Álit / pistlar, HA vefgrein
Leave a comment

Hugleiðingar um fegurð

Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar

Hvað er fegurð? Við fyrstu sýn virðist dálítið skrýtið að spyrja slíkrar spurningar – vitum við ekki öll hvað fegurð er? Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktor í umhverfisheimspeki, veltir upp hugmyndum um fegurð og fagurfræðileg gildi.


Texti: Dr. Guðbjörg R. Jóhannesdóttir / Myndefni: Elín Hansdóttir

Orðið fegurð er notað við fjölbreyttar aðstæður; hér er fallegt útsýni, sólsetrið er fallegt, tónverkið er fallegt, eldgosið er fallegt, hönnunin er falleg, þetta var fallega hugsað, augnablikið er fallegt, þetta var fallega gert. En hvað meinum við þegar við höldum því fram að eitthvað sé fallegt? Hvaða gildi hefur það fyrir okkur að upplifa þessi augnablik sem við lýsum best með orðunum „en fallegt!“?

Flestum dettur eflaust fyrst í hug að fegurð sé afstæð og huglæg; „hverjum þykir sinn fugl fagur“ og fegurðin er einungis í auga þess sem skynjar hana. Fegurð er hér skilin sem smekksatriði; það sem mér finnst fallegt finnst öðrum kannski ljótt. Sumum dettur ef til vill í hug að fegurð sé falin í ákveðnum hlutlægum eiginleikum, réttum hlutföllum og formi, til dæmis gullinsniði. Þessar hugmyndir um fegurð eiga rætur sínar að rekja til vestrænnar hugmyndasögu og ef til vill er eitthvað við fegurðina sem kallar á þessar hugmyndir. Fegurðin er á einhvern hátt huglæg; hún er persónuleg, tilfinningaleg og oft og tíðum djúp reynsla sem snertir við innsta kjarna okkar. En hún er líka á einhvern hátt hlutlæg, því það eru sannarlega eiginleikar „þarna úti“ í veruleikanum sem framkalla þetta huglæga viðbragð. Þennan vanda hafa heimspekingar lengi reynt að skýra en þrátt fyrir að þeim hafi tekist að varpa ljósi á hvernig fegurðin liggur á milli þess huglæga og hlutlæga (til dæmis með fagurfræðikenningu Immanuels Kant) hefur það ljós ekki náð að skína á almennar hugmyndir um fegurð sem eru enn oft litaðar af aðgreiningunni á milli þess huglæga og hlutlæga.

Þessi aðgreining hefur haft mikil áhrif á þá þróun að fegurð hefur smátt og smátt verið sett til hliðar í vestrænum hugmyndaheimi. Það viðhorf að fegurð sé huglæg og afstæð hefur orðið ofan á, ekki síst vegna tengingar fegurðar við kvenleika, líkamleika og tilfinningar í vestrænum hugsunarhætti sem byggir á tvíhyggju hugar og líkama.[1] Fegurðin hefur þannig verið jaðarsett; hún þótti lengi svo listrænt léttvæg og heimspekilega merkingarlítil að hún hvarf næstum algerlega úr fagurfræði 20. aldar.

Á því tímabili töldu listfræðingar almennt að fegurð væri í besta falli aukaafurð vel heppnaðs listaverks en ekki aðalsmerki þess. Listsköpun gengi með öðrum orðum ekki út á að skapa verk sem ætti að vera fagurt. Samkvæmt útbreiddum skilningi á samtímalist er hlutverk listaverks miklu fremur að hjálpa okkur að sjá hluti og veruleika í nýju og athyglisverðu ljósi. Þessi skilningur er í raun andstaða fornra hugmynda um hlutverk lista sem var að skapa eftirmynd af náttúrunni og hlutum og helst á þann hátt að myndefnið birtist í fegurra og glæstara ljósi í verkinu en þær hugmyndir um listræna fegurð voru réttilega taldar of þröngur rammi til að útskýra upplifanir af nútímalist.

Elín Hansdóttir: Trace #7, 2010. Pigment print on archival paper. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Elín Hansdóttir: Trace #7, 2010. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Í stað þess að víkka út fegurðarhugtakið var það eins og áður segir sett út á jaðarinn í fagurfræði 20. aldar og þótt fegurðin hafi verið endurvakin að einhverju leyti innan heimspekilegrar fagurfræði er hún enn jaðarsett á þann hátt að hún er smættuð niður í útlitsdýrkun og skilin sem yfirborðsútlit sem við eigum öll að vera upptekin af. Þessi smættun leiðir til þess að hugmyndum okkar um hvað telst til dæmis fallegur líkami eru settar skorður og við gleymum fegurðinni sem felst í fjölbreytileikanum; fatlaðir eða feitir líkamar teljast til dæmis ekki til fallegra líkama samkvæmt takmörkuðum útlitsdýrkunarstöðlum.

Fegurð er þó mun dýpri en yfirborðsútlit; hún kemur innan frá, teygir sig út og skapar tengsl (eða gerir okkur meðvituð um þau). Í raun hefur fegurð – sem slík reynsla sem á þátt í að gera okkur mennsk og gegnir mikilvægu hlutverki hvað varðar lífsgæði okkar – yfirleitt ekki verið til umræðu í samfélaginu. Fegurð er gjarnan afgreidd (og jaðarsett aftur) sem persónuleg og afstæð og því sé ekkert meira hægt að segja um hana í samfélagi þar sem allt þarf að vera hlutlægt og mælanlegt til að það skipti máli. En hvað er þá fegurð ef við reynum að stíga út fyrir vestræna hugmyndarammann sem krefst þess að allt sé annaðhvort huglægt eða hlutlægt og rýnum í aðrar og dýpri hliðar fegurðarupplifunar?

Samkvæmt fyrirbærafræðilegum skilningi á fegurð hefst fegurðaraugnablikið þegar skilningarvit þín eru virkjuð; þegar öll tilvera þín hverfur á vit þess sem þú skynjar, öll mörk mást út og þú skynjar þig sem tengslaveru. Þú tekur á móti áhrifum og merkingu í stað þess að varpa fyrirframákveðinni merkingu á það sem þú skynjar. Fegurð er það sem við upplifum þegar við skynjum bara til að skynja, lítum til himins til að dást að honum en ekki til að gá til veðurs, eða horfum á fossinn og leyfum honum að hafa áhrif á okkur en ekki til þess að reikna út hversu stóra virkjun þyrfti til að fanga aflið í honum.

Fegurð hefur aðdráttarafl; hún dregur vitund okkar að sér og skapar þrá eftir því að dvelja við fegurðina, viðhalda og deila henni með öðrum. Hver kannast ekki við þá tilfinningu að upplifa eitthvað fallegt og finna sig knúna til þess að hnippa í næsta mann og benda honum á það? Eða að finna til löngunar til þess að taka ljósmynd, teikna mynd, skapa tónverk, skrifa ljóð eða einfaldlega stara lengi – þarfar til þess að fanga fegurðaraugnablikið, skapa úr því nýja fegurð og þannig halda fegurðinni áfram á einhvern hátt? Fegurð nærir þá sem upplifir hana og sú næring hvetur hana til þess að endurgjalda greiðann – vernda og næra fegurðina svo hún megi halda áfram að næra fleiri.

Elín Hansdottír: Vertex, 2009. Sheetrock, aluminium profiles, mirrors, fluorescent tubes. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Elín Hansdottír: Vertex, 2009. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Fegurðarupplifun gerir okkur nefnilega kleift að upplifa þann kjarna mennskunnar sem virðist stundum gleymast í daglegu amstri og áreiti nútímasamfélaga: að mannveran er tengslavera sem verður fyrir áhrifum af umhverfi sínu um leið og hún hefur áhrif á það. Upplifun af fegurð opnar huga okkar fyrir þeirri hugsun að það sé heimur fyrir utan sjálfið; heimur sem við deilum með öðrum. Þörfin fyrir að deila fegurðarupplifunum og geta okkar til þess að deila þeim, meðal annars í gegnum listir, sýnir okkur að hinn svokallaði „huglægi“ heimur er í raun „samhuglægur“. Sem mannverur erum við ekki einstaklingar sem hafa einungis aðgang að eigin huga sem er aðskilinn frá líkamanum, umhverfinu og öðrum eins og vestrænn mannskilningur, byggður á tvíhyggju, gerir ráð fyrir. Þvert á móti erum við tengslaverur, mörkin á milli okkar og hinna eru óljós og flæðandi og merking veruleikans verður til í flæðinu á milli huglægni og hlutlægni; á milli okkar og veruleikans – eða samveruleikans sem við deilum alltaf með öðrum. Fegurðarupplifun afhjúpar þannig fyrir okkur hin órjúfanlegu og margslungnu tengsl okkar hvert við annað og jörðina sem við byggjum.

Fegurð hefst á einfaldri skynjun en þegar öllu er á botninn hvolft er hún miklu meira en það. Fegurð æfir okkur í því að setja sjálfið til hliðar og veitir okkur tækifæri til af-miðjunar sjálfsins. Þessi róttæka afmiðjun veitir okkur ánægju, svo að sú sem hefur einu sinni verið gripin og snortin af fegurð er líkleg til þess að leitast við að upplifa það aftur. Þannig verður fegurðarskynið að hæfileika sem mótast og þróast með reynslu hvers og eins.

Elín Hansdóttir: Path, 2008. Installation at Maribel Lopez Gallery, Berlin. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Elín Hansdóttir: Path, 2008. Courtesy of the artist and i8 Gallery.

Í þessu samhengi ber okkur að leggja áherslu á fagurfræðilegt uppeldi – að rækta fegurðarskynið sem æfir okkur í því að setja eigið sjálf til hliðar og veita hinum eða hinu fulla athygli sem sjálfstæðri veru eða tilvist. Fegurð er ekki einungis uppspretta ánægju og hluti af hamingju okkar. Fegurð getur hjálpað okkur að þróa með okkur dýpri siðferðisvitund og skapa betri samfélög. Því fleiri tækifæri sem við sköpum sem samfélag til þess að upplifa fegurð í daglegu umhverfi okkar og náttúrunni, því meiri lífsgæði og hamingju sköpum við. Fegurð eykur ekki einungis vellíðan og ánægju; hún gerir okkur mennsk því hún hjálpar okkur að skilja okkur sjálf og hvað felst í að vera mannvera í tengslum við umhverfi sitt og aðrar tengslaverur.

Niðurstaða þessara hugleiðinga um fegurð hlýtur að vera sú ráðlegging til okkar allra að lyfta fegurðinni og umræðu um hana á hærra plan. Hættum að líta á fegurðina sem tabú, eins og aðrar tilfinningar sem við ræðum aldrei í alvöru heldur einungis við okkur sjálf eða okkar nánustu vegna feimni og hræðslu við að vera álitin væmin og tilfinningasöm (með öðrum orðum, álitin kvenleg sem er því miður oft talið neikvætt). Hættum að líta á hana sem aukaafurð eða lúxus sem aðeins er hægt að veita sér þegar grunnþörfum hefur verið fullnægt. Hættum að líta á hana sem söluafurð sem við seljum túristum. Hættum að líta á hana sem söluafurð sem við seljum manneskjum sem eru djúpt sokknar í útlits- og yfirborðsdýrkun neyslusamfélagsins. Hefjum frekar fegurðina upp á þann stall sem hún á skilinn og leggjum áherslu á það mikilvæga hlutverk sem hún leikur í skynjun okkar á veruleikanum, þekkingu okkar, gildum, líðan okkar og lífsgæðum.


[1] Sjá umfjöllun um þessar tengingar í grein okkar Sigríðar Þorgeirsdóttur, Endurheimt fegurðar, Hugur 23, 2011, bls. 89–105.

 

Skildu eftir svar