Author: HA magazine

Fljótandi fegurð

Ný flothetta unnin í samstarfi við Sigga Eggertsson

Flothettan frá Float hefur fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af fjölbreyttri sundmenningu þjóðarinnar. Ný útgáfa af flothettunni, sem unnin er í samstarfi við Sigga Eggertsson hönnuð og listamann, verður kynnt til sögunnar í Spark Design Space næstkomandi föstudag kl. 17:00. HA fékk Unni Valdísi, vöruhönnuð og höfund flothettunnar, til að segja frá tilkomu samstarfsins, heilnæmum áhrifum flotsins og mögnuðum reynslusögum frá fljótandi fólki um allan heim. Samantekt: María Kristín Jónsdóttir / Myndir: Gunnar Svanberg, Eyþór Árnason og Alv Péerz Nýja flothettan er myndskreytt af Sigga Eggertssyni, einum þekktasta hönnuði landsins, hvernig kom samstarfið til? Kveikjan að nýrri útgáfu flothettunnar var ánægjulegt samstarf okkar Sigga á síðastliðnum HönnunarMars. Þá vorum við pöruð saman á frekar óvæntan og tilviljanakenndan hátt og úr var viðburðurinn Overlap sem við stóðum fyrir í Sundhöll Reykjavíkur. Þar fundum við samhljóm og tengingu í verkum okkar sem varð til þess að flothettuna prýða nú vatnskennd og flæðandi munstur Sigga.  Eigum við von á fleiri útgáfum af flothettunni á næstunni? Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að bæta við nýjum gerðum af hettum án þess …

Hugleiðingar um hreiðurgerð

á alþjóðlegum degi arkitektúrs

Vistvænn hugsunarháttur og sjálfbært samfélag. Þessi hugtök hafa verið áberandi síðustu ár, sérstaklega eftir bankahrunið sem hristi duglega upp í hugum fólks. Það var engu líkara en að heimurinn væri tilbúinn til að endurmeta stöðuna – upp að einhverju marki. Texti: Bjarki Gunnar Halldórsson arkitekt / Myndir: Tom Chudleigh Arkitektar, hér heima og erlendis, hafa tekið umræðuna alvarlega og mótað markmið um hvaða eiginleikum sjálfbær bygging eigi að búa yfir. Hún þarf meðal annars að vera endingargóð og sveigjanleg, nýta rýmið á hagkvæman hátt, stuðla að góðu innilofti og birtu, fara vel með auðlindir eins og vatn og orku, auk þess að falla vel að náttúru og byggð. Þetta eru allt góð markmið og á pari við almenn gæði í góðum arkitektúr. Möguleikinn til að lifa saman í sjálfbæru húsi er sannarlega fyrir hendi. Síðan ég byrjaði að fylgjast með sjálfbærni í arkitektúr hefur tækninni fleygt fram. Byggingarefni þróast stöðugt og til eru teikniforrit sem geta leiðbeint okkur ítarlega við að hanna sjálfbært hús. Samt er eitthvað sem truflar mig í allri þessari hugsun um sjálfbærni og …

Ljósmynd / Photo - Ólafur Már Sigurðsson

Útivist á Ísaldareyju

Deiliskipulag Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur

Hvernig skipuleggur maður útvistarvæði í miðri borg með viðkvæmri náttúru og sögulegum minjum allt frá ísöld? HA ræðir við Yngva Þór Loftsson og Þráinn Hauksson landslagsarkitekta. Umsjón: Arnar Fells / Ljósmyndir: Ólafur Már Sigurðsson Öskjuhlíð er eitt af stærstu útivistarsvæðum Reykjavíkur. Hún hefur þá sérstöðu að vera áberandi kennileiti sem sést víða að á höfuðborgarsvæðinu enda rís hún 61 metra yfir sjávarmál og á toppi hennar trónir Perlan líkt og kóróna. Lengi vel var Öskjuhlíðin einangruð frá öðrum útivistarsvæðum en með tilkomu göngu og hjólastíga hefur opnast vistvæn samgönguæð um svæðið. Nú iðar svæðið af lífi; Ferðamenn flykkjast í Perluna til njóta útsýnisins yfir borgina, nemendur í Háskóla Reykjavíkur fara daglega um svæðið og njóta nærveru við skóglendið, Ylströndin í Nautólfsvík laðar að sér sólþyrsta borgarbúa á sumrin og nú bíða ásatrúarmenn um allan heim eftir nýju hofi sem rís í suðurenda Öskjuhlíðar. En hvernig skipuleggur maður útvistarvæði í miðri borg með viðkvæmri náttúru og sögulegum minjum allt frá ísöld? Skipuleggur hálendið og útivistarsvæði Yngvi Þór Loftsson landslagsarkitekt hjá Landmótun vann deiliskipulag Öskjuhlíðarsvæðisins fyrir borgarskipulagið 1998 …

Weaving DNA

Þræðir sjálfsmyndar

Í verkefninu Weaving DNA kanna þær Hanna Dís Whitehead vöruhönnuður og Claire Anderson textílhönnuður forna þræði sem tengja saman menningararfleið Skota og Íslendinga en þjóðirnar eiga fleira sameiginlegt en sjálfstæðisbaráttu og veðurmótaða þjóðarsál. Texti: Arnar Fells & Sari Peltonen / Ljósmyndir: Tian Khee Siong Innblástur að verkefninu var meðal annars sóttur til hinnar Norrænu-Skosku víkingaarfleiðar sem unnin var í ull og textíl. Hanna og Claire könnuðu þátt handverksins í mótun sjálfsmynd þjóðanna og skoðuðu hvaða þýðingu handverkið hefur fyrir þjóðirnar í dag. Með því að blanda saman skoskum og íslenskum menningararfleifðum varð til nýr “ættbálkur” textíla, með tengingu við bæði löndin. HA kíkti á sýninguna í sýningarsal Þjóðminjasafnsins og náði tali af Hönnu Dís.   Í verkefninu könnuðu þið sameiginlega þætti í handverki Íslendinga og Skota. Funduð þið eitthvað sem kom ykkur á óvart? Handverk Íslendinga og Skota hefur alltaf haft sterk tengsl við ullina en það kom okkur á óvart hvað eiginleikar ullarinnar eru ólíkir milli landanna tveggja. Í samanburði við mýkt skosku ullarinnar er íslenska ullin gróf og harðgerð. Þessi munur endurspeglast svo …

Falinn skógur

Rekaviður í hönnun

Rekaviður er viðfangsefni sýningar sem nú stendur yfir í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum, einum kyngimagnaðasta stað Strandanna. Sýningin ber nafnið FALINN SKÓGUR – Rekviður í hönnun en þar er sjónum beint að tækifærum sem leynast í nýtingu rekaviðar. Texti: Arnar Fells / Ljósmyndir: Halla E. Hansen og sýningastjórar Allt frá landnámi hefur rekaviðurinn talist til hinna mestu hlunninda og var viðurinn m.a. nýttur í húsa- og bátasmíð. Strandir komu þar helst við sögu enda státa þær af stórbrotnum rekafjörum, líklega þeim gjöfulustu hér á landi. Bróðurpartur rekans kemur langa leið frá Síberíu en fyrr á öldum var það trú sumra manna að trén yxu á hafsbotni norður af landinu. Heimildir herma að Strandamenn hafi verið mikið hagleiksfólk og að stór hluti tekna þeirra hafi komið frá sölu á smíðagripum og búsáhöldum sem þeir seldu víða um land. Sýningunni í Djúpavík er ætlað að endurvekja þessar gömlu hefðir og stuðla að frekari vinnslu úr staðbundnum efnivið og skerpa á sérstöðu Standanna. Í gömlu síldarverksmiðjunni ber að líta verk 26 sýnenda og spanna þau vítt svið, …

Verkefnið sem hlaut fyrstu Hönnunarverðlaun Íslands

Hvergilandið

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn í nóvember á síðasta ári. Verkefnið Austurland: Designs from Nowhere hlaut verðlaunin, sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Kristalssal Þjóðleikhússins. Hönnuði og arkitekta hefur lengi dreymt um slík verðlaun, enda hefur vantað vettvang til að verðlauna og beina sjónum að því besta sem gerist í hönnun og arkitektúr á Íslandi. Höfundar: Arnar Fells, Arnaldur Máni, María Kristín / Ljósmyndir: Brynjar S. Þrastarson og DFN Verðlaunin voru stofnuð af Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafn Íslands. Verðlaunaféð, sem veitt var af iðnaðar- og viðski taráðuneyti Íslands, var ein milljón króna. Mikilvægi hönnunarverðlauna er augljóst enda verður samfélagið sífellt meðvitaðra um mikilvægi góðrar hönnunar fyrir menningu, samfélag og efnahagslíf. Þó má velta upp þeirri spurningu hvort hönnunargeirinn hér á landi sé hreinlega nógu stór fyrir slík verðlaun. Málið var leyst með ákvörðun um að setja allar hönnunartengdar faggreinar í sama flokk og veita aðeins ein verðlaun. Haft var eftir dómnefndinni að við val á verðlaunahafa hefði verið leitað eftir framúrskarandi verki sem gæti staðið sem fulltrúi …

Upplifunar- og sýningarhönnun víða um heim

Gagarín

Á undanförnum árum hefur fyrirtækið Gagarín haslað sér völl í hönnun á sýningarupplifun en fyrirtækið starfar í auknum mæli fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja koma upplýsingum á framfæri og skapa áhugaverða upplifun fyrir notendur. Dæmi um slík verkefni eru Eldheimasýningin í Vestmannaeyjum og Mannréttindasafnið í Kanada, tvö gjörólík verkefni sem eiga þó sameiginlegt að unnið er með margmiðlun og gagnvirkni til þess að stuðla að þátttöku gesta og dýpka skilning þeirra. Okkur langaði að skyggnast inn í hugarheim Gagarín og kíktum því í heimsókn til þeirra út á Granda og lögðum nokkrar spurningar fyrir verkefnastjórann, Ástu Olgu Magnúsdóttur. Höfundur: María Kristín Jónsdóttir / Ljósmyndir Gagarín HA: Þið notið nýstárlegar og oft óhefðbundnar leiðir til að fá áhorfandann til að taka þátt í sýningunni og verða hluta af henni. Hver er lykillinn að góðri sýningarhönnun og hvernig nýtið þið sérþekkingu ykkar til að ná fram þeim hughrifum sem sóst er eftir? Ásta: Góður söguþráður er mikilvægur lykill að góðri upplifun af sýningu en sérhæfing okkar er að nota gagnvirkni og margmiðlun til þess að gera …

Þeir hæfustu lifa af

Laufforks

Hjólamenning Íslendinga hefur tekið mikinn þroskakipp á síðustu árum. Þjóðin sem áður gerði grín að hjólandi ferðamönnum í láréttri rigningunni er nú smám saman að uppgötva hjólið. Höfundur: Arnar Fells / Ljósmyndir: Lauf Forks og Arnar Fells Hjólreiðar og viðburðir þeim tengdir njóta vaxandi vinsælda og margir hjólreiðamenn hjóla nú allt árið um kring. Óvíst er hvað veldur þessum aukna hjólaáhuga þjóðarinnar en ljóst er að bættar hjólreiðasamgöngur og lýðheilsuátak stjórnvalda hefur haft sitt að segja. Sennilega hefur þó bakterían að mestu borist með íslenskum námsmönnum sem snúa aftur heim frá höfuðvígum reiðhjólsins, Danmörku og Hollandi. Lauf Forks er íslenskt fyrirtæki sem spratt upp úr þessari hjólabyltingu. Á þremur árum hefur því tekist að þróa og markaðssetja byltingarkenndan hjólagaffal sem nú er notaður af atvinnufólki í hjólreiðum um allan heim. Gaffallinn er hannaður fyrir svokölluð „hardtail“ fjallahjól sem hafa dempara að framan en ekki aftan. Hann vekur ekki aðeins athygli fyrir framandi útlit heldur er hann einnig viðhaldslaus og töluvert léttari en aðrir demparagafflar. Á skrifstofu Lauf Forks vinna fjórir ungir menn, umkringdir stöflum af …

Frelsi og fortíðarþrá

Milla Snorrason

„Í mínum huga er mikilvægt að konur geti verið afslappaðar og hreyft sig eðlilega í flíkunum mínum. Föt geta verið bæði þægileg og falleg í senn,“ segir Hilda Gunnarsdóttir fatahönnuður, sem frá árinu 2012 hefur hannað kvenfatnað undir merkinu Milla Snorrason. Höfundur: Ásta Andrésdóttir / Ljósmyndari Saga Sig Ekkert er Hildu óviðkomandi þegar kemur að fatahönnun og hún hannar allt frá ullarpeysum yfir í fíngerða silkikjóla. Um þessar mundir nýtur ný prjónalína frá merkinu mikilla vinsælda. Fígúrurnar sem prýða þykkar og hlýjar ullarpeysurnar eru sóttar í olíumálverk hálfíslensku listakonunnar Söru Gillies. Einnig vann Hilda úr fígúrunum mynstur á kjóla og gammosíur úr bómullarjersey. „Mig langaði að hanna prjónavöru úr íslenskri ull í samvinnu við íslenskt prjónafyrirtæki. Það er mér mjög mikilvægt að nýta þau framleiðslutækifæri sem ég hef aðgang að í heimahögunum, annars vegar til þess að leggja mitt af mörkum við að styðja innlenda framleiðslu en einnig vegna umhverfissjónarmiða. Ég vann vöruna í samstarfi við verksmiðjuna Varma og það gekk prýðilega,“ segir Hilda. Peysurnar hafa selst afar vel og eru fáanlegar í verslununum Kraum í Aðalstræti, …

HA, hvað ertu að segja?

Leiðari HA

Hönnunarsaga Íslands er hvorki löng né fyrirferðarmikil í samanburði við sögu nágrannaþjóða okkar. Í norrænu samhengi má líkja íslensku hönnunarsenunni við ungling en eins og flestir vita geta unglingsárin verið erfið. Á þeim tíma er sjálfsmyndin í mótun og tilfinningaskalinn þolprófaður. Arnar Fells — Ritstjóri Unglingurinn er sjaldan tekinn alvarlega og hann upplifir sig lítinn og óreyndan. Sem unglingur reiðir maður sig á stuðning þeirra sem standa manni næst en á sama tíma þráir maður að geta staðið óstuddur og sjálfstæður. Hönnunarsamfélagið á Íslandi er einmitt á viðkvæmum tímamótum sem líkja má við unglingsárin. Við erum smám saman að uppgötva eigið ágæti og viljum láta taka okkur alvarlega, ekki bara í norrænu eða alþjóðlegu samhengi heldur einnig í íslensku atvinnulífi. Við erum hluti af þjóðfélagshópi sem gerir sér grein fyrir raunverulegum ávinningi þess að fjárfesta í hönnun og skapandi greinum til langs tíma. Við viljum koma að stórum og smáum ákvarðanatökum, jafnt í stjórnsýslu sem einkageiranum, og þannig móta okkur betri framtíð. Undanfarin ár hefur orðið vitundarvakning og æ fleiri skilja nú mikilvægi hönnunar. Efling …