Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Að tengjast umhverfinu

Viðtal við Brynjar Sigurðarson vöruhönnuð

Viðtalið birtist fyrst í 2. tbl. HA, 2015.

Frá útskrift hefur Brynjar Sigurðarson vöruhönnuður átt töluverðri velgengni að fagna og hlaut hann meðal annars nýverið hin virtu Svissnesku hönnunarverðlaun (Swiss Design Awards) í flokki vöru- og iðnhönnunar. Verðlaunin hlaut Brynjar fyrir vörulínur sem unnar eru út frá mánaðarlangri dvöl hans á Vopnafirði fyrir nokkrum árum en sú reynsla hefur haft afgerandi áhrif á feril hans og aðferðafræði. Brynjar hefur einstakt lag á að nálgast viðfangsefni sín með einlægum hætti og segist óhræddur við að​ feta ótroðnar slóðir innan hönnunarheimsins.

Silent Village Collection 2012

Árin í ECAL

Eftir útskrift af vöruhönnunarbraut LHÍ árið 2009 lá leið Brynjars í hinn virta hönnunarskóla Lausanne University of Art and Design (ECAL) í mastersnám í vöruhönnun. Aðspurður segir Brynjar það hafa verið nokkuð tilviljanakennt að hann hafi endað í Sviss; hann hafi séð auglýsingaplakat frá skólanum, fengið viðtal og flutt út stuttu síðar. Brynjar segir námið í ECAL hafa verið töluvert ólíkt því sem hann átti að venjast hér heima. Þar sé hratt tempó og takmarkaður tími fyrir hvert verkefni því skólinn loki um kvöldmatarleytið og sé lokaður alla frídaga og um helgar. Það hafi því verið nauðsynlegt að vera skipulagður og nýta tímann vel. „Í hreinskilni sagt hefði verið erfitt fyrir mig að fara að vinna sjálfstætt eftir grunnnámið. Tvö auka ár í ECAL breyttu miklu þótt gráðan sjálf skipti eflaust meira máli ef ætlunin er að vinna fyrir fyrirtæki,“ útskýrir Brynjar og heldur áfram: „Í stuttu máli sagt gaf LHÍ mér hugsunarháttinn en ECAL aðferðirnar.“

Villa Noailles

Þegar Brynjar vann að mastersverkefninu við ECAL ákvað hann að sækja um þátttöku á hönnunarhátíð í Suður-Frakklandi sem kallast Design Parade. Hátíðin var sú sjötta í röðinni en hún er haldin árlega í sögufrægri einkarekinni menningarmiðstöð, Villa Noailles. Svo fór að Brynjar hlaut svokölluð Grand Prix-verðlaun á hátíðinni, meðal annars fyrir útskriftarverkefni sitt frá LHÍ, Vopnafjarðarverkefnið. Verkefnið vann Brynjar út frá mánaðarlangri dvöl sinni á Vopnafirði í ársbyrjun 2009. Þar tók Brynjar þátt í daglegum störfum bæjarbúa og varð meðal annars fyrir miklum áhrifum frá reyndum hákarlaveiðimanni sem kenndi honum margt um veiðafæri og hnúta. „Vinnulega séð hefur sú dvöl haft hvað víðtækust áhrif á mig. Hún víkkaði sjóndeildarhringinn og mér fannst magnað að upplifa eitthvað sem reyndist jafn áhrifaríkt og ná að vinna með það áfram, til dæmis með því að túlka efni og form sem tilheyra sjávarþorpum yfir í hluti, húsgögn og þess háttar.“ Á meðal dómaranna í Villa Noailles var Li Edelkoort, hinn þekkti tískuráðunautur og eigandi Trend Union, en hún heillaðist af verkum Brynjars og hefur í kjölfarið kynnt verk hans með ýmsum hætti. Meðal þeirra verka er Prik, sem unnið var fyrir Spark Design Space og sýnt þar 2012, sem er nú orðið hluti af einkasafni hennar, The Edelkoort Design Collection.

Traust á lífinu

Í Villa Noailles komst Brynjar einnig í samband við Galerie Kreo, sem er virt hönnunargallerí í París, og svo fór að galleríið bauð Brynjari samning og báðu hann að vinna húsgagnalínu. Línan, sem nefnist The Silent Village Collection, var þrjú ár í vinnslu og forsvarsmenn Kreo voru orðnir langeygðir eftir útkomunni en Brynjar segir það hafa tekið sig tíma að verða tilbúinn að hanna eða standa með húsgagnalínu af þessari stærðargráðu. Hjá Galerie Kreo er Brynjar nú kominn á lista með mörgum af fremstu hönnuðum heims og hann segir það bæði skrítið og stundum pínu galið hvernig það hafi atvikast að hann sé orðinn margverðlaunaður hönnuður einungis fjórum árum eftir útskrift. „Það snýst að mörgu leyti um traust á lífinu og að vera tilbúinn að taka við tækifærunum þegar þau gefast. Hugleiðsla hefur breytt miklu fyrir mig; ég er meðvitaður um mikilvægi þess að njóta ferðarinnar og vera frekar heill en að stressa mig á „deadlænum“ og þess háttar. Ef hlutir ganga ekki upp þá stend ég allavega heill eftir, ekki búinn að vinna yfir mig og í einhverju rugli. Ég var heppinn að átta mig á því fljótlega eftir útskrift.“

Forvitnin mikilvæg

Á Hollensku hönnunarvikunni (Dutch Design Week) í október síðastliðnum kom út bók sem kallast Things that Happened og fjallar um verk Brynjars. Bókin, sem er hluti af Field Essays, rannsóknarverkefni um skapandi ferli hönnuða, inniheldur meðal annars samtal Brynjars og breska mannfræðingsins Tim Ingold. Störf mann- og þjóðháttafræðinga hafa verið Brynjari hugleikin um hríð og lokaritgerðin hans frá ECAL var í raun skoðun á aðferðafræði þeirra og hvernig hún getur nýst hönnuðum við vinnu sína. Aðspurður hvernig hann nálgist ný verkefni segir Brynjar það virka best fyrir sig að vera forvitinn, spyrja spurninga og vera óhræddur við að hlutirnir gangi ekki alltaf upp. „Ég reyni að treysta sjálfum mér, vera svolítið spontant og ekki alltaf of vel undirbúinn; það er kannski klisja en það er mikilvægt fyrir mig að treysta innsæinu. Stundum veit ég hreinlega ekki af hverju ég geri suma hluti og af hverju sumar hugmyndir höfða betur til mín en aðrar. Þá er erfitt að koma því í orð og verja það fyrir öðrum en ég trúi því að ef ég geri hlutina með hjartanu og er trúr minni sannfæringu þá fari allt vel.“

Áhrif rýmisins

Frá útskrift hefur Brynjar leiðbeint mastersnemum í ECAL með ritgerðarskrif og starfað sjálfstætt sem hönnuður. Fyrstu árin deildi Brynjar vinnustofu með öðrum listamönnum og hönnuðum í Lausanne en flutti svo til Berlínar þar sem hann og kærasta hans, Veronika Sedlmair innanhúshönnuður, eru með sameiginlega vinnuaðstöðu heima. „Lokaritgerð mín til B.A.-prófs í LHÍ fjallaði um áhrif umhverfis á merkingu hluta og síðan þá hef ég meðvitað sett mig í aðstæður og skapað út frá þeim. Það er mín reynsla að þegar vel tekst til þá verður umhverfið hluti af mér og ég vinn svo út frá þeirri reynslu. Hugmyndirnar byrja einhvern veginn að ríma við rýmið og því finnst okkur það skondið að ég sé með vinnustofu heima að hanna teppi og ýmsa minni hluti fyrir heimilið.“ Þau Veronika eru nýbyrjuð að vinna saman undir nafninu Studio Brynjar & Veronika og Brynjar segir þau vera að læra að tvinna saman ólíka hæfileika sína svo þeir styrki þau sem heild. Sjálfum líður honum best þegar hann er að búa til hluti í höndunum en Veronika sé mjög góð í að finna réttu hráefnin, réttu framleiðendurna og þess háttar. „Núna erum við til dæmis að vinna með leir og þegar ég er með hendurnar útataðar þá get ég ekki verið í tölvunni svo ég er þá bara þeim mun duglegri í leirnum,“ segir Brynjar og hlær.

Swiss Design Awards

Þegar talið berst að Svissnesku hönnunarverðlaununum, sem Brynjar hlaut nýverið, segir hann þau að sjálfsögðu mikinn heiður og hvetjandi. Verðlaunin séu mikilvægur stuðningur við þá stefnu sem þau Veronika hafi tekið undanfarin misseri og veiti þeim jafnframt fjárhagslegt svigrúm til að hafna ákveðnum tilboðum og halda áfram með eigin verkefni. Í ár voru átján hönnuðir og listamenn verðlaunaðir fyrir framúrskarandi verk í alls fimm flokkum; grafískri hönnun, tísku- og textílhönnun, ljósmyndun, leikmyndahönnun og vöru- og iðnhönnun. Brynjar var einn þriggja vöru- og iðnhönnuða sem hlaut verðlaunin en þau fékk hann fyrir samansafn verka sem eiga öll rætur sínar að rekja til Vopnafjarðarverkefnisins. Þar á meðal eru glerstúdíur og postulínssteinar sem Brynjar vann í samstarfi við CIRVA-glerrannsóknarsetrið og franska keramikframleiðandann Sèvres en samstarfið við þessi fyrirtæki var hluti af Grand Prix-verðlaununum í Villa Noailles.

Ný leið

Það er Brynjari og Veroniku umhugsunarefni hvernig þau geti nýtt meðbyr síðustu ára og mótað eigin stefnu innan hönnunarheimsins. Þeim virðast allir vegir færir en þau segjast meðvituð um mikilvægi þess að vega og meta þau tækifæri og áskoranir sem á vegi þeirra verða. Brynjar segir að hönnuðir sem hann líti upp til hafi flestir unnið fyrir framleiðslufyrirtæki og verið í harkinu í tíu ár hið minnsta áður en þeir voru komnir með nógu marga hluti í framleiðslu til að hafa viðunandi laun. Í kjölfarið fóru yngri hönnuðir að leita á önnur mið og hófu að framleiða sjálfir en ef þeim gekk vel enduðu þeir á að nýta allan sinn tíma í framleiðslu og pökkun og höfðu á endanum engan tíma til að sinna hönnuninni. Hvorug leiðin freistar Brynjars og Veroniku sem telja sitt mikilvægasta verkefni vera að finna jafnvægi milli listrænna verkefna, samstarfs með framleiðslufyrirtækjum og eigin framleiðslu. Þau eru nú þegar byrjuð að framleiða nokkra minni hluti sem kallast Society of Things og þykir það afar spennandi, þótt þau geri sér grein fyrir að það geti tekið nokkra mánuði eða jafnvel ár að koma þeim á almennan markað.

Góðir vinir

Brynjar og Veronika sjá fyrir sér að opna tímabundnar vinnustofur víða um heim á næstu misserum. Þá hafi þau tíma og tækifæri til að tengjast umhverfinu og nýta þau tæki og tól sem eru til staðar á hverjum stað til að koma hugmyndum sínum í form og framkvæmd. „Það er svo áhugavert að sjá hvað gerist þegar við komum með hugmyndir og hluti í nýtt umhverfi og samhengi, því það sem er dæmigert hér þykir ferskt annars staðar og öfugt.“ Síðastliðið sumar voru Brynjar og Veronika með fyrstu slíku vinnustofuna, sem þau kölluðu Góðir vinir, í húsnæði Crymogeu við Barónsstíg í Reykjavík. Góðir vinir voru í raun tilraun til að vera í meiri tengslum við heimaslóðirnar að sögn Brynjars sem segir Ísland ávallt hafa verið ákveðinn kjarna í sínum verkum og enn mikilvægari eftir að hann flutti út. „Fyrstu tvö árin upplifði ég mig í aðstæðum þar sem ég þurfti stanslaust að vera að tala um Ísland og þar af leiðandi fór ég að hafa meiri áhuga á senunni á Íslandi, umhverfinu og náttúrunni,“ segir Brynjar sem þykir varasamt að vera skyndilega skipaður sérfræðingur í íslenskri menningu, verandi eini Íslendingurinn á svæðinu. „Maður talar ósjálfrátt svo frjálslega um heimalandið og kemur svo heim og áttar sig á því hversu margt hefur breyst.“

Rými til tilrauna

Afrakstur Góðra vina er nú kominn í sölu í Spark Design Space og Brynjar og Veronika komin til Parísar þar sem þeim bauðst listamannadvöl á vegum Art Foundation Gallery Lafayette. Þar ætla þau að vinna gjörningatengt verk með sviðslistafólki og sjá fyrir sér að búa til leikmuni sem opni á samtal milli fólks svo út frá þeim skapist persónur og leikrit eða gjörningur. Brynjar segist hrífast af frelsinu sem felst í því að hlutur sé leikmunur og ekkert meira; það gefi rými til tilrauna og leikgleði sem smiti vonandi út frá sér í annað sem hann fæst við. Ef vel gengur eru uppi hugmyndir um að halda uppboð að lokinni sýningu þar sem áhorfendur geti boðið í leikmunina. Brynjar segist sjá fyrir sér að hægt sé að taka þá hugmynd enn lengra og gera kvikmynd þar sem leikmunir hafi annað og stærra hlutverk en almennt þekkist. Hann hefur þegar gert eina heimildarmynd, sem fjallaði um einbúann Borgþór Sveinsson, og segist dreyma um að vinna meira með kvikmyndaformið í nánustu framtíð. „Kvikmyndagerð er mjög heillandi; að segja sögu þykir mér merkilegt fyrirbæri.“


Texti: María Kristín Jónsdóttir.

Myndir María Rúnarsdóttir, Studio Brynjar &Veronika, Arnar Fells.

Skildu eftir svar