Álit / pistlar
Leave a comment

Eftir á að hyggja

Pétur H. Ármannsson

Skipulagssaga Reykjavíkur er saga stórra drauma sem ekki rættust. Metnaðarfullra hugmynda sem ýmist dagaði uppi eða voru aðeins raungerðar í brotakenndri mynd. Þessi þróunarsaga er viðfangsefni þriggja nýútkominna bóka.


Höfundur: Pétur H. Ármannsson / Ljósmyndir Pétur H. Thomsen

ÍReykjavík sem ekki varð draga Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt fram og myndgera forvitnilegar tillögur um opinberar byggingar í miðbæ Reykjavíkur sem ekki urðu að veruleika. Þar má sjá dæmi um glötuð tækifæri í bland við hugmyndir sem þakka má fyrir að ekki komu til framkvæmda. Í bók dr. Bjarna Reynarssonar skipulagsfræðings, Borgir og borgarskipulag, er kafli um sögu byggðar og skipulags í Reykjavík. Þar er að finna aðgengilegt yfirlit um skipulagssögu höfuðborgarinnar og þróun hennar er sett í samhengi við alþjóðlega framvindu…

Ásfjall 4c

…Þegar fjallað er um áhrif fjármálabólu og bankahruns á umhverfið er hættan sú að einblínt sé á ytri einkenni fremur en þau undirliggjandi lögmál sem ráða því hvernig mál þróast. Mikilvægt er að greina á milli þeirra orsakavalda sem skýra má af sérstökum aðstæðum hér á landi og hinna sem eru birtingarmynd alþjóðlegrar þróunar. Tíðar efnahagssveiflur og gengisfellingar eiga sinn þátt í hinni brotakenndu skipulagsþróun Reykjavíkur. Á sviði húsnæðismála hefur tilhögun og regluverk lánveitinga haft afgerandi áhrif á hönnun íbúða og umhverfis. Viðvarandi óstöðugleiki og verðbólguhætta torveldar langtímahugsun hjá heimilum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Í landi veikrar krónu og gjaldeyrishafta þar sem engin leið er að ávaxta sparifé með öruggum hætti reynist steinsteypa enn sem fyrr öruggasti fjárfestingakosturinn. Almennt stýrir arðsemiskrafa fjárfesta því hvernig hannað er og byggt. Þarfir, vonir og væntingar neytandans til umhverfis síns eru þar ekki endilega efst á blaði. Í gildi eru lög og reglugerðir sem tryggja eiga hagsmuni almennings og gæði hins byggða umhverfis og í öllum aðalatriðum er þetta regluverk hliðstætt því sem gerist í nálægum löndum. Vandinn virðist því ekki liggja í reglunum sem slíkum heldur framkvæmd þeirra og eftirfylgni. Mörgum hættir til að líta á lög samfélagsins sem almenn viðmið sem víkja megi frá þegar þeirra eigin hagsmunir krefjast þess. Skipulagslög veita sveitarfélögum víðtækt vald en mikið skortir á að þeim sé framfylgt af nægilegri festu. Viðleitni til góðra verka má sín oft lítils andspænis valdi fjármagnsins, hér sem erlendis. Tímabundnar uppsveiflur í efnahag hafa ýtt undir bjartsýnar en óraunsæjar skipulagsáætlanir þar sem láðst hefur að huga að fjárhagslegri getu og pólitískum vilja til að framfylgja þeim…

Lestu meira í fyrsta tölublaði HA.

Skildu eftir svar