Fatahönnun, HA vefgrein, Leirlist og keramíkhönnun, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Frystihúsið sem breyttist í hönnunarklasa

Íshús Hafnarfjarðar

„Við vildum kanna það hvort grundvöllur væri fyrir því að leigja út vinnurými og búa til samfélag skapandi einstaklinga, einskonar gróðrastöð fyrir frumkvöðla og nýsköpun í íslenskri hönnun,“ segir Anna María Karlsdóttir um þá nýju starfsemi sem er að finna í Íshúsi Hafnarfjarðar.


Texti: Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson / Myndir: Arnar Fells Gunnarsson

IH_Landakort

Á árum áður var starfrækt öflugt hraðfrystihús og fiskverkun í Íshúsi Hafnarfjarðar. Vinnandi fólk stóð ýmist í aðgerð, saltaði niður fisk, gerði að veiðafærum eða sinnti öðrum störfum fyrir útgerðina sem þar var. Áður en frystikistur urðu sjálfsagður hlutur á hverju heimili gátu Hafnfirðingar einnig leigt hólf í frystigeymslum Íshúsins. Í dag er öldin önnur og hefur stór hluti húsnæðisins fengið nýtt hlutverk. Breiður hópur hönnuða, iðnaðar- og listamanna hefur tekið við keflinu og komið sér fyrir í húsnæðinu. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á Íshúsinu sem nú hýsir vinnuaðstöðu um 30 hönnuða sem fást við ólík viðfangsefni, svo sem hnífasmíði, keramik hönnun, trésmíði og textíl hönnun.

IH_fedgar

Óli yfirsmiður sýnir erfingjanum réttu handbrögðin.

Síðastliðin 15 ár heftur lítil sem engin starfsemi verið í hinu geysistóra Íshúsi Hafnarfjarðar, utan ísverksmiðjunnar sem sér fiskmarkaðinum fyrir ís. Öllum að óvörum lifnaði húsið svo við í júlí 2014 eða þegar hjónin Ólafur Gunnar Sverrisson tréskipasmiður og Anna María Karlsdóttir mannfræðingur tóku stóran hluta þess á leigu. Með góðum hóp samstarfsfólks óðu þau blint í verkefnið en fundu fljótlega að margir höfðu áhuga.

IH_Peysa

Húfa og prjónapeysa eftir Sigrúnu Höllu Ásgeirsdóttur textíl hönnuð.

IH_Stofa

Í dag er rýmið fullnýtt og hafa hjónin ekki undan að svara fyrirspurnum frá áhugasömu fólki sem vantar vinnuaðstöðu. Til að anna eftirspurn verður fljótlega bætt við gamalli netageymslu og fyrir árslok eru áform um að bæta 600 fermetrum við núverandi rými. Þá skapast rými fyrir fleiri vinnuaðstöður en einnig verður bætt við nýjum sýningar- og fyrirlestrasal ásamt verslun þar sem hönnuðir Íshússins selja vörur sínar. Anna og Óli eru þegar byrjuð að taka á móti umsóknum frá áhugasömu fólki og fyrirtækjum.

IH_Batur

Þessari netageymslu verður fljótlega breytt í ný vinnurými.

IH_Hillur

Anna segir þau hjónin velja inn hönnuði og iðnaðarfólk til samstarfsins með fjölbreytileika í huga. „Við leggjum mikla áherslu á samfélagið í húsinu og trúum á tækifærin og styrkinn sem liggur í samvinnu okkar. Innan hússins er mikil þekking og hér hefur myndast góður þverfaglegur grundvöllur til samtals og samræðu. En það er ekki minna takmark að sækja samstarf út fyrir húsið við einstaklinga, fyrirtæki og hinar ýmsu stofnanir,“ segir Anna um fyrirkomulag Íshússins.
Hún segir jafnframt að stefnt sé að því að styrkja þjónustuhliðina, t.d. þjónustu sem hægt er að veita vöruhönnuðum við prótótýpugerð og framleiðslu í litlu magni.

IH_saumavel

Sigrún Halla

„Í svona klasa hugsar fagfólk frekar út fyrir ramma eigin iðnar og skapar nýjar tengingar. Það er afar skemmtilegt að fylgjast með samstarfi myndast milli ólíkra greina,“ segir Anna. Sem dæmi um samstarf má nefna að hnífasmiðurinn í húsinu, Evangelos Tsagkouros, bað Hönnu Grétu Pálsdóttur keramik hönnuð að framleiða fyrir sig drykkjakrúsir með lógói sínu mótað í krúsina. Evangelos selur nú krúsirnar undir merkjum Krypteia Knives. Hanna Gréta gerir einnig skotglös fyrir skotglasabakka sem hannaðir eru af Jónínu Ósk Lárusdóttir eiganda Bifurkolla.com en þær vinna nú að þróun sameiginlegrar vörulínu sem fengið hefur nafnið Glóð. Einn leigjandinn í húsinu, Björn Stefánsson sem rekur fyrirtækið 3D Verk, er meðal annars með öflugan CNC yfirfræsara sem nýtist öllum sem þurfa að gera mót eða prótótípur úr áli, við eða frauðplasti. Björn fæst einnig við sílikon mótagerð fyrir hönnuði svo fátt eitt sé nefnt.

IH_Hnifamadurinn

Evangelos Tsagkouros að störfum við hnífasmíði

IH_Hnifar

Hnífarnir eru seldir undir vörumerkinu Krypteia Knives

Á ferð um húsið rákumst við á töskur sem eiga sér frekar óvenjulega fortíð. Töskurnar, sem minna helst á strandatöskur sjötta áratugarins, eru saumaðar úr efni af tjaldvagni sem kominn var til ára sinna og átti að fara í brotajárn. Það er saumakonan og hönnuðurinn Guðrún Borghildur sem umbreytir gömlum hlutum og gefur þeim nýtt líf. „Fjölskyldan átti gamlan tjaldvagn sem ferðaðist með okkur um allt land. Á endanum var hann orðinn svo slappur að hann var nærri ónothæfur. Við áttum svo magar góðar minningar tengdar tjaldvagninum að ég gat ekki hugsað mér að henda honum. Þá kviknaði hugmyndin um að gefa honum nýtt framhaldslíf með allt annað notagildi. Á töskunum er miði með ljósmynd af tjaldvagninum svo nýjir eigendur geti séð fyrra lífi töskunnar,“ segir Guðrún og sýnir okkur fleiri sambærileg verkefni.

IH_Vagn

Tjaldvagninn sem vildi verða taska

IH_TaskaStor

Tjaldvagnatöskurnar sem bera nafnið Gímald, eru sérlega rúmgóðar.

Hún hefur m.a. breytt leðurbuxum í minni töskur, klukkustrengjum breytir hún í púða og gamlir leðursófar og leðurjakkar taka á sig ólíklegustu form. Hún segir þetta náskylt því að endurvinna en er kallað „upcycling“ á ensku, þ.e.a.s. að umbreyta hlut sem á að henda og gefa honum nýtt líf. HA leggur til að notað verði íslenska orðið að „uppvinna“ sem rímar vel við sögnina að endurvinna.

IH_Sofataska

Taska gerð úr myndalegum leðursófa

Keramik hönnun ræður ríkjum á efri hæð hússins. Þar er að finna góða aðstöðu með fullkomnum brennsluofnum fyrir leir. Þegar HA bar að garði var Ingibjörg Ósk Þorvaldsdóttir að losa rakan leir úr mótum og undirbúa hann fyrir brennslu. Þar var hún að nostra við uppáhellingarkönnuna Uppáklædd, sem hún sýndi á HönnunarMars í ár.

IH_Sveppir

Kertaluktir eftir Day New Dagný, Dagnýju Gylfadóttur keramik hönnuð.

Kaffikannan Uppáklædd eftir Ingibjörgu Ósk Þorvaldsdóttur keramik hönnuð.

Það er eitthvað rómantískt sveitayfirbragð í handgerðu brettunum og svuntunum sem Jónína Ósk gerir undir merkjum Bifurkollu.

Anna og Óli eiga sér háleita drauma um að Íshús Hafnarfjarðar verði einskonar þekkingarsetur en undanfarið hefur Íshúsið staðið fyrir fyrirlestrum sem miðaðir eru að hönnuðum og frumkvöðlafyrirtækjum. Ætlunin er að setja meira enn meiri kraft í fræðsluþáttinn. Í burðarliðnum er meðal annars samstarf við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um fyrirlestrahald svo áhugasamir ættu á fylgjast grant með. Áhugasamir geta einnig pantað skoðunarferðir en Anna segir Íshúsið vera vinsælan viðkomustað hjá hópum, bæði íslenskum og erlendum.

IH_Pottar

Bollar eftir Emblu Sigurgeirsdóttur keramik hönnuð.

IH_Halsmen

Það fyrirkomulag sem Íshús Hafnarfjarðar tileinkar sér hefur notið síaukinna vinsælda um allan heim og finna má nokkrar sambærilegar vinnuaðstöður og eða klasahópa víða hér á landi. Slíkir kjarnar stuðla fyrst og fremst að nýsköpun og atvinnuþróun sem skilar sér í aukinni samkeppnishæfni svæða eða bæjarfélaga. Þó hugmyndin sé ekki ný af nálinni er engu að síður aðdáunarvert að framtakið sé sjálfsprottið og algjörlega óháð utankomandi styrkjum.

Íshúsið sýnir því með mjög skýrum hætti hvernig einyrkjar og minni fyrirtæki geta styrkt stöðu sína með að hópa sig saman. Þá skapast auknir möguleikar með meiri hagnýtingu á rými og tækjum, stærra tengslaneti og aukinni þverfaglegri samvinnu.

IH_Vasar

Saltstaukar eftir keramik hönnuðinn Hönnu Grétu Pálsdóttur.

IH_Room

Vinnustofa Hönnu Grétu Pálsdóttur keramik hönnuðar á annari hæð Íshússins þar sem áður var netaverkstæði.

IH_Hofn

Útsýnið frá efri hæð Íshússins.

Þeir sem eru með vinnuaðstöðu í Íshúsi Hafnarfjarðar eru:

  • Evangelos Tsagkouros hnífasmiður hjá Krypteia Knives
  • Bergdís B. Guðnadóttir keramik hönnuður
  • Embla Sigurgeirsdóttir keramik hönnuður
  • Hanna Gréta Pálsdóttir keramik hönnuður
  • Sigrún Guðna Gunnlaugsdóttir handverkskona
  • Anna María Karlsdóttir mannfræðingur
  • Þórdís Baldursdóttir keramik hönnuður
  • Unnur Sæmundsdóttir myndlistarmaður
  • Sindri Snæsson trésmiður
  • Sigrún Halla Ásgeirsdóttir textíl hönnuður
  • Volt/Sigmar Örn Arnarson rafiðnfræðingur
  • VAVA/Rán Sigurðardóttir skósmiður
  • Ólafur Gunnar Sverrisson skipasmiður,
  • 3D Verk /Björn Stefánsson skipstjóri
  • Bifurkolla / Jónína Ósk Lárusdóttir prentsmíðameistari
  • Jóhanna Hauksdóttir listamaður
  • Ingibjörg Ósk Þorvaldsdóttir keramik hönnuður
  • Anna Snædís Sigmarsdóttir myndlistamaður og grafiker
  • Helga Hrönn Þorleifsdóttir keramik hönnuður
  • Guðrún B. – Guðrún Borghildur lífeindafræðingur og handverkskona
  • Bergdís Guðnadóttir myndlistarkonar og textíl hönnuður
  • Fjóla Eðvarðsdóttir keramik hönnuður
  • Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir bókmenntafræðingur og fjöllistamaður
  • Díana Margrét Hrafnsdóttir myndlistarmaður
  • DAY NEW / Dagný Gylfadóttir keramik hönnuður
  • Systurnar Kristín og Jenný Garðarsdóttir hjá Sisters ReDesign
  • Margrét Ingólfsdóttir, útstillir og grafískur hönnuður
  • Matthildur Amalía Marvinsdóttir nemi í fatahönnun
  • Ingiríður Óðinsdóttir myndlistamaður og textíl hönnuður

Skildu eftir svar