Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Fljótandi fegurð

Ný flothetta unnin í samstarfi við Sigga Eggertsson

Flothettan frá Float hefur fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af fjölbreyttri sundmenningu þjóðarinnar. Ný útgáfa af flothettunni, sem unnin er í samstarfi við Sigga Eggertsson hönnuð og listamann, verður kynnt til sögunnar í Spark Design Space næstkomandi föstudag kl. 17:00. HA fékk Unni Valdísi, vöruhönnuð og höfund flothettunnar, til að segja frá tilkomu samstarfsins, heilnæmum áhrifum flotsins og mögnuðum reynslusögum frá fljótandi fólki um allan heim.

Samantekt: María Kristín Jónsdóttir / Myndir: Gunnar Svanberg, Eyþór Árnason og Alv Péerz


_H5A9798

Samflot á viðburðinum Overlap í Sundhöll Reykjavíkur. Ljósmynd: Alv Péerz

Nýja flothettan er myndskreytt af Sigga Eggertssyni, einum þekktasta hönnuði landsins, hvernig kom samstarfið til?
Kveikjan að nýrri útgáfu flothettunnar var ánægjulegt samstarf okkar Sigga á síðastliðnum HönnunarMars. Þá vorum við pöruð saman á frekar óvæntan og tilviljanakenndan hátt og úr var viðburðurinn Overlap sem við stóðum fyrir í Sundhöll Reykjavíkur. Þar fundum við samhljóm og tengingu í verkum okkar sem varð til þess að flothettuna prýða nú vatnskennd og flæðandi munstur Sigga. 

_YA_93902015050313_HönnunarMars_Overlap_EÁ_WEB

Hafsjór lita, forma og tóna tóku á móti gestum Sundhallarinnar þegar Saver Screensson var varpað út í rýmið og fljótandi líkamar með flothettur og fótaflot liðu um laugina í leikandi þyngdarleysi vatnsins.

Eigum við von á fleiri útgáfum af flothettunni á næstunni?
Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að bæta við nýjum gerðum af hettum án þess að eldri útgáfur hætti endilega í framleiðslu. Okkur þykir spennandi að leita til ólíkra aðila með samstarf í huga og það er von okkar að flothettur framtíðarinnar verði strigi fyrir hönnuði og listamenn til áhugaverðra verka.

Nú eru sífellt fleiri sem njóta þess að fljóta um í sundlaugum landsins og víðar. Getur þú útskýrt þessar vinsældir samflotsins?
Ég hef heyrt ótal sögur af fólki sem upplifir að í slökuninni og hvíldinni fái það lausn á vandamálum sem það hefur verið að kljást við. Það er nefnilega svo magnað hvað gerist þegar við stígum út úr hvirfilbyl hugsanaflóðsins og gefum okkur stund í kyrrð.

Hvar er hægt að taka þátt í samfloti og öðrum viðburðum tengdum flothettunni?
Samflotið hefur notið mikilla vinsælda og er nú haldið reglulega í átta sundlaugum víða um land. Samhliða því er reglulega staðið að viðburðum á borð við sveita-samflot, fljótandi tónupplifun og fljótandi gongslökun. Ferðamenn hafa líka uppgötvað flotið í gegnum skipulagðar ferðir innan ferðaþjónustunnar og það er mikil aðsókn í norðurljósa-flot sem fer fram í Gömlu lauginni á Flúðum.

©Photo_Gunnar_Svanberg_float1_net

Fljótandi í Gömlu lauginni á Flúðum. Mynd: Gunnar Svanberg

Þú hefur líklega flotið á mörgum ólíkum stöðum vítt og breytt um landið, áttu þér uppáhalds flotstað?
Ég á magnaðar minningar af floti í jarðböðunum á Mývatni, Frost og Funa í Hveragerði og Lýsuhólslaug á Snæfellsnesi en uppáhalds flotstaðurinn minn er líklega Gamla laugin á Flúðum. Hún er heit og notaleg náttúrulaug með miklu rými til að fljóta og njóta.  

Heilnæmi flotsins og jákvæð upplifun þeirra sem það stunda virðist vera óumdeilanleg, en hver er magnaðasta flot sagan sem þú hefur heyrt?
Ég hef heyrt margar skemmtilegar flotsögur í gegnum tíðina. Ein þeirra er af ellefu ára dreng sem hefur gríðarlegan áhuga á geimvísindum og hafði lengi dreymt um að fá að svífa um í þyngdarleysi. Hann lét drauminn rætast í samfloti og dró foreldra sína og ömmu og afa með. Fjölskyldunni líkaði svo vel að nú er flotið regluleg samverustund þeirra allra. Önnur mögnuð reynslusaga barst mér frá konu í Kanada. Hún flaut um á vatni nálægt heimili sínu þegar tvær drekaflugur settust á nefið á henni og hófu þar ástarleik. Henni fannst þetta vera ógleymanleg stund þar sem hún rann saman í órjúfanlega heild við náttúruna.

11165315_898205463569543_7831829004608265468_n

Ný útgáfa flothettunnar verður kynnt með pompi og prakt í Spark Design Space, Klapparstíg 33, föstudaginn 6. nóvember kl. 17:00. Nálgast má allar upplýsingar um viðburði og dagskrá samflota á Facebooksíðu Float: https://www.facebook.com/flothetta/

hettur_fotaflot_siggi

Skildu eftir svar