Gullsmíði & skartgripahönnun, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Primitiva

Verndargripir Katrínar Ólínu

Hönnuðurinn Katrín Ólína hvarf af sjónarsviðinu — djúpt inn í ævintýralegan myndheim og innlendur sjálfsins. Eftir margra ára andlegt ferðalag sneri hún aftur og hafði í farteskinu verndargripi sem hlutgera erkitýpur mannsins.


Texti: Elísabet V. Ingvarsdóttir, ljósmyndir: Arnar Fells og Sebastian Janson

Hátt uppi í turni á stjörnuathugunarstöð í Helsinki (Helsinki Observatory), virðulegri 19. aldar byggingu, stendur dularfull kona í svörtum kufli. Hún tekur á móti gestum sem feta sig upp þröngan hringstiga inn í veröld fyrri tíma, þar sem gamall stjörnu-kíkir, ryðguð tannhjól og brakandi gólffjalir tengja okkur við fortíðina. Hér og þar má sjá sérsmíðaðar vitrínur sem hafa að geyma forvitnilega gripi og uppstillingin minnir einna helst á náttúrugripasafn. Þegar betur er að gáð má sjá að gripirnir eru hálsmen, hluti af nýjasta verki hönnuðarins Katrínar Ólínu Pétursdóttur, konunnar í kuflinum.

Vitrína sem sýnir hluta af verndargripum Katrínar.

Vitrína sem sýnir hluta af verndargripum Katrínar.  Mynd: Arnar Fells

Við erum stödd á sýningu á Hönnunarvikunni í Helsinki haustið 2015 þar sem hálsmenin eru kynnt en þau eru hluti safns verndargripa sem ber nafnið Primitiva-Talismans. Um er að ræða fjörutíu men úr bronsi sem Katrín vann í samstarfi við finnska skartgripaframleiðandann Kalevala Koru í Helsinki og eru innblásin af erkitýpum úr samvitund manna. Hér er leitað djúpt í innlendur sjálfsins og innstu þrár mannsins hlutgerðar. Gripirnir tilheyra myndheimi sem hefur að geyma visst formtungumál og við smíði þeirra var leitast við að endurskapa fornar hefðir þar sem hlutir bjuggu yfir verndarmætti eða öðrum yfirnáttúrulegum kröftum.

Primitiva-Talismans er afrakstur rannsóknar Katrínar Ólínu við Digital Design Laboratory í Aalto-háskólanum í Hel-sinki. Síðastliðin tvö ár hefur hún dvalið í Helsinki við rannsóknir á stafrænni tækni og þrívíddarprentun til framleiðslu gripa sem byggja á smárri einingu sem Katrín kallar Primitivu. Að baki verkefninu er margra ára þróunarvinna en í því sameinast ýmsir þættir svo sem heimspeki, list, hönnun, tækni, stærðfræði og heimsfræði. Verkefnið ber augljósan vott um þroska og styrk Katrínar sem hönnuðar í víðtækri merkingu. Það hefur algjöra sérstöðu í heimi hönnunar og tilgangur og merking gripanna er allt annars eðlis en áður hefur sést. „Þetta er fyrsta verkefnið þar sem ég tel að mér hafi tekist að miðla marglaga sýn minni sem ég hef verið að vinna með mjög lengi. Það hefur ekki verið einfalt að ná utan um þennan víðtæka efnivið og finna réttan miðil en ég lít á þennan formheim sem aðferð til að tjá heimspekileg hugtök sem eru alla jafna abstrakt. Þetta eru gripir sem tala til fólks á tungumáli sálarinnar.“

DSC00111_net

Óvissuferð og óravíddir

Katrín Ólína er víðförul kona í eiginlegri jafnt sem ó-eigin–legri merkingu og segist hafa verið á stöðugu ferða-lagi hugans eins lengi og hún man eftir sér. Óþrjótandi þekkingarleit hefur drifið hana áfram og leitt hana þangað sem hún er í dag. Fyrir um átta árum síðan varð vendipunktur í lífi hennar þegar hún stóð frammi fyrir persónulegu uppgjöri og endurskoðun. Sam-fara endurbyggingu á eigin heimi sökkti hún sér djúpt í rannsóknarvinnu til að skapa myndheim sem hún hugðist gefa út sem bókverk. Sagt var að Katrín hefði horfið ofan í hellinn sinn; væri farin í ferðalag. Fáir skildu hvað vakti fyrir henni, hvert hún var að fara og til hvers. Sjálf segir hún þetta hafa verið nauðsynlegan hluta þroskaferlis; ferðalag út í óvissuna en engu að síður ferð sem hún varð að takast á hendur. Eftir þrotlausa vinnu í nokkur ár þar sem hún skoðaði hugmyndir um upphaf, myrkrið og ljósið, endurtekningu og mynstrið í náttúrunni, urðu til mörg drög að bókverki þar sem myndheimurinn var túlkaður. Þegar leitað var til útgefenda með drögin kom hins vegar í ljós að enginn treysti sér til að gefa út svo abstrakt verk. Vinnan við myndheiminn nýttist engu að síður áfram sem undirbúningur að verkefninu Primitivu og grunnur að aðferðafræði þess. Þannig var komin ákveðin niðurstaða með óendanlega vídd og snertifleti.

The Primetiva - Book of talismans

The Primetiva – Book of talismans.  Mynd: Arnar Fells

„Ég get hiklaust sagt að ég hafi leitað að skilningi á sjálfri mér og lífinu og að ég hafi nýtt sköpun meðal annars til þess að komast að niðurstöðu. Ég fór að þróa aðferðir til að búta niður og tengja saman hugmyndir. Ég las, hlustaði, teiknaði, ferðaðist og viðaði að mér miklu af upplýsingum á þessum tíma. Þegar ég fór til Helsinki árið 2014 tók ég enn eitt skrefið í óvissuferðinni sem ég upphaflega lagði í. Það má segja að það sem hafi verið eftir hjá mér hafi verið ein lítil formeining, smáögn sem mér fannst vera niðurstaða fyrir mig. Fyrir mér var einingin sem samþjappaður sannleikur úr öllu því sem ég hafði lært frá upphafi. Það var gott að koma til Finnlands í jarðarorkuna þar, næðið var mikið og gott að tengjast inn í vinnuumhverfi verkfræðinga. Þegar ég horfi til baka skil ég að erfitt innra ferðalag og öll þessi vinna var nauðsynlegur hluti af stóru myndinni og í raun nauðsynlegur undirbúningur fyrir Primitivu-verkefnið.“

Á Hönnunarvikunni í Helsinki 2013 urðu ákveðin þáttaskil þegar Katrín kynntist Kivi Sotomaa, stofnanda og hönnunarstjóra við stafrænu rannsóknarstofurnar í Aalto-háskólanum, Digital Design Laboratory (ADD). Í framhaldinu lagði Katrín hugmyndir sínar að þróun formheims út frá smáeiningunni, Primitivu, fyrir ADD. Hugmyndir Katrínar fólust í því að nýta eininguna til að hlutgera heimspekileg hugtök og hanna gripi í gegnum tækni þrívíddarprentunar. Hún var strax hvött til þess að sækja um rannsóknarstöðu hjá ADD og eftir að hafa hlotið rannsóknarstyrk frá Hönnunarsjóði Íslands hélt Katrín út til Helsinki.

Katrin-Olina-Primitiva-Portraits (11 of 11)_small

Katrín Ólína við 3D prentarana í Aalto-háskólanum í Helskinki

Allt er tengt

Á rannsóknarstofu ADD tók Katrín strax að þróa aðferðafræði og vann á forrit sem eru notuð í arkitektúr og leikja- og hreyfimyndagerð. Útgangspunkturinn var alltaf einingin Primitiva sem er í lögun eins og þrívíð S-laga kúrva. Í tölvu- og forritunarmáli er talað um að primitive sé ákveðinn grunnur til að byggja á. Orðið primitiva kemur úr latínu og er kvenkyns mynd af orðinu primitivus sem vísar í það sem er upphaflegt – jafnvel frumstætt. Katrín þróaði aðferð sem beindist að því að líkja eftir ferlum í náttúrunni. Hún vann með endurtekningu og rytma og þróaði þannig aragrúa af þrívíðum byggingamynstrum eða formgerðum sem hún nýtti fyrir verndargripina. Hún segist fljótt hafa byrjað að beygja reglur forritsins og finna sínar leiðir og að það hafi haft mikil áhrif á þróun verkefnisins. Samhliða vinnunni við tæknilega hlutann velti Katrín upp heimspekilegum spurningum um lífið á upplýsingaöld. Hún skoðaði hvernig sífellt flakk innan netheima og ofgnótt upplýsinga hefur áhrif á daglegt líf okkar, lífsreynslu og heilsu. Katrín telur að við þurfum að taka líkamann miklu meira með inn í myndina en við gerum og sjá okkur heildrænt; að við megum ekki gleyma hver við erum og hvaðan við komum og ekki missa tengslin við okkur sjálf og lífið í kringum okkur.

„Mér finnst oft eins og lífið sé leikhús og þar séum við að setja okkur í alls kyns spor og hlutverk til þess að læra að verða við sjálf. Það er mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum. Lífið er hvorki einfalt né svart og hvítt heldur er það í öllum litum. Við tengjumst öll fortíðinni í gegnum genin. Mér finnst gott að minna mig daglega á að ég sé hér, með minn tíma, lifandi vera á þessum stað sem er jörðin okkar. Þegar maður horfir inn á við stundarkorn á dag þá finnur maður margt. Á sérhverjum tíma erum við summan af sjálfum okkur og þeim sem á undan komu.“

Katrin-Olina-Primitiva-Ambient-2 (10 of 15)_small

Mynd: Sebastian Janson

Á grunni þessara hugmynda fór áherslan að beinast að Primitivu sem miðli til að horfa heildrænt á manneskjuna og tengja saman líkama, huga, orku og anda og hlusta meira á allan líkamann en ekki einblína eingöngu á höfuðið sem geymslustað viskunnar. Úr þessu varð til heilt hugmyndakerfi í kringum gripi sem hugsaðir eru sem remidíur; hlutir sem búa yfir mætti og eru ætlaðir til að tengja saman heildina. Hugmyndakerfið gerir verkefnið að heild og sameinar gripina og þau ólíku svið sem þeir standa fyrir. Það er eitthvað ótrúlega heillandi við gripina. Þeir bera með sér fortíðina og nútímann í senn eða jafnvel framtíðina og búa yfir einhverju sem snertir innri vitund og upplifun hvers og eins.

„Með hugmyndakerfinu leitast ég við að sameina ólík svið og sýna hvernig allt er tengt. Maðurinn er alltaf að leita leiða til að skilja óreiðukennda tilveruna. Það gerum við til dæmis með því að flokka, tengja saman og finna mynstur sem við getum náð utanum. Mynstur, hvort sem þau eru upplýsingar, hegðun, form eða rytmi, hjálpa okkur að byggja tilveru okkar og skilning. Ég trúi því að við séum öll miklu stærri en okkur grunar. Sameiginleg viska tengir okkur saman en við eigum til að gleyma því. Náttúran og ástin eru bestu kennararnir en listin er okkur ekki síður mikilvæg því listamaðurinn, hönnuðurinn, skáldið eða hvað sem við viljum nefna skapandi fólk, getur hjálpað til við að muna það sem við vitum en höfum gleymt.

STRUCTURE_DRAW_crop

3D teikning af meninu Stucture

Þótt gripina megi bera á sér sem hálsmen er engan veginn um hefðbundið skart að ræða heldur eitthvað miklu meira. Hér eru hlutir sem tala til notenda á mörgum sviðum og tengja yfir í margvíslegar hugsanir og heima. Að baki þeim eru djúpar pælingar og mikil rannsóknarvinna sem skilar sér í formheiminum sem gripirnir tilheyra. Leitað er fanga í þekkingu sem við höfum ýtt til hliðar, fornri visku, náttúrunni, grískri heimspeki, Eddukvæðum og ekki síst austurlenskum fræðum; því hvernig austurlensk heimspeki sameinar og lítur á heildina á meðan hin vestræna afbyggir og tekur í sundur. Hér er ekkert ósagt heldur er merking og tilgangur gripanna skýr; þeir búa yfir mætti og eru sammannlegir. Þeir hlutgera það sem kraumar innra með okkur og gefa því form og farveg. Bronsið gerir þá efniskennda og jarðneska, enda eru þeir hugsaðir sem remedíur eða hjálpartæki og auðvelda þeim sem gripinn ber að jarðtengja sig. Hver gripur hefur að geyma ákveðið þema eða lífsþrá sem viðkomandi getur tengt sig við. „Það er skalinn sem ég vann gripina á sem gerir það að verkum að þeir henta til þess að bera á sér sem skart,“ segir Katrín.

Heimur verndargripa

Til að skilja tungumál gripanna enn frekar skrifaði Katrín Ólína bókina Primitiva Book of Talismans en hún er leiðarbók um heim gripanna. Bókina skrifaði Katrín á ensku en hún er sett upp eins og gamaldags náttúrufræði- og vísindarit. Bókin gefur gripunum dýpri merkingu og gerir verkefnið að þeirri heild sem það er. Samt sem áður stendur hún líka ein og sér sem verk og gripirnir sömuleiðis. Í bókinni má sjá teikningar sem líkjast gömlum grafíkmyndum í náttúrufræðibókum þar sem uppbygging plantna er sýnd og mynstur greint. Eins má greina sterk áhrif frá galdrakverum fyrri alda enda vilja margir meina að ákveðna seiðmögnun sé jafnframt að finna í gripunum. Katrín vann teikningarnar sem línuteikningar sem keyrðar voru beint úr forritinu án nokkurrar eftirvinnslu. Í bókinni er gripunum skipt upp í fjögur ríki sem hvert skiptist síðan í þrjár ættir. Hvert ríki um sig hefur einn verndara. Ríkin fjögur eru ríki leitenda (e. seekers), ríki gerenda (e. doers), ríki elskenda (e. connectors) og ríki sjáenda (e. visionaries). Í hverju ríki eru tíu gripir sem bera heiti hugtaka sem gripurinn vísar í. Þannig má í ríki leitenda finna ferðalag, sjálfið, rætur, minni, vísindi og anda, svo nokkur dæmi séu nefnd. Textinn með hverjum grip lýsir formi og hlutverki hans og er ætlað að tengja hugmyndir og forna visku við nýja tíma.

ILLST-DOERSblack

Það næsta á döfinni hjá Katrínu Ólínu er að undirbúa sýningu verkefnisins á HönnunarMars 2016. Á komandi misserum stefnir hún á að stofna til samtals um verkefnið út frá mismunandi sjónarhornum eins og heimspeki, náttúrufræði, stærðfræði og fleiru. Hún segist hafa séð vel á þeim mörgu og mismunandi gestum sem komu í turninn í Helsinki að verkefnið hafi sterka vísun í ólík svið og hver tengi við sitt.

Það er viðeigandi að enda þetta ferðalag um hugarheim Katrínar á tilvitnun frá Sigríði Þorgeirsdóttur, heimspekiprófessor við Háskóla Íslands og gestaprófessor við Helsinkiháskóla 2014–2015:

„Katrín Ólína hefur hannað gripi sem kallast á við eitthvað í sjálfum okkur og hafa merkingu. Hún frumsýndi gripina sína í gömlum stjörnuskoðunarturni upp á hæð í miðborg Helsinki.
Gripunum var stillt upp umhverfis risastóran gamlan stjörnukíki sem opnar sýn á stjörnur, himintungl og óravíddir alheimsins. Katrín Ólína er eins og fornu spekingarnir. Ferðin út í alheiminn kallast á við ferð inn á við, inn í þann kosmos sem er okkur enn huldastur. Hin lágværa andlega bylting samtímans felst í að æ fleiri leita inn á við, til að tengja sál og líkama, líkama og náttúru, jafnvel okkur og alheiminn, til að kanna óþekktar slóðir vitundarinnar. Þó Katrín sé heilluð af vísindum og af fegurð alheimsins eru gripirnir ekki síst afrakstur ferðar Katrínar Ólínu inn á við. Hún er brautryðjandi í því að tengja saman ólík svið á þann hátt sem ekki hefur sést áður. Gripirnir skapa þannig tengsl við okkur sjálf og við eitthvað djúpt innra með okkur. Því skrautlegust erum við sjálf og skartið sem við berum getur verið í samhljómi við þá innri hljóma og í samræmi við þær innri línur sem er að finna í alheimi sálar okkar sjálfra.“

DSC00149

Stjörnukíkirinn gnæfði yfir sýningu Katrínar í gömlu stjörnuathugunarstöðinni í Helsinki (Helsinki Observatory) Mynd: Arnar Fells

Skildu eftir svar