Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Verkefnið sem hlaut fyrstu Hönnunarverðlaun Íslands

Hvergilandið

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn í nóvember á síðasta ári. Verkefnið Austurland: Designs from Nowhere hlaut verðlaunin, sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Kristalssal Þjóðleikhússins. Hönnuði og arkitekta hefur lengi dreymt um slík verðlaun, enda hefur vantað vettvang til að verðlauna og beina sjónum að því besta sem gerist í hönnun og arkitektúr á Íslandi.


Höfundar: Arnar Fells, Arnaldur Máni, María Kristín / Ljósmyndir: Brynjar S. Þrastarson og DFN

Verðlaunin voru stofnuð af Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafn Íslands. Verðlaunaféð, sem veitt var af iðnaðar- og viðski taráðuneyti Íslands, var ein milljón króna. Mikilvægi hönnunarverðlauna er augljóst enda verður samfélagið sífellt meðvitaðra um mikilvægi góðrar hönnunar fyrir menningu, samfélag og efnahagslíf. Þó má velta upp þeirri spurningu hvort hönnunargeirinn hér á landi sé hreinlega nógu stór fyrir slík verðlaun. Málið var leyst með ákvörðun um að setja allar hönnunartengdar faggreinar í sama flokk og veita aðeins ein verðlaun.

Haft var eftir dómnefndinni að við val á verðlaunahafa hefði verið leitað eftir framúrskarandi verki sem gæti staðið sem fulltrúi þess besta sem gerðist á sviði hönnunar og arkitektúrs. Í verkinu skyldi falin frjó hugsun, snjöll lausn, vönduð útfærsla og fagmennska í öllum vinnubrögðum. Þessa eiginleika má skoða með hlutlausum hætti í verkum allra hönnuða, arkitekta eða hönnunarteyma, sama hvaða fagi þau tilheyra, og þannig meta gæði hvers verks án þess að bera hring saman við hús eða flík við font.

Dómnefndin tilnefndi fjögur verkefni til verðlaunanna:

Ljósmyndastúdíó H71a

05-©-Sigurgeir-Sigurjonsson (1)

Hannað af arkitektunum Margréti Harðardóttur og Steve Christer hjá Studio Granda. Um er að ræða steinsteypta viðbyggingu við gamalt timburhús á Hverfisgötu 71 sem hýsir ljósmyndastúdíó og skrifstofu Sigurgeirs Sigurjónssonar ljósmyndara. Nýbyggingin þykir vandlega hugsuð lausn í samræmi við umhverfi sitt. Þess má geta að hún var einnig tilnefnd til Mies van der Rohe verðlaunanna 2015.

Skvís

01_o_1750_1200 (1)

Grafískt verk hannað af Sigga Eggertssyni. Sýningin, sem sett var upp í Spark Design Space, þótti sýna með einstökum hætti kraft grafískrar hönnunar og þá upplifun sem hún getur skapað. Verkið var afar litríkt og fyllti allt sýningarrýmið. Það innihélt átta andlit og var unnið eftir mynsturgerð sem einkennir verk Sigga. Segja má að áhorfendur sem gengu inn í rýmið hafi verið slegnir optískum kinnhesti.

MAGNEA aw2014

Aldis Pals. Ljosmyndari

Fatalína eftir fatahönnuðinn Magneu Einarsdóttur sem frumsýnd var á Reykjavík Fashion Festival 2014. Magnea leggur mikla áherslu á prjón í hönnun sinni og nýtir íslenskt hráefni í bland við nýstárleg efni. Nálgun hennar er fersk og byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu og tæknilegri þekkingu. Niðurstaðan þótti óvenjuleg, stílhrein og grafísk.

Austurland: Designs from Nowhere

DFN vessels by julia lohmann

Fjölþátta verkefni þar sem notast var við staðbundin hráefni og verkþekkingu. Frumkvöðlar verkefnisins eru Karna Sigurðardóttir og Pete Collard. Þau völdu fjóra hönnuði, þau Þórunni Árnadóttur, Gero Grundmann, Max Lamb og Juliu Lohmann sem unnu að sjálfstæðum verkefnum í samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki á svæðinu. Markmið verkefnisins var að skapa samfélagslegt langtímaverkefni þar sem leitað væri nýrra skapandi tækifæra á Austurlandi.

Dómnefndin var einhuga þegar kom að því að velja sigurvegarann en eins og fram kom hér að ofan var það verkefnið Austurland: Designs from Nowhere sem hlaut verðlaunin. Umkringdar styttum af gömlu meisturunum, Halldóri Laxness, Davíð Stefánssyni, Matthíasi Jochumssyni, Einari Kvaran, Guðmundi Kamban og fleiri skáldum, tóku þær Karna Sigurðardóttir og Þórunn Árnadóttir við verðlaununum fyrir hönd allra þeirra sem að verkefninu komu. Verkefnið er afar yfirgripsmikið og erfitt að útskýra í fáum orðum. HA fékk hönnuðinn og verkefnastjórann Körnu til að segja okkur nánar fá verkefninu og markmiðum þess.

_MG_4687

Hvergilandið

„Samhengi verkefnisins spratt út frá hugmynd um víðfeðman huglægan heim án sérstakrar staðsetningar. Heim sem byggir á fólki og sköpunarkrafti þess,“

segir Karna Sigurðardóttir um upphaf verkefnisins. Á fyrstu stigum segist Karna hafa verið meðvituð um að hugmyndir og markmið verkefnisins hljómuðu óraunhæf, jafnvel ævintýraleg, fyrir svæði eins og Austurland. „Svo yfirgripsmikið alþjóðlegt verkefni sprettur ekki upp af sjálfu sér en það hafðist með vinnu, eljusemi og frjórri mold Austfjarða. Það kemur kannski á óvart að þetta skyldi takast, svona á hjara veraldar, en þegar allt kemur heim og saman á réttum tíma getur allt gerst.“

Hugmyndin

Karna og Pete Collard eiga heiðurinn af því að verkefnið varð að veruleika í því alþjóðlega samhengi sem raun ber vitni. Þau kynntust fyrir tilstilli hönnuðarins Nelly Ben Hayoun sem var stödd hér á landi og vann að verkefninu Bureau Odyssey á vegum Royal College of Art og MAKE by Þorpið. MAKE er klasaverkefni sem vinnur að því að búa til sterka sameiginlega rödd til að kynna Austurland sem áfangastað fyrir skapandi fólk. Nelly og Þórunn Árnadóttir hönnuður komu austur með hóp nemenda og kennara. Karna var tengiliður þeirra og ráðgjafi á vel heppnuðu námskeiði um upplifunarhönnun þar sem tengsl voru sköpuð við heimamenn, vættir rannsakaðar og unnið að ýmsum skemmtilegum verkefnum. Nokkru síðar fór Karna sem fulltrúi MAKE á fund í London og hitti Pete, sem var þar fyrir hönd British Council. Fundurinn þróaðist fljótt yfir í samtal um William Morris, föður Arts and Crafts hreyfingarinnar. Karna og Pete áttu það sameiginlegt að hafa fallið fyrir rúmlega hundrað ára gamalli hugmyndafræði hans. „Morris trúði því að listir, hönnun og handverk ætti að vera miðpunktur menningarinnar og hluti af daglegu lífi fólks. Hann heimsótti Ísland tvisvar fyrir aldamótin 1900 og var mjög heillaður af landi og þjóð, einföldum lífsstíl Íslendinga og tengslum þeirra við umhverfi sitt,“ útskýrir Karna. Þegar Karna og Pete kvöddust eftir morgunkaffið voru þau búin að leggja grunn að samstarfsverkefni sem byggir á reynslu MAKE-verkefna annars vegar og hugmyndafræðilegum grunni Williams Morris hins vegar. Designs from Nowhere varð þannig til og hafði frá fyrsta degi sterka tengingu við Bretland sem átti eftir að verða mikill styrkur fyrir verkefnið.

hullahringur by þórunn árnadóttir

Samhengið

„Verkefnið er hálfgerð flökkukind sem einungis gat sprottið upp úr samhengi og umhverfi sem búið var að þróa á Austurlandi,“ segir Karna og útskýrir að hin fjögurra daga langa ráðstefna Make it Happen, sem haldin var víða um Austurland í september 2012, hafi verið vendipunktur fyrir verkefnið. Hún hafði áður sannfært Pete um að halda fyrirlestur um William Morris á ráðstefnunni. Í fyrirlestrinum var lögð sérstök áhersla á tenginguna við Ísland til að sýna hversu samsíða hugmyndafræði Morris og MAKE væru í raun og veru. Karna segir að á því augnabliki hafi allt komið heim og saman. Að hennar sögn er MAKE-hugmyndafræðin grundvöllur þess sem byggt er á þegar farið er inn í verkefni eins og Designs from Nowhere. Hún byggir á samstarfi og samnýtingu mannauðs og tækjabúnaðar til stuðnings staðbundinni efnisnotkun. „Þegar hugmyndafræði, alþjóðlegt tengslanet og sameiginleg trú á verkefni mætast, eins og gerðist á ráðstefnunni Make it Happen, þá magnast upp seiður sem virkar.“…

Lestu restina af viðtalinu við Körnu í fyrsta tímariti HA.

DFN-PhotoByKarna2web

Skildu eftir svar