Arkitektúr, HA vefgrein, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Falinn skógur

Rekaviður í hönnun

Rekaviður er viðfangsefni sýningar sem nú stendur yfir í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum, einum kyngimagnaðasta stað Strandanna. Sýningin ber nafnið FALINN SKÓGUR – Rekviður í hönnun en þar er sjónum beint að tækifærum sem leynast í nýtingu rekaviðar.


Texti: Arnar Fells / Ljósmyndir: Halla E. Hansen og sýningastjórar

Allt frá landnámi hefur rekaviðurinn talist til hinna mestu hlunninda og var viðurinn m.a. nýttur í húsa- og bátasmíð. Strandir komu þar helst við sögu enda státa þær af stórbrotnum rekafjörum, líklega þeim gjöfulustu hér á landi. Bróðurpartur rekans kemur langa leið frá Síberíu en fyrr á öldum var það trú sumra manna að trén yxu á hafsbotni norður af landinu. Heimildir herma að Strandamenn hafi verið mikið hagleiksfólk og að stór hluti tekna þeirra hafi komið frá sölu á smíðagripum og búsáhöldum sem þeir seldu víða um land.

Dóra Hansen

Dóra Hansen í rekafjöru við Kaldbak

Sýningunni í Djúpavík er ætlað að endurvekja þessar gömlu hefðir og stuðla að frekari vinnslu úr staðbundnum efnivið og skerpa á sérstöðu Standanna. Í gömlu síldarverksmiðjunni ber að líta verk 26 sýnenda og spanna þau vítt svið, allt frá skartgripum yfir í umfjöllun um notunn á rekavið í arkitektúr. Þess má geta að verkefnið hlaut styrk úr Hönnunarsjóði en strax frá upphafi var gríðarlegur áhugi fyrir því og fór endanlegur fjöldi sýnenda langt yfir það sem áætlað var í fyrstu. HA vildi vita meira um þessa áhugaverðu sýningu og lagði nokkrar spurningar fyrir sýningarstjórana, þær Dóru Hansen húsgagna- og innanhússarkitekt og Elísabetu V. Ingvarsdóttur hönnunarfræðing.

HA: Með því að velja sýningunni stað í Djúpavík hafið þið að vissu leiti farið út fyrir hefðbundinn sýningarramma. Getið þið frætt okkur um tilurð og markmið sýningarinnar?

„Hugmyndin fæddist á ferðalagi um Strandirnar sumarið 2013, þar sem við ferðuðumst hvor í sínu lagi. Við heilluðust báðar af sögu svæðisins og vorum vissar um að þar leyndust tækifæri. Ekki síst heillaði Djúpavík, enda gott dæmi um hvernig staðbundin tækifæri hafa verið nýtt s.s. með hótelrekstri, ferðaþjónustu og sýningarhaldi í gömlu síldarverksmiðjunni. Síldarverksmiðjan hefur til að mynda verið nýtt til ýmissa viðburða s.s. leikssýninga, gjörninga og tónleikahalds, eins og frægir tónleikar Sigurrósar bera vitni um.

Gamla síldarverksmiðjan á Djúpavík

Gamla síldarverksmiðjan á Djúpavík

Við fórum síðan í könnunarleiðangur sumarið 2014 og kynntum okkur margt á svæðinu auk þess að skipuleggja ferlið með staðarhöldurum í Djúpavík urðu okkar helstu samstarfsaðilar. Staðarvalið er ein helsta sérstaða sýningarinnar og þannig myndum við tengsl efniviðarins við uppruna og staðhætti og færum hönnunina inn í þann ramma. Einn helsti grunnur og forsenda fyrir nýtingu staðbundins hráefnis er gott samtal á milli hönnuða og landsbyggðarinnar. Með því gætu skapast tækifæri til að efla íslenska ímynd og sérstöðu í bæði framkvæmd og framleiðslu. Nafn sýningarinnar FALINN SKÓGUR skírskotar þannig til leyndra tækifæra og í þessu tilviki til þessa falda ,,nytjaskógar” sem Strandirnar hafa að geyma.

Elísabet að mæla og pæla.

Elísabet mælir og pælir.

Að fara út fyrir hefðbundinn sýningarramma með því að velja sýningunni stað í Djúpavík er grunnur verkefnisins og hugmyndarinnar. Það einfaldaði ekki vinnuna því ferlið var æði flókið en um leið skemmtilegt og gefandi og þurftum við að ganga í öll störf. Allt efni til sýningarhalds, auk verka sýnenda, var flutt á staðinn frá Reykjavík og var það rétt svo að flutningabíllinn næði í tæka tíð fyrir sýningaruppsetningu því vegurinn yfir í Djúpavík var ófær viku áður en við komum til vinnu á staðinn. Við mættum síðan akandi tvær saman með allt okkar hafurtask viku fyrir opnun og var þá t.d. Veiðuleysuhálsinn illa fær vegna snjóa sem eftir á að hyggja kryddaði ferðalagið á skemmtilegan hátt. Allt þurfti að vera meðferðis því ekki er einfalt að skreppa eftir því sem vantaði. Eins þurftum við að skipuleggja öll samskipti vel því síma- og netsamband er stopult nema rétt inni á hótelinu. Verkefnið er einstaklingsframtak unnið með styrk og vorum við í öllum hlutverkum, langt út fyrir ramma sýningarstjórans. Öll vinnan krafðist mikilla pælinga og skipulags en allt ferlið hefur verið bæði lærdósmríkt, sérlega skemmtilegt og gefandi.“

3A Leiðin norður 2 júní

HA: Verkin á sýningunni eru ansi fljölbreytt, allt frá óræðum verkum sem mætti skilgreina sem list, hönnun í framleiðslu, nytjahlutir frá heimamönnum og að auki má finna fróðleik um arkitektúr úr rekaviði. Fannst ykkur snúið að stilla saman svo fjölbreytilegum verkum undir hatti hönnunar?

„Á sýningunni er áhersla fyrst og fremst á hönnun úr rekaviði. Verkin eru eftir jafnt íslenska sem erlenda hönnuði auk verka frá handverksfólki af Ströndum. Ekki er um neina skilgreinda listmuni á sýningunni en þó mætti segja að einhver verk dansi á óræðri línu listar og hönnunar. Sá vinkill gefur sýningunni enn meiri breidd og e.t.v. skilur mann eftir með spurninguna hvar mörkin séu, eða hvort það sé á nokkurn hátt þörf fyrir það í þessu samhengi þar sem áherslan er á nýtingu rekaviðarins. Við vekjum jafnframt athygli á notkun viðarins í arkitektúr sem í raun er sérstakt að ekki sé meira notaður hér á landi.“

Síðustu fíneseringar fyrir opnun

Síðustu fíneseringar fyrir opnun

HA: Gamla renniverksstæðið í síldarverkssmiðjunni er ansi hrátt og ekki beint hefðbundið sýningarrými. Var ekki flókið að vinna sýninguna inn í rýmið?

„Við féllum báðar fyrir þessu rými, hráleikanum, birtunni þar inni, lofthæðinni sem eru fimm metrar. Það er ekki oft sem maður kemst inn í umhverfi sem hefur verið nær ósnert í áttatíu ár. Virðing staðarhaldara fyrir byggingunni (síldarverksmiðjunni) og að halda henni óbreyttri fyrir utan lágmarks viðhald, er ómetanleg. Gamlar vélar, vegglistar, skrúfur í veggjum, ryðguð hilla og jafnvel hreiður – allt fékk að vera á sínum stað og var ýmist nýtt eða fékk að standa sem umgjörð um stöplana. Þetta varð til þess að rýmið varð einskonar óháður rammi um sýninguna. Við völdum liti á stöplana sem kalla enn frekar fram sérstöðu hlutanna. Litavalið er að vissu leiti sótt til hefðbundinnar litapallettu í eldri söfnum sem við teljum skapa einstaka heild.

Verkfæri.Patricia burk_H.E.H_fix

Verkfæri – Patricia Burk

Til að auka enn á upplifunina og tengja við þau hljóð sem almennt umlykja rekavið, óma náttúruhljóð í bakgrunninn en hljóðverkið samdi Hafdís Bjarnadóttur tónsmiður. Óvenjumikil lofthæð var nýtt með því að láta suma sýningargripi hanga úr loftinu eða á vegg og eins voru háir veggirnir nýttir fyrir langa textabannera. Á þeim má annars vegar finna almennan kynningartexta frá sýningarstjórum og hinsvegar texta um rekavið sem Magnús Rafnsson, sagnfræðingur á Bakka í Bjarnarfirði, skrifaði sérstaklega fyrir sýninguna. Arkitektúr er gerð skil í máli og myndum á sérstökum spjöldum en framsetningu texta og alla grafíska hönnun á sýningunni sá Guðmundur Úlfarsson grafískur hönnuður um jafnframt því að hanna sýningarskrá og lógó sýningarinnar.“

Flugfélagið Reki / Driftair - Þorleifur Eggertsson

Flugfélagið Reki / Driftair – Þorleifur Eggertsson og Ólöf Jakobína Ernudóttir

HA: Eru vannýtt tækifæri í vinnslu á rekaviði?

„Það eru vannýtt tækifæri víða á staðbundnu hráefni og það er það sem við viljum vekja athygli á með sýningunni. Rekaviður er dæmi um staðbundið efni sem nýta má á mun fjölbreytilegri hátt eins og dæmi sanna úr sögunni sbr. þess sem fram kemur í texta Magnúsar Rafnssonar sagnfræðings.

„Smíðagripir Strandamanna voru stór hluti af tekjum ábúendanna. Frá síðari öldum er vitað um sölusiglingar yfir Húnaflóa og til Þingvalla til að selja smíðavörur, fyrst og fremst búsáhöld, svo sem dalla og kúta, aska, diska, sleifar og fleira. Sennilega hefur margt af smíðisgripum ratað víða um landið og sumir einstakir gripir finnast á söfnum…“

„Við þurfum að líta okkur nær og huga að umhverfisþáttum og um leið getum við skapað okkur sérstöðu með því að nýta íslenskt hráefni. Eitt meginmarkmið verkefnisins er að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar um nýtingu staðbundins efniviðar og umhverfisvakningar. Ímynd í íslenskri hönnun er mjög á reiki og oft rætt um nauðsyn þess að skapa okkur skýrari sérstöðu. Íslenskur efniviður er eitthvað sem getur skapað okkur sérstöðu – þó auðvitað megi svo deila um það hvort rekaviður sé íslenskur.

Minningahulstur - Helga Ragnhildur Mogensen

Minningahulstur – Helga Ragnhildur Mogensen

En þá komum við að úrvinnslu efnisins sem getur verið á margan hátt en e.t.v. getur sérstaða líka falist í úrvinnslunni. Varðandi rekaviðinn þá er hann auðlind í eigu rekabænda eins og hvert önnur hlunnindi sem tilheyra jörðunum. Ef fólk hyggst sækja rekavið í fjörur þarf að fá leyfi hjá bændunum eða greiða fyrir viðinn og í því liggja vannýtt tækfæri fyrir bændur. Okkur þætti áhugavert að sjá heimfólk nýta frekari tækifæri í því að forvinna viðinn til sölu og fyrir framleiðslu því viðurinn þarf langt og flókið vinnsluferli áður en hann er notaður. Sjaldnast fæst viðurinn þurrkaður en hann þarf að þurrka eftir kúnstarinnar reglum áður en hann er notaður. Þetta langa vinnsluferli gefur honum sérstöðu en kosturinn við viðinn er líka sá að hann hentar sérlega vel til utanhússklæðninga því sjávarsaltið hefur gefið honum náttúrulega fúavörn.“

Hot Dog - Gero Grundmann

Hot Dog – Gero Grundmann

HA: Er þetta verkefni sem gæti átt sér framhaldslíf?

„Góð spurning. Það eru góðir möguleikar á framhaldi verkefnisins og við komum örugglega til með að halda því áfram með einhverjum hætti jafnvel að setja sýninguna upp annars staðar. Við hlutum framhaldsstyrk úr Hönnunarsjóði í vor en við sóttum um hann m.a. til áframhalds og ekki síst til þess að vinna stutta heimildarmynd um verkefnið og að skrásetja það og sýna með góðum hætti tengsl sýningarinnar við svæðið og vinnslu hráefnisins. Við erum búnar að ráða fagmann til verksins, Helgu Rakel Rafnsdóttur sem er menntuð í heimildarmyndargerð. Síðan er margt í athugun hvað framhaldið varðar og möguleikarnir þar geta verið margir.“

Trog. Lilja Sigrún Jónsdóttir_ H.E.H_fix

Trog – Lilja Sigrún Jónsdóttir

Að lokum má geta þess að sýningin Falinn Skógur hefur verið mjög vel sótt það sem af er sumri. Fjölmargir hópar hafa lagt leið sína sérstaklega til Djúpavíkur til að bera hana augum. Leiðsögn um sýninguna er í höndum Hótels Djúpavíkur en gestir geta slegið tvær flugur í einu höggi og einnig farið í gegnum sögusýninguna í síldarverksmiðjunni.

HA skorar á alla sem verða á farandsfæti í ágúst að leggja leið sýna í Djúpavík á Ströndum og heimsækja þessa áhugaverðu sýningu sem stendur til 28. ágúst 2015.

 

Sýnendur:

Árni Friðriksson, Jakob Líndal, Kristján Ásgeirsson, Aðalheiður D. Þórólfsdóttir, Dagný Bjarnadóttir, Dóra Hansen, Dögg Guðmundsdóttir, Cornelius+Vöge, Emilía Borgþórsdóttir, Gero Grundmann, Helga Ragnhildur Mogensen, Hrafnkell Birgisson, Júlía Petra Andersen,

Julia Lohmann, Lilja Sigrún Jónsdóttir, Patricia Burk, Ólöf Jakobína Ernudóttir, Ólöf Birna Björnsdóttir, Railis Kotlevs, Sigurjón Pálsson, Guðrún Jónsdóttir, Unnur S. Gröndal, Valgeir Benediktsson, Þorleifur Eggertsson, Þórhildur Þorgeirsdóttir.

Rostungur - Sigurjón Pálsson

Rostungur – Sigurjón Pálsson

Rekafloti - Hrafnkell Birgisson

Rekafloti – Hrafnkell Birgisson

Borðlamparnir Jakob & Ronja - Dóra Hansen

Borðlamparnir Jakob & Ronja – Dóra Hansen

Skildu eftir svar