Álit / pistlar
Leave a comment

Alþingisreiturinn

Draumur Sigmundar Davíðs

 

Texti: Birkir Ingibjartsson, ljósmyndir: Arnar Fells

Hugmyndir hæstvirts forsætisráðherra um uppbyggingu á Alþingisreitnum og í Kvosinni almennt hafa verið mikið til umræðu undanfarið. Áhugi Sigmundar Davíðs á málinu er athyglisverður þó ég telji hugmyndir hans í raun byggja á fremur skammsýnni hugmyndafræði. Gjörningar Sigmundar hafa þó í það minnsta hleypt af stað líflegri umræðu um stöðu arkitektúrs og borgarskipulags á Íslandi í dag. Umræðunni ber að fagna og mun vonandi verða vexti Kvosarinnar og borgarinnar allrar til góðs þegar fram líða stundir.

Sögulega vídd og vægi staðar er ómögulegt að skapa uppúr engu. Slíkt gerist einungis með tíma og atburðum. Upphaf byggðar á Íslandi er grafin í jörðu Kvosarinnar og hér varð Reykjavík borg. Þessi saga er dýrmæt og helsta ástæðan fyrir óumdeilanlegu aðdráttarafli miðbæjarins. Fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu staðfesta það.

Hin sögulega vídd miðborgarinnar felst í því hvernig hver kynslóð hefur markað sitt spor á svæðið og nýtt eftir þörf hvers tíma; endurskilgreint notkun þess og þróað hús af húsi. Þessi vitneskja er margfalt verðmætari en falsaðar eftirbyggingar munu nokkurn tímann verða. Bygging gamalla stúdentagarða mun þannig engu bæta við sögulega vídd miðborgarinnar og heldur ekki minjar í bílakjöllurum og skilti.

DSC01444

Alþingisreiturinn

Menning er ekki bara eitthvað sem er gamalt og viðurkennt heldur stöðugt streymi sköpunar. Að draga teikningar Guðjóns Samúelssonar uppúr skúffunni er því ekki einungis alvarleg vantraustsyfirlýsing á samtímann heldur einnig smættun og vanvirðing við alla 20. aldar byggingararfleið okkar. Með öðrum orðum gerir slík aðgerð bæði lítið úr allri þeirri kunnáttu sem við búum yfir í dag og lokar augunum fyrir þeim verðmætum sem sköpuð hafa verið síðan Guðjón sat á skólabekk. 100 ára gamlar teikningar Guðjóns útiloka samtal samtímans við aðra snillinga 20. aldarinnar og þeirra góðu verk. Hvernig stúdentagarða hefðu Högna, Sigvaldi eða Mannfreð teiknað fyrir Alþingi?

Að ætla fyrirframákveða byggingarstíl tiltekinnar byggingar með stjórnvaldsákvörðun er því ekki einungis slæm og afar varasöm stjórnsýsla heldur gerir það lítið úr byggingararfleið okkar sem heild. Slík stjórnsýsla gerir að engu hæfni íslenskra arkitekta til að túlka staðarandann og sækja sér innblástur í eldri byggingar. Byggingar sem raunverulega geta talist íslenskar fremur en sá síðklassíski stíll sem teikning Guðjóns ber keim af. Í raun má segja að jafnvel Guðjón og hans byggðu verk séu útilokuð úr jöfnunni með þessum hætti. Háskóli Íslands og Þjóðleikhúsið eru ekki til samkvæmt hugmynd Sigmundar.

Skoðum tvö góð og bókstaflega nærtækustu dæmin um góðar borgarbyggingar sem bygging á Alþingisreitnum mun sjálfkrafa eiga í samtali við. Oddfellowhúsið; byggt árið 1931 eftir teikningum Þorleifs Eyjólfsonar húsameistara. Ráðhús Reykjavíkur; fyrsta verk Studio Granda og tekið í notkun 1994. Tvær afar ólíkar byggingar sem geyma þó hvor á sinn hátt vísbendingar um hvað góð bygging á Alþingisreitnum gæti staðið fyrir.

DSC01457

Oddfellowhúsið er snemm módernísk funkis bygging í eigu fremur lokaðra félagasamtaka. Útlit þess er einfalt, einkennist af láréttum og hreinum línum í anda þeirra stílbrigða sem voru að ryðja sér til rúms í Evrópu á millistríðsárunum. Oddfellow er borgarhús. Stendur þétt upp við götuna og væntir nágranna sem fylla útí götumyndina fram að næsta götuhorni. Það er látlaust en virðulegt. Fragment úr borginni sem Reykjavík hefur lengi verið ætlað að verða.

Ráðhúsið er á hinn bóginn há-póstmódernísk opinber bygging. Stakstætt hús einangrað í horni Tjarnarinnar. Sést víða að og hefur mjög sterka nærveru í borginni. Samtímis er byggingin þó létt og innibjóðandi. Götulífið rennur inn og ígegn og virkjar þannig húsið sem hús fólksins. Á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu opnast svo borgarráðssalurinn út í borgina og minnir borgarfulltrúa á að sá sem stendur í pontu hverju sinni er fulltrúi fólksins sem stendur úti á horni. Póstmódernísk sjálfkrítík par exelans.

Nýbygging á Alþingisreitnum gæti verið góð blanda af því besta sem einkennir þessa tvo stoltu fulltrúa síns tíma. Veglegt borgarhús sem fyllir út í mölina. Fagleg opinber bygging byggð samkvæmt hugmyndum um sjálfbærni, gegnsæi og lýðræði í nútíma samfélagi. Hús sem virkjar almennt götulíf í Vonarstræti með opinni og lifandi jarðhæð þar sem léttara prógrammi er skeytt saman við hið öllu alvarlegra hlutverk Alþingis. Að lokum myndi ég sjálfur bæta við hringstiga, bleikum vegg og rakarastofu. En það eru bara persónuleg stílbrigði sem þið getið útilokað ef þið viljið.

DSC01431

Fyrirmyndir eru mikilvægar

Ef vandað verður til verka á Alþingisreitnum er ég handviss um að þar muni rísa áhugaverð og góð bygging sem mun setja mark sitt á borgarumhverfið. Slíkt mun þó ekki gerast nema ef ferlið frá Alþingi til framkvæmdar sé heilt í gegn. Til að svo geti orðið þurfum við að treysta á og bera virðingu fyrir þeim ferlum sem við höfum búið okkur til í opnu lýðræðissamfélagi. Þingmenn setja lög. Arkitektar teikna hús. Rakarar klippa hár.

Alþingi er merkasti verkkaupi á landinu. Ef forsætisráðherra vill raunverulega hvetja til faglegra og vandaðra vinnubragða á Alþingisreitnum, Kvosinni og byggingargeiranum almennt þarf Alþingi að setja skýrt fordæmi í sínum eigin framkvæmdum. Slíkt fordæmi felst í að bera virðingu fyrir eigin takmörkunum og sérþekkingu annara en einnig að ganga til verks með opnum og jákvæðum hug.

Alþingisreiturinn er kjörið tækifæri fyrir áhugafólk á þingi um arkitektúr og skipulagsmál að vera öðrum framkvæmdaaðilum góð fyrirmynd. Með því að leggja raunverulegan metnað í verkefnið frá upphafsskrefum þar til framkvæmda kemur gætu skrifstofur Alþingis orðið öðrum til eftirbreytni. Það verður ekki gert með því að ákveða fyrirfram útlit verkefnisins áður en nokkur veit í raun um hvað það snýst.
Hver sá sem að lokum hreppir verkið mun án efa þekkja til sögu svæðisins sem og hversu vandasamt það verður að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram hafa komið og munu áfram vera hávær. Að ætla flýja þá umræðu með því ákveða útlit hússins á Alþingi er hugmyndafræðileg skammsýni og vantraust á getu samtímans til að leysa verkefnið.
Núverandi kynslóð íslenskra arkitekta er fullkomlega treystandi til að sjálfsákvarða hvaða innblástur við sækjum okkur í mótun borgarinnar. Hvort sem það er Morgunblaðshöllin, Perlan, Bernhöftstorfan, Hlemmur, bílastæðahúsið á Hverfisgötu, mósaíkverk Gerðar, Timberlandbúðin eða Guðjón S. í öllu sínu veldi; fyrir og eftir 1918. Af nógu er að taka.

Að treysta núverandi kynslóðum fyrir Alþingisreitnum er menning í sjálfu sér og besta leiðin til að sýna verkum eldri kynslóða virðingu. Byggjum þar veglegt nútíma borgarhús, skilgreinum okkar eigin notkun á svæðinu og veitum næstu kynslóð reykvískra borgarhúsa innblástur.

Birkir Ingibjartsson, arkitekt.

 

Skildu eftir svar