formex Nova árið 2019.
Theodóra, sem býr og starfar í Lundúnum og Reykjavík, segist nálgast hönnun á ferlisdrifinn hátt: „Það er svo margt áhugavert sem getur gerst ef maður er ekki með fyrirfram mótaða hugmynd um hverju maður er að leita að. Mistökin eru líka spennandi. Ég vinn út frá sögum frekar en hlutum. Það er einhver saga á bak við alla hluti.“
Theodóra vinnur mikið með náttúruefni og þá hugsun og heimspeki sem býr í hverjum hlut. Hún er óhrædd við að gera tilraunir, til dæmis vann hún matarstell úr feldspari og gerði tilraunir með keramik þar sem gripir voru brenndir í jörðu.
Á sýningu Fólks verða frumsýndir nýir lampar eftir Theodóru en hún segir hugmyndafræði fyrirtækisins ríma vel við aðferðafræði sína; að skoða uppruna efnisins og hvernig það er unnið með hliðsjón af sjálfbærnisjónarmiðum. „Lamparnir eru úr íslenskum steini og áli og ég er að skoða hvernig hægt er að nota sem minnst efni. Útkoman er eins konar skúlptúrar.“
Að sögn Theodóru er mikil gróska í vöruhönnun á Íslandi: „Vöruhönnuðir eru í mjög góðri stöðu vegna þess að við getum verið tengiliðir á milli margra ólíkra greina og fagaðila en erum líka í nánum tengslum við almenning og höfum því möguleika á að ná til breiðs hóps. Það eru alltaf átök í gangi á milli hins einstaka og hins fjöldaframleidda og það er mikilvægt að við fáum fólk til þess að tengjast hlutunum og spá í sögu þeirra.“
Viðtalið birtist í HA Extra nr.2 fyrir HönnunarMars 2019.
Texti : Marta Sigríður Pétursdóttir. Mynd: Katrín Ólafs