Álit / pistlar
Leave a comment

HA06 er komið út!

Sjötta tölublað HA hefur nú litið dagsins ljós og mun án efa birta upp í huga alls áhugafólks um íslenska hönnun og arkitektúr í helsta skammdeginu.

Tímaritið telur rúmlega 140 blaðsíður af áhugaverðu efni enda af nógu að taka þegar kemur að íslenskri hönnunarsenu. Meðal efnis er viðtal við Jón Helga Hólmgeirsson yfirhönnuð hjá Genki Instruments sem er skreytt myndaþætti sem unninn var í samvinnu við Studio Fræ. Þá fá lesendur innsýn í hugmyndavinnuna að baki útskriftarverkefnis Sunnu Örlygs fatahönnuðar í meistaranámi hennar við ArtEZ, sem myndað var af Magnúsi Andersen ljósmyndara.

Paul Bennett, yfirhönnunarstjóri hjá IDEO, sem fékk hálfan salinn til að fella tár á síðustu DesignTalks með persónulegri frásögn sinni, skrifar um upplifun sína af landi og þjóð í opnu bréfi til Íslendinga.

Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, arkitektar og eigendur Kurt og Pí, sem hlutu nýverið Hönnunarverðlaun Íslands fyrir endurhönnun Marshall-hússins segja frá því hvernig arkitónísk hugsjón mótaði hugmyndina að breyttu hlutverki hússins á öllum stigum. Grímur Sæmundsen forstjóri og stofnandi Bláa lónsins, sem hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun, segir frá því hvernig samstarf við framúrskarandi hönnuði hefur átt stóran þátt í velgengni fyrirtækisins. Að auki er umfjöllun um þau framúrskarandi hönnunarverkefni sem hlutu tilnefningu til verðlaunanna; Reitir: Tools for collaboration, Orlofshús BHM eftir PKdM, einkenni listahátíðarinnar Cycle eftir Döðlur og Saxhóll eftir Landslag.

Texta- og hugmyndasmiðurinn Bragi Valdimar Skúlason fer yfir sögu íslenska orðsins hönnun og við skyggnumst inn í heim Loja Höskuldssonar hönnuðar sem hefur vakið athygli fyrir Instagram myndir af verkum Sigvalda Thordarsonar arkitekts.

Hönnuðurnir Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hjá Nordic angan kynna íslenskan ilmbanka sem þær eru að vinna að og Helga Mogensen skartgripahönnuður segir frá áskorunum sem felast í því að vinna úr rekaviði. Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður, sem stendur að verkefninu Leit að postulíni ásamt Ólöfu Erlu Bjarnadóttur keramiker og Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi, varpa ljósi á þá töfra sem felast í því að sjá íslenskt grjót umbreytast í steyptan hlut og hönnunarteymið Studio Trippin, þær Valdís Steinarsdóttir og Kristín Karlsdóttir, lýsa því hvernig þær breyta áður ónýttri hliðarafurð í áhugaverða hönnunarvöru.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir heimspekingur og lektor við Listaháskóla Íslands skrifar hugleiðingu um landslag og hvaða máli það skiptir okkur sem fyrirbæri og hugtak. Nýir útsýnispallar eftir Landmótun, teiknistofu landslagsarkitekta, við Brimketil á Reykjanesi, eru dæmi um vel heppnað landslagsverkefni sem gerir gestum kleift að upplifa brimbrotið á öruggari hátt en áður.

Auður Ösp Guðmundsdóttir svarar spurningum um meistarnám sitt við elstu leikmynda- og búningahönnunardeild í heimi auk þess sem við sýnum svipmyndir af nokkrum af þeim fjölmörgu áhugaverðu hönnunarverkefnum sem móta íslensku hönnunarsenuna í dag; Örn Duvald, Önnu Guðmundsdóttur í Malmö upcycling service, textílhönnuðinn Ýrúrarí, gullsmíðaverkstæðið Raus Reykjavík, samstarf Epal við hina margverðlaunuðu Margrethe Odgaard, Studio Holt, Gagn, Rögnu Bjarna og HAF studio. Þá fjöllum við um hönnunarverslanirnar Akkúrat og Ypsilon sem hafa slegið í gegn hjá hönnunarunnendum á öllum aldri og sýnum frá nýrri verslun S/K/E/K/K sem áætlað er að opni í Gerðarsafni á næstu mánuðum.

Við bendum líka á áhugaverð viðtöl og greinar á vefsíðu okkar, www.hadesignmag.is, meðal annars grein Bjarka Vigfússonar um Hlemmtorg, viðtal við Katrínu Öldu Rafnsdóttur hjá KALDA og greinasafnið Through the looking glass sem fjallar um verk nýútskrifaðra hönnuða frá Listháskóla Íslands.

Skildu eftir svar