Álit / pistlar
Leave a comment

Takið ykkur stöðu

Dagskrá HönnunarMars komin á netið

Dagskrá HönnunarMars er komin á netið. Það er úr mörgu að velja og líklegt að hönnunarunnendur fái valkvíða. HA mælir með því að fólk lesi vandlega yfir dagskrána og búi sér til gott plan fyrir dagana 10.-13. mars.

Dagskrána er að finna á heimasíðu HönnunarMars

… og nokkur orð frá HönnunarMars teyminu:

HönnunarMars er skilgetið afkvæmi kreppu. Við höfum nýtt tímann. Það hefur verið gaman. Sérlega lærdómsríkt en líka erfitt. Við höfum unnið rosalega mikið, hannað, prófað, rannsakað, tekið áhættu, sameinað, mistekist, grátið, reynt aftur og hlegið. Aldrei gefist upp. Enda tekur tíma að breyta áherslum í atvinnulífi, menningu og samfélagi. Það er tímafrekt að sýna fram á að nýjar spurningar, áherslur og aðferðir séu leiðin fram á við. Við hönnuðir og arkitektar kunnum nýjar aðferðir.

Það er búið að leggja ómælda vinnu, tíma og orku fjölda hönnuða og arkitekta í verkefni og uppbyggingu. Yfir 1000 hönnuðir og arkitektar eiga Hönnunarmiðstöð Íslands í gegn um félögin sín. Þar hafa 30 manns unnið, 15 starfsnemar hafa tekið þátt og 40-50 manns hafa setið í stjórnum og ráðum á hennar vegum. Hópurinn sem hefur tekið þátt í stefnumótun, verkefnum, ráðstefnum, viðburðum, sýningum hér á landi og erlendis er talinn í hundruðum. Góð fyrirtæki, stofnanir og framsýnir stjórnmálamenn hafa lagt okkur lið.

Í kreppunni höfum við eignast HönnunarMars, hönnunarsjóð, Hönnunarverðlaun Íslands, HA – tímarit um hönnun og arkitektúr, hönnunarstefnu stjórnvalda 2014-2018, og unnið verkefni erlendis; Icelandic Contemporary Design, Nordic Design Lunch og WE LIVE HERE. Þar að auki eigum við Hönnunarmiðstöð, vefi, fréttaveitur og margvísleg tól og tæki sem virka vel og auðvelt er að efla. Samt erum við bara rétt að byrja, 8 ára með vaxtaverki, á leiðinni á HönnunarMars.

Kreppan er búin og margt hefur breyst. Við klúðruðum ekki krísunni.

Kæru vinir, upplifum, njótum og höldum áfram að breytast.

Gleðilegan HönnunarMars!

p.s. okkur vantar nýtt hús og fleiri kaffibolla.

Skildu eftir svar