Álit / pistlar
Leave a comment

HA10 er komið út

Útgáfa 10. tölublaðs HA markar fimm ára afmæli tímaritsins sem eru merk tímamót í útgáfu fagrita um íslenska hönnun og arkitektúr.

Meðal efnis er umfjöllun um Hönnunarverðlaun Íslands 2019, þar á meðal viðtal við vinningshafana hjá Genki Instruments, heiðursverðlaunahafann Manfreð Vilhjálmsson arkitekt og Omnom sem hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

Þá svarar fagfólk úr vöru- og iðnhönnunargeiranum áleitnum spurningum og veltir fyrir sér hlutverki hönnunar og styrkleikum á umbreytingatímum. Bára Hólmgeirsdóttir í Aftur, sem nýverið hlaut tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, talar tæpitungulaust um textílsóðaskapinn og vitundarvakningu hönnuða og neytenda. Búi Bjarmar Aðalsteinsson hönnuður hjá Grallaragerðinni og Eva Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Unicef segja frá því hvernig mannmiðuð hönnun nýtist til að bæta móttöku barna á flótta. Eigendur hönnunarstofunnar Kolofon segja frá aðferðafræði og verkefnum sínum sem mörg hver hafa víða snertifleti við samfélagið og rithöfundurinn Auður Jónsdóttir skrifar um hið sístækkandi samfélag í kringum flothettuna. Landslagsarkitektar hjá Landmótun og borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg ræða um enduruppbyggingu í miðborgarinnar og Guðmundur Oddur Magnússon skrifar um íslenskan sjónarf. Fyrsti hönnuður HA, grafíski hönnuðurinn Hrefna Sigurðardóttir, stýrir myndaþætti og forsíðu í samstarfi við Axel Sigurðarson ljósmyndara.

Allt þetta og marg margt fleira í nýjasta tölublaði HA sem fæst í öllum helstu hönnunar- og bókaverslunum landsins. 

 

Skildu eftir svar