Fatahönnun, HA vefgrein, Viðtöl
Leave a comment

Þá kom þyrlan

Helga Lilja Magnúsdóttir: fatahönnuðurinn að baki Helicopter

„Ég trúi því að val einstaklinga á fatnaði hafa áhrif á líf þeirra og persónulega skipta þægindin mig mestu máli. Ef manni líður vel í eigin skinni og fatnaði þá hefur það jákvæð áhrif á allt sem maður tekur sér fyrir hendur,“ segir Helga Lilja Magnúsdóttir sem hannar föt undir merkjum Helicopter.

Innblásturinn sækir hún meðal annars í náttúruna og fjölskyldu. Allt frá íslenskum steinum og mosa til litskrúðugra framandi fugla. Í nýjustu línu Helicopter brá Helga út af vananum því hún vann með myndlistamanninum Halldóri Ragnarssyni, sem jafnframt er fyrrverandi kærasti Helgu en hann hafði samband við Helgu og spurði hvort hún vildi vinna með myndlist hans. Helga tók áskoruninni og úr samstarfi þeirra kom haust og vetrarlína Helicopter “Við hittumst alltaf aftur”. Þar segist Helga hafa unnið með fortíðina og áhrif hennar á nútíðina en sú lína er væntanleg í október og nóvember á þessu ári.

67770028

Helga Lilja útskrifaðist með gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2006 en hún segir þriggja ára starf hjá fatahönnunarfyrirtækinu Nikita hafa verið besta skólann. Helicopter stofnaði hún í desember 2010 eftir að hafa fengið góð viðbrögð við hönnun sinni á pop-up markaði. Flíkur hennar fást nú víða um heim og fleiri sölustaðir bætast við á hverju ári. Flíkurnar hennar fást nú í Bretlandi, Bandaríkjunum, Japan, Ítalíu og Þýskalandi, og að auki í versluninni Kiosk á Laugavegi en Helga Lilja er meðal eigenda þar. Helga segir það koma sér vel að eiga verslun og geta átt bein samskipti við viðskiptavinina og fengið álit þeirra umbúðalaust.

„Hugmyndin bak við búðina er svo góð að það er lyginni líkast. Í dag hjálpast átta íslensk topp tískumerki að við að stækka og styrkjast í orðsins fyllstu merkingu. Merkin átta eiga búðina saman og manna vaktirnar til skiptis. Ég vil ekki hugsa til þess hvar Helicopter stæði í dag ef ég hefði ekki fengið að taka þátt í þessu ævintýri.”

67790030

Helicopter hefur gefið út tvær línur á ári en nú hyggst Helga Lilja breyta til og koma með fleiri en minni línur á hverju ári. Helga segist alltaf vera með höfuðið fullt af hugmyndum og hennar versta martröð er að hugsa til þess að hún nái ekki að framkvæma allt sem hana langar að gera.

„Merkið mitt verður fimm ára næstkomandi desember. Það eru svo margt sem mig langar að gera í tilefni afmælisins en ég ætla að segja sem minnst. Fólk þarf bara að fylgjast vel með til að sjá hvað verður fyrir valinu. Akkúrat núna, er ég að fylgja eftir framleiðslu á  “Við hittumst alltaf aftur”, leggja lokahönd á sumarið 2016 og byrja á vetrarlínu 2016/17. Einnig er ég að setja upp vinnuaðstöðu í Berlín, þar sem ég bý í dag. Það er alltaf dúndur stuð hjá mér!“

Aðspurð um ástæðuna fyrir nafninu Helicopter bendir Helga Lilja á að fyrstu tveir stafirnir í nöfnunum hennar séu „He-Li“. Auk þess hafi hún alltaf haft dálæti á þyrlum. „Mamma sagði mér eitt sinn: Þegar enginn annar kemst á staðinn, þá kemur þyrlan. Þessi orð hafa fylgt mér æ síðan og hughreyst mig þegar eitthvað bjátar á. Mér þykir því vænt um nafnið þó það sé ekki gallalaust. Til að mynda átta fæstir sig á því að um íslenska hönnun sé að ræða. Svo er nær ómögulegt að fletta fatamerkinu upp á netinu því leitarniðurstöðurnar skila bara barnafötum með myndum af þyrlum á,“ segir Helga og kímir.

Helga Lilja og kærastinn hennar, Stephan Stephensen, hafa einnig sett á laggirnar fatamerki sem ber nafnið Bið að heilsa niður í Slipp og sækir innblástur í sjómennsku. Um er að ræða þykkar og þægilegar prjónapeysur sem henta báðum kynjum. Munstrin á peysunum eru unnin út frá ljósmerkjum sem sýna höfuðáttir á siglingabaujum. „Baujurnar senda frá sér morstákn. Til dæmis sendir norður frá sér stanslaus merki en vestur sendir níu stutt merki og “þögn” í eina sekúndu. Hver höfuðátt hefur sitt merki sem miðast við tíu sekúndur.“ Helga segir hugmyndina að fatamerkinu hafa kviknað út frá samsýningu Fatahönnunarfélagsins og tónlistarmanna á Hönnunarmars 2014. „Nafnið á fatalínunni er vissulega ekki eins þjált og Helicopter en við leysum það með að nota skammstöfunina BAHNS sem þýðir lest á þýsku sem rímar sérstaklega vel við þyrluna.“

Til greina kemur að Helicopter bæti við sig fleiri undirlínum þó að Helga Lilja hafi vissulega nóg á sinni könnu. „Ég starfræki fyrirtækið mitt alein og þyrfti í rauninni starfsmann til að halda utan um reksturinn og halda mér í skefjum, svo mikil er sköpunargleðin. Þetta er heilmikil vinna en maður reynir sitt besta þar sem þetta er mér hjartans mál. Þetta eru börnin manns.“

67780016

Helga segir að stjórnvöld á Íslandi mættu gera betur þegar kemur að skapandi greinum. Hún segir umhverfi fatahönnuða vera sérstaklega erfitt hér á landi og nefnir úreld tollalög sem dæmi. „Tollurinn klippir í sýnishorn fata- og skófyrirtækja. Þar er lítill skilningur fyrir því að heil sýnishorn þurfi til að þróa eða kynna vörulínur. Það gefur auga leið að gatað efni nýtast illa í prótótípur og engum dettur í hug að ljósmynda gallaðu vöru né nota til kynningar. Samkvæmt núgildandi tollalögum er varan tolluð eins og hún sé söluvara, sem hún er alls ekki. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem gera íslenskum fatahönnuðum erfitt fyrir.“ segir Helga og tekur fram að í Þýskalandi sé nálgunin önnur. Þar sé til að mynda gott svigrúm til að vinna með sýnishorn og prótótýpur og allt ferlið gengur hraðar fyrir sig.“ Áhugasömum er bent á Leiðbeiningarit um tollun frumgerða og sýnishorna sem unnið var af Hönnunarmiðstöð.

Að lokum spurðum við Helgu hvort hún gæti nefnt áhrifavalda sína. „Ég reyni að skoða ekki vinnu annara hönnuða til að fá hugmyndir en auðvitað get ég nefnt mína uppáhalds hönnuði. Þar á meðal eru Bernhard Willhelm, Henrik Vibskov og Eygló. Einnig sæki ég innblástur frá hönnuðunum sem eru með mér í Kiosk. Það eru skemmtilega ólíkir hönnuðir sem eiga það sameiginlegt að vera algjörir snillingar.“

Skildu eftir svar