Arkitektúr
Leave a comment

Er Reykjavík að verða fullvaxta?

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030

Íbúaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 25 þúsund fram til ársins 2030, eða um 0,9% á ári miðað við 1,6% undanfarin 20 ár. Það er því fyrirséð að vöxtur Reykjavíkur muni dragast töluvert saman á næstu áratugum.


Samantekt: Sigríður Maack

Þetta er meðal þess sem liggur til grundvallar þeirri áherslu sem lögð er á þéttingu byggðar í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030. Hið nýja aðalskipulag var gefið út í fyrra í einkar vandaðri útgáfu af bókaforlaginu Crymogeu með fjölda skýringarmynda og vel aðgengilegum texta. Útlit og uppsetning bókarinnar er unnin af vinnustofu Atla Hilmarssonar. Að baki liggur nokkurra ára upplýsingaöflun og vönduð fagleg vinna fjölda sérfræðinga. Aðalskipulag Reykjavíkur er einnig hægt að nálgast í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar en hér verða dregnir fram nokkrir helstu þættir þess.

rvk_rétt1_small

Ljósmynd : Sigurgeir Sigurjónsson

Bindandi leiðarvísir

Aðalskipulag er í eðli sínu samkomulag borgarbúa um hvernig staðið skuli að uppbyggingu borgarinnar. Í því er falin stefnumörkun sem er bindandi fyrir skipulagsákvarðanir. Eitt af þeim markmiðum sem sett voru við gerð nýs aðalskipulags var að bæta það sem stjórntæki og lögð var áhersla á að aðalskipulagið yrði almennur leiðarvísir við mótun og þróun byggðar. Öll framsetning þess miðast við að gera upplýsingar sem aðgengilegastar fyrir íbúa. Einnig urðu ýmsar breytingar á verkferlum borgarinnar, svið voru sameinuð til að efla fagleg vinnubrögð, virkt íbúasamráð var viðhaft með reglulegum opnum hverfafundum og áhersla lögð á þverpólitíska samvinnu. Nýja aðalskipulagið fjallar þar af leiðandi ekki eingöngu um hvar megi byggja og hversu mikið, heldur hvaða valmöguleikar eru í boði þegar kemur að ákvörðunum er varða þróun borgarinnar. Leitað var svara við spurningum á borð við: Hvaða skipulagskostir eru hagkvæmastir? Hvers konar hverfi viljum við skapa? Hvaða svæði viljum við vernda? Í raun fjallar nýtt aðalskipulag Reykjavíkur því um hvernig við getum gert Reykjavík að betri borg.

90/10-leiðin

Í nýju aðalskipulagi er í fyrsta sinn ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum heldur er lögð megináhersla á að vinna að þéttingu byggðar í hlutfallinu 90/10. Það þýðir að 90% nýbygginga verða innan þéttbýlissvæða borgarinnar. Hin 10% fara í að ljúka uppbyggingu í hálfkláruðum úthverfum eins og í Úlfarsárdal. Hlutfallið 90/10 byggir á niðurstöðu hagkvæmnimats sem gert var en áform um þéttingu byggðar með þessum hætti hafa þó verið gagnrýnd. Bent hefur verið á að framkvæmdir í þéttri byggð kalli á breytt verklag byggingarverktaka og hafi þar af leiðandi í för með sér aukinn byggingarkostnað.

90:10 leidin

Teikning úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 : Vinnustofa Atla Hilmarssonar

Á þeim tíma sem aðalskipulagið var unnið gegndi Páll Hjaltason stöðu formanns umhverfis- og skipulagsráðs. HA tók Pál tali og spurði hvernig borgaryfirvöld hefðu hugsað sér að framfylgja stefnunni.

„Það er ljóst að þétting byggðar verður ekki án hliðarverkana. Við nýbyggingar innan þéttbýlis er því mikilvægt að hafa alltaf til hliðsjónar markmið aðalskipulagsins um aukin gæði byggðar. Við verðum að sýna ábyrgð þegar kemur að stórum ákvörðunum sem varða okkur öll.“

Páll segir að um 90/10-leiðina hafi náðst þverpólitísk samstaða. Önnur hlutföll hafi verið skoðuð en þau hafi haft í för með sér áframhaldandi byggingu nýrra hverfa. Það hafi verið borðliggjandi að eina ábyrga leiðin, hvað varðar þætti eins og mengun og kostnað til lengri tíma litið, hafi verið að taka skref í átt að markvissri þéttingu byggðar.

Lykiluppbyggingarsvæði íbúðarhúsnæðis til ársins 2030.

Lykiluppbyggingarsvæði íbúðarhúsnæðis til ársins 2030. Teikning: Vinnustofa Atla Hilmarssonar

Hversu bindandi leiðarvísir er aðalskipulagið í raun og veru? Er ekki hætta á því að pólitískar sviptingar breyti stefnunni?

„Það er náttúrulega stórmerkilegt að náðst hafi þverpólitísk samstaða um afgreiðslu aðalskipulags. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem slíkt gerist. Það má segja að fólk hafi grafið stríðsaxirnar og hlustað hvert á annað og komist að lýðræðislegri niðurstöðu. En varðandi það hvort stefnunni verði mögulega hnikað til þá er því til að svara að við getum aldrei gert endanlegt skipulag. Þetta er eilífðarverkefni. Hins vegar er þessi vinna byggð á mikilli rannsóknarvinnu og upplýsingaöflun. Til þess að fara út í einhverja meginbreytingu í stefnumörkun yrði að færa fyrir því gild rök.“…

Viltu vita meira um framtíðarplön Reykjavíkur? Lestu alla greinina í fyrsta tímariti HA

Reykjavik - Grafarvogur

Ljósmynd / photograph : Rafael Pinho

Skildu eftir svar