Álit / pistlar
Leave a comment

Hlemmur

Biðskýlið við Hlemm hefur verið umdeilt frá því það var byggt árið 1978. Draumurinn um að þar yrði líflegt og bjart markaðstorg snérist fljótt upp í andhverfu sína og Hlemmur varð einn þekktasti samkomustaður pönkara og utangarðsfólks í miðbæ Reykjavíkur. Hið sérstæða hús, sem teiknað var af Gunnari Hanssyni, gekk nýverið í endurnýjun lífdaga og hýsir nú matarmarkaðinn Hlemm – Mathöll. Bjarki Vigfússon rekur hér áhugaverða sögu Hlemmtorgs.

Veitingasala við Hlemmtorg hófst fyrir meira en 100 árum
Árið 1904 reis hús við Hverfisgötu 125 sem kallað var Norðurpóllinn en í því var frá upphafi veitingasala fyrir ferðalanga sem þar áttu leið um. Svæðið í kringum Hlemm markaði þá nokkurn veginn borgarmörk Reykjavíkur í austri en byggðin var þá enn nær öll vestan Hlemms. Ferðalangar sem komu til borgarinnar úr austri, eða voru að yfirgefa borgina, fóru því um Hlemm og aðalleiðin austur í Þvottalaugarnar lá þarna um. Hlemmtorg hefur því verið áningarstaður og tengipunktur í samgöngukerfi Reykjavíkur allt frá 19. öld. Sagt er að Hlemmur hafi á þessum tíma einnig verið vinsæll áfangastaður ungra elskenda í borginni sem þangað fóru í „langar göngur.“ Norðurpóllinn hefur undanfarin ár verið í geymslu á vegum Reykjavíkurborgar. Þetta gamla timburhús var farið að láta á sjá en hefur nú verið gert upp og er væntanlegt aftur til upprunans í öllum skilningi. Því verður líklega stungið niður í grennd við Hlemm á næstu misserum en fyrirhugað er að í því verði veitingasala af einhverjum toga.

Vatnsþróin og Klyfjahesturinn
Allar samgöngur kalla á eldsneyti af einhverju tagi og árið 1912 reis við Hlemmtorg vatnsþró til brynningar hestum. Hestarnir voru fararskjóti og vöruflutningabílar þessa tíma og vatnsþróin var því ígildi bensínstöðvar við stofnæð í samgöngukerfi borgarinnar. Austast á Hlemmtorgi má í dag líta áhrifaríkan minnisvarða um ferðir og vinnuþrek hestanna, og hlutverk Hlemmtorgs sem tengipunkts í frumstæðu samgöngukerfi landsins á þessum tíma, Klyfjahestinn eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara. Síðar, þegar vatnsþróin var orðin óþörf og bíllinn varð þarfasti þjónn Reykvíkinga, reis reyndar bensínstöð British Petroleum á Hlemmtorgi en hún er auðvitað löngu horfin líka.

Brúin Hlemmur
Nafnið Hlemmtorg var dregið af brú á Laugavegi sem lá yfir Rauðarárlæk og kölluð var Hlemmur. Rauðarárlækur rann þá í átt til sjávar rétt vestan við þar sem nú er Rauðarárstígur, þvert yfir Laugaveginn. Brúin var reist árið 1885 og vísar nafnið sem við hana festist til þess að hún þótti ekki merkileg smíð, (sbr. orðið potthlemmur). Það er þó ekki fyrr en í seinni tíð að torgið allt og svæðið þar í kring var kennt við brúna Hlemm en orðfærið „vatnsþróin“ var frekar notað um þetta svæði. Eftir að strætisvagnar fóru að stoppa við Hlemm kölluðu vagnstjórarnir jafnan upp „Vatnsþró!“ þegar þar var numið staðar.

Bílar og strætisvagnar leysa hestalestirnar af
Frá Hlemmi þandist borgin út til austurs. Stærri, fjölmennari og dreifðari borg kallaði á almenningssamgöngur og í október 1931 fór fyrsti strætisvagninn að keyra um Reykjavík. Leið 1 var með endastöð á Hlemmi en aðalskiptistöðin var þá við Lækjartorg.

Á þessum tíma voru bílaumboð og verkstæði í mörgum húsum í nágrenni Hlemms og á torginu miðju reis svo lítið hús þar sem Hreyfill var til húsa og bílastæði fyrir leigubíla. Hlemmur var nokkurs konar fæðingarstaður bílsins í Reykjavík og þaðan óku þeir um borgina eftir að hafa verið settir saman eða lappað hafði verið upp á þá í húsunum við Hlemmtorg. Bílnum og hugmyndinni um bílinn fylgdi síðan mikil samgöngu- og hugarfarsbylting sem gjörbreytti skipulagi Reykjavíkur og ýtti undir óhóflega útþenslu borgarinnar til austurs næstu áratugi. Bílaborgin Reykjavík varð til og festist í sessi með alræmdu skipulagi á sjöunda áratugnum. Þessi mikli „bílabisness“ sem byggðist upp við Hlemm eftir seinni heimsstyrjöld er nú smám saman að hverfa þaðan og færast austar í borgina.

Fram eftir miðri 20. öld stóð Gasstöðin norðan við Hlemm, þar sem lögreglustöðin er nú. Hún hóf starfsemi 1910 og framleiddi gas úr innfluttum kolum en henni var lokað á sjötta áratugnum. Það sem eftir er af henni er íbúðarhús og skrifstofa stöðvarstjórans, Hverfisgata 115, þar sem nú er frumkvöðlasetur á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Hús Gunnars Hanssonar rís við Hlemm
Á fyrri hluta áttunda áratugarins var ákveðið að færa miðstöð Strætisvagna Reykjavíkur að Hlemmtorgi. Gunnar Hansson arkitekt var fenginn til að teikna miðstöðina og vann það verk á árunum 1973–1974. Húsið var byggt nokkru síðar og tekið í notkun 1978. Nú tæpum 40 árum síðar gera fæstir sér grein fyrir sérstöðu þess í byggingarsögu Reykjavíkur. Í umræðum um skipulagsmál miðbæjarins á síðustu árum hefur jafnvel verið kallað eftir því að það verði rifið. Ýmis mistök í skipulagi umhverfis, breytingum innanhúss og nýtingu hússins síðustu áratugi, til viðbótar við þá neikvæðu stimplun sem Hlemmur og nágrenni hafa mátt bera í áratugi, hafa valdið þeim misskilningi að hér sé einhver gallagripur á ferð. Því fer þó fjarri.

Árið 1978 hlaut Gunnar Hansson Menningarverðlaun Dagblaðsins fyrir biðskýlið við Hlemm en dómnefnd taldi það merkasta framlagið til íslenskrar byggingarlistar það árið. Einhverjum kynni að þykja Menningarverðlaun Dagblaðsins lítilfjörleg en dómnefndin hitti nú samt sennilega naglann á höfuðið. Henni þótti „biðskýlið mjög athyglisvert framlag til þess að nýta þessa sérstöðu okkar“ og vísaði þá til þess að hér væri „um algerlega nýja tegund af byggingu að ræða […], sem gefur fólki möguleika á því að hittast, verzla og bíða eftir vögnum í hlýju, aðlaðandi og gróðursælu umhverfi, hvernig sem viðrar.“

Áningarstaðurinn Hlemmi
Í þessu áliti sínu vísar dómnefndin til þess að Hlemmur var sannarlega yfirbyggt markaðstorg sem hýsti fjölda ólíkra verslana í opnu markaðsfyrirkomulagi. Þegar húsið var tekið í notkun undir nafninu Áningarstaðurinn Hlemmi árið 1978 var þar blómaverslun, blaða- og ritfangaverslun, snyrtivöruverslun, skartgripaverslun, leikfangaverslun, ísbúð og sjoppa. Húsið átti að vera gróðursælt og stór svæði fóru undir lifandi plöntur í beðum, mikil dagsbirta lék um húsið og gluggarnir stóru sem mynda útveggi hússins tengdu starfsemina inni við lífið á götunum í kring. Síðar mátti húsið þola röð mistaka, notkun þess var í raun breytt, flestar verslanirnar hurfu, gluggar voru skyggðir með auglýsingum og gróðurinn fjarlægður. Pétur H. Ármannsson hefur bent á að biðskýlið við Hlemm sé hannað í anda svokallaðs „high-tech“ stíls áttunda áratugarins. Slík hús einkennast af notkun fjöldaframleiddra eininga, svo sem stálgrindarburðarvirkja og glers, og þau eru sett saman á staðnum. Burðarvirki er gjarnan sýnilegt og jafnvel í forgrunni bygginga í þessum stíl og lagnir eru hafðar sýnilegar. Stóru gulu loftræstistokkarnir á Hlemmi eru gott dæmi um þetta. Frægar byggingar í þessum stíl sem margir þekkja eru safnahúsið Centre Pompidou í fjórða hverfi Parísar og hinir föllnu tvíburaturnar World Trade Center í New York.

Hlemmarar
Segja má að þessi tilraun, að búa til litla verslunarmiðstöð á Hlemmi á áttunda áratugnum, hafi mistekist hrapallega. Hlemmur þróaðist fljótt úr því að vera bjart markaðstorg yfir í hráa og gráa biðstöð þar sem skuggar og myrkur léku stærra hlutverk en þeim var ætlað. Verslun gekk illa og Hlemmur varð fljótt samkomustaður ungmenna, sem mörg hver féllu utan meginstraums, og annarra sem utangarðs voru í samfélaginu, enda áttu þau í fá önnur hús að venda. Tveir af ólíklegustu en jafnframt áhrifamestu stjórnmálaleiðtogum íslensku þjóðarinnar eftir Hrun, þau Jón Gnarr og Birgitta Jónsdóttir, voru í hópi ungmenna sem fengu stimpilinn Hlemmarar. Stórkostleg heimildarmynd Ólafs Sveinssonar frá árinu 2002, sem heitir einfaldlega Hlemmur, fangar á einstakan hátt brot úr sögu nokkurra einstaklinga sem höfðu gert Hlemm að föstum punkti í tilveru sem erfitt reyndist að fóta sig í.

Endurreisn Hlemms
Í nýafstöðnum breytingum á Hlemmi var litið aftur til allra höfuðeinkenna hússins þannig að arkitektúr og fagurfræði byggingarinnar fengi notið sín á ný. Þá var einnig litið til upphaflegra áætlana arkitektsins um að húsið yrði bjart en yfirbyggt markaðstorg í borg þar sem mannlíf á götum úti er lítt eftirsóknarvert vegna veðurs stóran hluta ársins. Helga Gunnarsdóttir arkitekt, dóttir Gunnars Hanssonar, hafði umsjón með endurhönnun og endurskipulagningu hússins. Eftir breytingar eru rauðlitaða stálkonstrúktsjónin sem myndar burðarvirki hússins og stóru loftræstistokkarnir, sem þó eru í nýjum grá-bláum lit, auðvitað áfram í aðalhlutverki og rauðbrúnu flísarnar sitja sem fastast á gólfinu. Þá hefur mikilvæg symmetría verið endurheimt í skipulagi, hönnun og notkun hússins og dagsbirtu aftur hleypt inn. Hlemmur er aftur orðinn yfirbyggt torg þar sem starfsemin inni og mannlífið úti mætast.            

Nýr miðbær – nýr Hlemmur
Í hinni nýju mathöll á Hlemmi eru ólíkir rekstraraðilar með fasta starfsemi og húsið er opið alla daga frá morgni til kvölds. Þar er hægt að kaupa nýtt íslenskt grænmeti, kryddjurtir, ávexti og blóm, nýbakað súrdeigsbrauð, nýristað kaffi, ís og sætindi, víetnamskan og mexíkanskan götumat og gæða sér á ýmsum smáréttum og veitingum, smurbrauði og drykkjum í úrvali. Íslensk hráefni og hefðir eru innblástur en alþjóðlegt yfirbragð og fjölmenning er einnig í forgrunni. Til viðbótar verða haldnir markaðir á torginu við Hlemm, einkum um helgar á sumrin og í aðdraganda jólanna, auk fjölbreyttra matartengdra viðburða innandyra allt árið um kring. Hlemmur á ekki bara að vera biðstöð og tengipunktur heldur aðdráttarafl og áfangastaður fyrir alla sem hafa áhuga á mat, mannlífi og lifandi borgarmenningu.

Hlemmur er hluti af þróunar- og samgönguás borgarinnar sem skilgreindur er í aðalskipulagi. Engu að síður er gert ráð fyrir að aðalstoppistöð Strætó flytjist af Hlemmi á BSÍ á næstu árum en þá verður mögulegt að endurskipuleggja Hlemmtorg þannig að auðga megi mannlífið þar enn frekar og stækka það rými sem ætlað er undir gangandi vegfarendur. Svæðið í kringum Hlemm er að taka nokkuð örum breytingum og á næstu árum mun uppbygging á Barónsreit og áframhaldandi uppbygging og jákvæð þróun Hverfisgötu vonandi skerpa frekar á tengingu þess við miðbæinn. Það er líka margt annað áhugavert í mat og matargerð að gerast í kringum Hlemm. Við Þverholt 7 er til að mynda einstök verslun með krydd, te og aðra sælkeravöru sem á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Opnun mathallarinnar á Hlemmi er líkleg til að leika stórt hlutverk í áframhaldandi andlitslyftingu þessa svæðis og marka kaflaskil í langri og merkilegri sögu þess.

Við vinnslu greinarinnar var meðal annars stuðst við samantekt Jóns Guðmundssonar arkitekts á sögu Hlemms, sem tekin var saman fyrir Reykjavíkurborg, Húsakannanir Minjasafns Reykjavíkur, úttekt Trípólí arkitekta á Hlemmi fyrir Reykjavíkurborg og fjölda eldri greina úr dagblöðum.


Höfundur : Bjarki Vigfússon / Ljósmyndir : Hlemmur Mathöll,  Reykjavíkurborg, Tripóli Arkitektar
Teikningar unnar af Teiknistofu Gunnars Hanssonar

Skildu eftir svar