Álit / pistlar, Arkitektúr, HA vefgrein
Leave a comment

Módernisminn mistókst

Magnea Guðmundsdóttir arkitekt

Ádögunum samþykkti meirihluti íbúa á Selfossi nýtt skipulag um breyttan miðbæ. Skipulagið felur í sér hugmyndir þróunarfélagsins Sigtúns um að reisa þrjátíu hús sem eru samtals rúmlega sextán þúsund fermetrar. Húsin verða í gömlum stíl eða endurbyggð gömul hús. Á vefsíðunni Miðbær Selfoss benda forsvarsmenn verkefnisins á að með því sé verið að „heiðra íslenskan byggingarstíl óháð tískusveiflum“: Það er auðvitað hægt að byggja hús í nýjum stíl, úr steypu, stáli og gleri. En við höfum hvorki áhuga eða trú á slíkum húsum. Arkitektar hanna einnig hús í klassískum eða „gömlum“ stíl. Það hefði verið einfaldara, fljótlegra og ódýrara að hanna slík hús frá grunni en við töldum heiðarlegast og fallegast að fara alla leið og endurreisa heil hús sem horfin eru og gleymd. Þannig verður til söguleg tenging og menningararfleifðin verður áþreifanlegri.

„Módernisminn mistókst“ er millifyrirsögn í grein Jóns Ólafs Ólafssonar arkitekts og verkefnastjóra um skipulag nýja miðbæjarins í Dagskránni, fréttavef Suðurlands. Á vefsíðu verkefnisins segir enn fremur: „Við höfum hvorki áhuga eða trú á slíkum húsum.” Það er ekki oft sem svo afgerandi yfirlýsing kemur fram í umræðu um arkitektúr og skipulag í dag. Hún er nokkuð sláandi og hana hlýtur að mega túlka sem áfellisdóm yfir arkitektastéttinni og nútímanum. Þýðir þetta að meirihluti þeirra íbúa sem kusu með skipulaginu á Selfossi sé sammála Jóni? Með hverju kaus meirihlutinn? Kusu íbúarnir með gömlum húsum og eru þeir þá á móti nýjum? Eða voru þeir að kjósa um loforð um 200 ný störf, iðandi mannlíf, ísbúð, mathöll og tónleikastað sem fyrirhugað er að rísi innan þriggja ára?

Fyrirhugaður nýr miðbær blasir við þegar keyrt er inn í bæinn frá Ölfusárbrú.
Mynd: Batteríið arkitektar.

Að gefast upp á samtímanum

Deilt hefur verið um skipulagið og íbúarnir knúðu sjálfir fram kosningu um málið. Disney-væðing eða útgáfa af Las Vegas, án spilasala, er meðal þess sem skipulagið hefur verið kallað. Dregnar verða upp gamlar teikningar af húsum sem einu sinni stóðu á öðrum stöðum, í öðrum landshlutum, og byggt eftir þeim á nýjum stað, í einni þyrpingu. Það eru vissulega hlutir í skipulaginu sem ríma við hugmyndir um skemmtigarð.

Hafi módernisminn mistekist, er þá svarið að gefast upp á samtímanum og leita í 100 ára gamla byggingarlist? Þéttbýlismyndun á Selfossi hófst með tilkomu Mjólkurbús Flóamanna og Kaupfélags Árnesinga um 1930. Selfoss er því bær sem hefur svo sannarlega byggst upp á módernískum tímum. Fyrsti kaupfélagsstjórinn lét reisa húsið Sigtún, sem þróunarfélagið nefnir sig eftir. Það var íbúðarhús, byggt árið 1934, í síðfúnkís- eða módernískum stíl. Önnur bygging frá þessum tíma er Mjólkurbú Flóamanna, teiknað af Guðjóni Samúelssyni, en hún var rifin til að rýma fyrir nýju mjólkurbúi á árunum 1954–1955. Nú verður nákvæm eftirlíking af byggingu Guðjóns reist í nýjum miðbæ Selfoss. Flest hin húsin í nýja miðbænum verða timburhús eða bárujárnshús í gömlum stíl, sem er í raun mjög fágætur á Selfossi.

Í miðbæ Selfoss er gert er ráð fyrir uppákomum, listaverkum, leiktækjum á nýjum torgum.
Mynd: Batteríið arkitektar.

Byggingar í búningum

Í dag heyrir maður oft þá kröfu að nýjar byggingar eigi að taka mið af því sem fyrir er. Það á að byggja á þeim staðaranda sem er fyrir. Fyrirhugaður nýr miðbær Selfoss, timburhúsaþyrpingin, hefur lítið með staðaranda bæjarins að gera. Áætlanir um nýjan miðbæ Selfoss eru vissulega forvitnilegar, vekja upp spurningar en líka tilfinningar. Spurningarnar eru fleiri en svörin. Ef hægt er að reisa lítið þorp á Selfossi sem hefur ekkert með staðinn að gera, er eitthvað sem stoppar okkur í því að reisa það aftur og aftur? Á öðrum stöðum? Til hvers erum við þá að hanna og teikna alltaf upp á nýtt? Þurfum við arkitekta eða hönnuði yfirleitt? Hefði þessi uppbygging komið til ef ekki væri fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem keyra í gegnum bæinn og staldra fæstir við? Fyrir hvern er verið að byggja? Með hvaða aðferðum verða hús í gömlum stíl byggð? Gömlum aðferðum? Verða klósettin og vaskarnir líka í gömlum stíl? Skiptir það máli?

„Módernisminn mistókst,“ segir Jón Ólafur Ólafsson og er líklega ekki einn um þá skoðun. Á höfuðborgarsvæðinu í dag má sjá byggingarkrana úti um allt. Breytingar á borgarumhverfinu eru gríðarlegar og eðlilega er fólk mishrifið af því sem nú rís allt í kringum okkur. Við erum að byggja stærra og hærra og krafan um að halda kostnaði í lágmarki heyrist oft. Byggingariðnaðurinn er jú eins og flestur iðnaður, hagnaðardrifinn. Á móti kemur krafan um að ný byggð eigi að falla að umhverfinu en stórir fletir nýbygginga ríma illa við gömlu bárujárnshúsin. Framkvæmdaaðilar, hönnuðir og borgaryfirvöld eru meðvituð um þessar kröfur og reyna að bregðast við þeim.

Við Hverfisgötuna stendur nú hótel á stað sem áður var kenndur við Hjartagarð. Hverfisgata 30, 32 og 34 eru þrjár byggingar sem eru byggðar sem eitt hótel. Það eru brunagaflar á milli þeirra en þær voru byggðar á sama tíma, af sömu aðilum og hýsa sömu starfsemi. Utan frá séð eru húsin þrjú með mismunandi klæðningu, í mismunandi lit og svolítið í stíl við gömlu bárujárnshúsin. Þetta eru nýjar byggingar, byggðar með nýjum aðferðum og nýjum efnum en klæðningin og útlitið er í gömlum stíl. Sömu sögu má segja um hótel sem á að rísa á horni Lækjargötu og Vonarstrætis. Um atburðarásina verður ekki tíundað hér en aðrir arkitektar hafa tekið við verkefninu. Nú er hótelið teiknað með margar framhliðar, klæddar með mörgum mismunandi efnum og uppbroti í gluggasetningu. Það mætti segja að byggingin sé að villa á sér heimildir með því að þykjast vera margar byggingar.

Ein bygging en margar framhliðar hótelsins við Lækjargötu, sem er nú í byggingu.
Mynd: Atelier arkitektar.

Gömlu Rammagerðina sem stóð við Hafnarstræti í Reykjavík þurfti að rífa því byggingin stóðst ekki kröfur nútímans og hentaði ekki áætlaðri starfsemi. Í staðinn var steypt hús í nákvæmlega sömu mynd, á sama stað. Er það heiðarlegt? Hvers virði er að byggja heiðarlega og hvað þýðir það? Eins og Jón Ólafur bendir á hanna arkitektar oft ný hús í „gömlum” stíl og það er líklega einfaldara og ódýrara. En fyrir miðbæ Selfoss töldu arkitektarnir „heiðarlegast og fallegast að fara alla leið og endurreisa heil hús sem horfin eru og gleymd. Þannig verður til söguleg tenging og menningararfleifðin verður áþreifanlegri.”

Útlit hótelsins sem á að rísa á horni Lækjargötu og Vonarstrætis, séð frá Lækjargötu.
Mynd: Atelier arkitektar.

Glötuð gildi?

Ef módernisminn mistókst og helstu stílbrögð arkitekta í dag eru að reyna að fela raunverulegt umfang og samtíma bygginga, hver er þá stefnan? Hver er sýn okkar arkitekta? Erum við svo upptekin af því að gera öllum til geðs að við höfum týnt sýninni? Þegar talað er um nýjar byggingar eða hönnuðir tjá sig um stefnu sína koma upp orðin nútímalegt, vistvænt og kannski hagkvæmt. Orðin lífsgæði, lifandi hverfi og tengsl við náttúruna eru líka algeng. Allt lýsir þetta góðum gildum sem auðvelt er að taka undir. Bara eðlilegar kröfur sem í raun og veru hafa alltaf átt við.

„Módernisminn mistókst“ er setning sem ég get ekki tekið undir. En ég get tekið undir það að eitthvað mistókst. Módernisminn var bylting í hugmyndafræði á umbrotatímum. Allt var hugsað upp á nýtt og gerð krafa um að hlutir yrðu gerðir í takt við samtímann. Vandaðar byggingar í dag eru allt of fáar. Það sem þykir vel heppnað fær yfirleitt mestu umfjöllunina en hitt er sjaldnast rætt á faglegum vettvangi. Ef verkið væri flokkað sem myndlist, leiklist eða skáldsaga er líklegra að það væri rætt í kjölinn í sjónvarpsþáttum, á fundum og skrifaðar um það greinar. Með slíkri umræðu væri hægt að gera betur og þróa sameiginlega sýn. Þannig væri borin virðing fyrir viðfangsefninu.

Módernisiminn mistókst ekki heldur mistókst okkur að vinna úr honum, okkur mistókst að halda gildum hans á lofti. Okkur mistókst að vera vakandi og vanda okkur. Okkur mistókst að horfast í augu við það sem illa er gert og reyna að bæta okkur. Okkur mistókst að spyrja okkur í hverju gæðin felast og hvernig hægt sé að framfylgja metnaðarfullum hugmyndum, ekki bara einstaka sinnum heldur alltaf.

Nýtt skipulag fyrir miðbæ Selfoss endurspeglar kannski þessa krísu. Í krafti markaðsaflanna er búin til söluvara. Er það ef til vill í lögmálum markaðarins sem heiðarleikinn birtist? Framboð og eftirspurn í boði þróunarfélags? Það er leiðindamál að hér rísi allt of mikið af metnaðarlausum og óspennandi byggingum. Ég myndi samt taka módernismann og allar þær misgóðu hugmyndir sem honum fylgdu fram yfir að vera föst í fortíðinni.

Magnea Þ. Guðmundsdóttir er arkitekt, stofnandi Teiknistofunnar Stiku og umsjónarmaður Aðfararinnar, hlaðvarpsþáttar um skipulagsmál á Kjarnanum.

Greinin var uppfærð 06.11.2018.

 

Skildu eftir svar