Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Farfuglar

Ragna Ragnarsdóttir iðnhönnuður

Ég vissi alltaf að ég myndi vinna með höndunum. Ég var að hugsa um myndlist en ég var of mikill pappakassi til þess, svo að ég fór að vinna við trésmíðar. Með tímanum fékk ég sífellt meiri áhuga á því hvernig hlutir virka. Mig langaði að gera meira en að smíða eftir hugmyndum annarra. Núna blandast þetta allt saman í verkum mínum.

 

Ég hafði verið að leita að rétta skólanum og fann loks einn sem mér leist vel á, Ensci Les Atelier í París. Í skólanum eru frábær verkstæði til að vinna í málma, tré og plast og þar er fólk opið fyrir öllu í hönnun. Þar var fólk að smíða bíla og vinna í hugbúnaði hlið við hlið. Það átti vel við mig því ég vil hafa margs konar hönnun í kringum mig og stærra umhverfi til að finna mína leið. En í umsóknarferlinu varð maður að senda verkefnamöppu og fara í viðtal á frönsku. Og ég talaði ekki orð í henni. Einhvern veginn tókst mér samt að kjafta mig inn. Ég fluttist til Parísar árið 2010 og brautskráðist sem iðnhönnuður 2016 [með láði, ritstj.]. Í lokaverkefninu mínu teikna ég ekki fyrst hlutinn og smíða hann síðan heldur blanda ég þessum tveimur fösum saman. Ég teikna hlutinn á meðan ég er að búa hann til. Mig langaði að geta búið eitthvað til sem ég gæti endurskapað; ferli sem ég hanna um leið og verkefnið tekur á sig mynd.

Um hönnunina

Maður spyr sig stöðugt: „Hvernig get ég gert þetta?“ Mig langaði að móta gripina í höndunum og nota sveigjanleg mót og því hentaði vel að nota latex. Síðan var það næsta vandamál og lausn á því og svo koll af kolli. Aðalatriðið er að prófa sig áfram, gera mistök, síðan önnur og svo enn önnur. Þannig vinn ég og er mikið á vinnustofunni. Hönnun gengur alltaf út á að leysa vandamál. Það drífur mig áfram að þurfa að finna leið til að gera það sem mig langar að gera. Ég kem sjálfri mér í aðstæður þar sem ég verð að prófa nýja hluti. Auðvitað tekur það á taugarnar þegar hlutirnir ganga ekki upp en þegar maður loksins finnur lausnina er það erfiðisins virði. Markmið mitt er að það séu jákvæð tengsl á milli notandans og hlutarins. Ég bý til hluti sem ég vil að séu einstakir. Þegar ég notast við mitt ferli hef ég fulla stjórn á framleiðslunni og get því auðveldlega miðlað henni til notanda. Þetta samband er mér mjög mikilvægt. Ég held að fólk ætti að sjá meira af því hvernig hlutir eru búnir til. Ef það áttaði sig á ferlinu myndi það hugsa öðruvísi um hlutina. Ég nota engar hátæknivélar; það er engin hátæknivél sem skýtur smíðisgripunum út úr sér. Ég vinn allt í höndunum og þess vegna er auðveldara að skilja ferlið.

Um framtíðina

Ég var svo heppin að vinna græna kortið í lottóinu svo að ég flyst til New York í september. Ætlunin er að opna mína eigin vinnustofu. Fólk spyr mig: „Hvernig geturðu það, þú ert nýskriðin úr námi?“ En mér finnst ég vera tilbúin. Ég sé sjálfa mig ekki fyrir mér að hanna fyrir aðra; það er ekki þannig hönnun sem ég fæst við. Í lok júní tek ég þátt í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni í Villa Noailles í Hyères, þar sem tíu hönnuðir hafa verið valdir til að sýna verk sín alþjóðlegri dómnefnd sem franski hönnuðurinn Inga Sempé fer fyrir. Á næstunni fer ég líka til Grænlands vegna verkefnis sem kallast Hors Pistes. Þar munu sex ungir hönnuðir vinna með grænlenskum handverksmönnum en ætlunin er að hanna eitthvað sem hentar staðbundinni framleiðslu. Ég er líka að vinna að dansverki með danshöfundinum Rósu Ómarsdóttur sem verður frumsýnt í Brussel í haust.

Um Frakkland

Í París vinnur margt fólk við að hanna umhverfið sem við lifum í. Í skólanum höfum við til dæmis unnið að verkefnum með almenningssamgöngufyrirtækinu SNCF. Forsvarsmenn þess vilja gjarnan fá unga hönnuði til starfa hjá sér að námi loknu. Á Íslandi er staðan gerólík en þar er heldur ekki svo margt fólk sem þarf að skipuleggja í kringum og engar stórborgir heldur. Að mínu mati er mikill fókus á vöruhönnun á Íslandi. Ef til vill yfirsést okkur að hönnun getur verið svo margt og getur farið í svo margar áttir.
Ég sakna þess frá Íslandi að tala málið; að hafa fullkomin tök á því. Það gerir allt auðveldara. Almennt séð er allt auðveldara á Íslandi. Í Frakklandi er fyrsta svar alltaf „no, ce n’e pas possible“. Þá þarf maður að vera voðalega kurteis og reyna og reyna, og eftir klukkutíma verður það kannski orðið mögulegt.

Um það að vera íslenskur

Margir hafa áhuga á Íslandi. Það getur hjálpað manni að byggja upp sambönd til að koma verkum sínum á framfæri. Á endanum eru það þó gæði verkanna sem ráða úrslitum. Margir segja að þeir sjái íslenska andann í verkum mínum. Þeir gera sér einhverjar hugmyndir um álfaheim og sjá hann í verkum manns, sama hver kveikjan að þeim er. Ég hugsa aldrei um þjóðerni mitt. Hönnun er alþjóðlegt fag og maður verður að vera það líka. Ég er í betri tengslum við franska hönnunariðnaðinn en þetta er svolítið eins og að eiga foreldra af ólíku þjóðerni; þegar ég er í Frakklandi er ég íslensk og þegar ég er á Íslandi finn ég fyrir þeim áhrifum sem Frakkland hefur haft á mig. Á endanum er það þannig að maður er hvort sem er alls staðar útlendingur. Svona almennt er ég ekki hrifin af því að draga mig í einhvern dilk. Fólk segir „þú býrð til hluti svo að þú ert vöruhönnuður“ eða „þú lærðir iðnhönnun svo að þú ert iðnhönnuður“. Ég vil ekki nota þessa stimpla á sjálfa mig. Maður verður að vera víðsýnn og geta unnið í mismunandi borgum og með ólíku fólki. Ef maður getur það ekki festist maður í sínum eigin litla heimi.


Grein birtist í HA nr.5.
Texti : Sari Peltonen. Myndir: Kjartan Ragnarsson og Ragna Ragnarsdóttir

Skildu eftir svar