Fatahönnun, Viðtöl
Leave a comment

Aníta Hirlekar

Nýjir fletir

Fatahönnuðurinn Aníta Hirlekar situr ekki auðum höndum þessa dagana. Nýlega frumsýndi hún nýja fatalínu á Reykjavik Fashion Festival (RFF) 2017 og stuttu seinna opnaði hún, ásamt Magneu Einarsdóttur fatahönnuði, frekar óhefðbundið verslunarrými í miðbæ Reykjavíkur sem ber nafnið A. M. Consept Space.

Nýja haust- og vetrarlínan ANITA HIRLEKAR er stærsta línan sem hönnuðurinn hefur sent frá sér og sýningin á RFF var jafnframt hennar fyrsta stóra sýning hérlendis. „Ég vildi koma fram með nýja áferð. Hingað til hef ég verið að einblína á miklar og handgerðar áferðir í verkum mínum en í nýju línunni er ég í fyrsta sinn að vinna með áprentuð mynstur. Mig langaði að vinna með andstæðu þess sem ég er vön að vinna með – að vinna meira flatt,“ segir Aníta um nýju línuna og bætir við að flötu áprentuðu mynstrin séu upphaflega handmáluð í sama anda og með sama handbragði og handútsaumuðu flíkurnar í eldri línum hennar. „Ég vildi að þetta tvennt – áferðirnar og flatneskjan – kallaðist á við hvort annað og það má segja að öll mynstrin í kjólunum séu í raun unnin út frá handgerðum flíkum.“

Mynd: Auður Ómarsdóttir

Í línunni heldur hún áfram að vinna með kunnuglegt og einkennandi stef: óreiðukennt en hárfínt flæði þráða og lita, líkt og á bakhlið útsaumsstykkja. Formin í nýju línunni eru kvenleg sem áður og í áprentuðu silkiflíkunum skilar hið áframhaldandi flæði sér vel, bæði í mynsturuppbyggingu og efnisvali. Aníta segir það hafa verið ákveðna áskorun að hafa ekki mismunandi áferðir til að leika sér með. Hvítt er nefnilega ekki bara hvítt því áferðin á hvíta litnum skiptir máli – áferðin er eins konar tilbrigði við litbrigði. Litir og ólíkar litasamsetningar hafa alltaf skipað veigamikinn sess í verkum hennar en með því að vinna flatt hafi öll hugsun um litanotkun orðið þeim mun mikilvægari. Hver flík er útpæld hvað litanotkun varðar en samt ekki svo að hið óvænta sé óvelkominn hluti af ferlinu. Aníta dregur fram mynstraðan kjól með appelsínurauðri skellu fremst á erminni. „Hér sullaðist litur yfir teikninguna og mistökin fengu að halda sér allt fram í lokaútgáfuna.“

Mynd: Auður Ómarsdóttir

 Aðspurð um efnisnotkun segist Aníta áfram hafa unnið með ull og tjull sem grunn, líkt og í fyrri línunni. „Ég vinn fyrst áferðina í efnið. Síðan set ég efnið á gínu og formið og silhúettan þróast í framhaldi af því. Áferðin hefur þannig mótandi áhrif á það hvernig silhúettan endar,“ segir Aníta um formið sem hún heldur oftast einföldu og skúlptúrísku til að vega upp á móti óróleikanum í efninu. „Ég skissa eiginlega aldrei á pappír og ef ég skissa þá eru það bara líkt og klessur sem enginn annar skilur en þær segja mér hins vegar helling!“ Hún byrjar alltaf á handgerðu flíkunum. Vinnan við hvert „lúkk“ fæðir af sér nýjar hugmyndir sem þróast yfir í næsta „lúkk“. Þannig gengur ferlið fyrir sig; koll af kolli – lúkk eftir lúkk. Hugmynda- og þróunarvinnan að baki heilli línu er því meiri en margan grunar. Aníta gefur sér til dæmis allt upp í fjórar vikur að vinna einn topp. „Í þessu ferli þarf reglulega að leggja frá sér verkið og melta það aðeins.“   

Mynd: Auður Ómarsdóttir

Aníta segir að kúnnar hennar séu flestir erlendis og í flestum tilfellum séu þeir konur sem hún hefur hitt þegar hún hefur verið með vörusýningarrými í París. „Kúnnahópurinn minn hér á Íslandi er enn frekar lítill en hann fer vaxandi,“ segir Aníta sem vinnur mikið með óskir hvers viðskiptavinar fyrir sig og lagar sínar hugmyndir að því sem best hentar smekk og þörfum hvers og eins. Fram að þessu hefur hún nánast eingöngu framleitt handgerðar flíkur eftir pöntun en nú verður breyting á. Hún segir kúnna sína vilja klæðnað sem henti við fleiri og hversdagslegri tilefni en einungis kokteilboð að kvöldi. „Mér fannst spennandi að auka aðeins breiddina í merkinu og gera vörunar mínar aðgengilegri með því að bjóða upp á meira af tilbúnum (e. ready-to-wear) dagklæðnaði (e. daywear).“

Mynd: Auður Ómarsdóttir

Áprentuðu flíkurnar verða framleiddar í stærðum og fáanlegar með sumrinu í nýja verslunar- og sýningarrýminu að Garðastræti 2. Þar verður einnig hægt að nálgast hönnun Magneu Einarsdóttur sem deilir rýminu með Anítu. Nýja rýmið er ekki hefðbundin verslun heldur einnig lifandi og þverfaglegt sýningarrými. Þær stöllur hyggjast reglulega bjóða þriðja aðila úr hönnunar- eða listheiminum að sýna verk sín samhliða þeirra eigin verkum. Að þessu sinni eru það verk myndlistarkonunnar Auðar Ómarsdóttur sem breiða úr sér yfir hvíta veggi rýmisins. „Þetta er nýtt „konsept“ á Íslandi. Okkur fannst hugmyndin um rými sem fatabúð einvörðungu vera dálítið einhæf,“ útskýrir Aníta og bætir við að þeim finnist skorta umfjöllun og ákveðinn skilning á fatahönnun sem öðru og meira en varningi sem hægt sé að kaupa. „Fólk er vant einhverju ákveðnu í sambandi við klæðnað. Það er vant því að ganga inn í Kringluna, kaupa sér einhver föt og pæla svo ekkert í því meir. Fólk virðist almennt tengja skapandi ferli frekar við myndlist og hönnunargreinar – aðrar en fatahönnun. Hér viljum við því efla sýnileika okkar sem hönnuða og listamanna og sýna að fötin eru okkar strigi – afrakstur okkar skapandi ferlis,“ skýtur Magnea inn í þar sem hún birtist innan úr vinnustofunni þeirra baka til. Þessu samsinnir Aníta og segir að rýmið muni í raun ganga í gegnum nokkurs konar endurnýjun með hverjum nýjum sýnanda – að konseptið verði síbreytilegt og endurspeglist í nafngiftinni: A.M.Consept Space. „Við vildum hafa þetta eins óbundið og opið og mögulegt er. Við erum opnar fyrir öllum miðlum og viljum ekki takmarka okkur með því að gefa rýminu annað og afmarkaðra nafn,“ segir Aníta að lokum.

Aníta Hirlekar fatahönnuður. Mynd: Eygló Gísladóttir


Viðtal birt í HA nr.5. Texti: Sunna Örlygsdóttir. Myndir: Eygló Gísladóttir og Auður Ómarsdóttir

Skildu eftir svar