All posts filed under: Vöru- & iðnhönnun

Fljótandi fegurð

Ný flothetta unnin í samstarfi við Sigga Eggertsson

Flothettan frá Float hefur fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af fjölbreyttri sundmenningu þjóðarinnar. Ný útgáfa af flothettunni, sem unnin er í samstarfi við Sigga Eggertsson hönnuð og listamann, verður kynnt til sögunnar í Spark Design Space næstkomandi föstudag kl. 17:00. HA fékk Unni Valdísi, vöruhönnuð og höfund flothettunnar, til að segja frá tilkomu samstarfsins, heilnæmum áhrifum flotsins og mögnuðum reynslusögum frá fljótandi fólki um allan heim. Samantekt: María Kristín Jónsdóttir / Myndir: Gunnar Svanberg, Eyþór Árnason og Alv Péerz Nýja flothettan er myndskreytt af Sigga Eggertssyni, einum þekktasta hönnuði landsins, hvernig kom samstarfið til? Kveikjan að nýrri útgáfu flothettunnar var ánægjulegt samstarf okkar Sigga á síðastliðnum HönnunarMars. Þá vorum við pöruð saman á frekar óvæntan og tilviljanakenndan hátt og úr var viðburðurinn Overlap sem við stóðum fyrir í Sundhöll Reykjavíkur. Þar fundum við samhljóm og tengingu í verkum okkar sem varð til þess að flothettuna prýða nú vatnskennd og flæðandi munstur Sigga.  Eigum við von á fleiri útgáfum af flothettunni á næstunni? Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að bæta við nýjum gerðum af hettum án þess …

Falinn skógur

Rekaviður í hönnun

Rekaviður er viðfangsefni sýningar sem nú stendur yfir í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum, einum kyngimagnaðasta stað Strandanna. Sýningin ber nafnið FALINN SKÓGUR – Rekviður í hönnun en þar er sjónum beint að tækifærum sem leynast í nýtingu rekaviðar. Texti: Arnar Fells / Ljósmyndir: Halla E. Hansen og sýningastjórar Allt frá landnámi hefur rekaviðurinn talist til hinna mestu hlunninda og var viðurinn m.a. nýttur í húsa- og bátasmíð. Strandir komu þar helst við sögu enda státa þær af stórbrotnum rekafjörum, líklega þeim gjöfulustu hér á landi. Bróðurpartur rekans kemur langa leið frá Síberíu en fyrr á öldum var það trú sumra manna að trén yxu á hafsbotni norður af landinu. Heimildir herma að Strandamenn hafi verið mikið hagleiksfólk og að stór hluti tekna þeirra hafi komið frá sölu á smíðagripum og búsáhöldum sem þeir seldu víða um land. Sýningunni í Djúpavík er ætlað að endurvekja þessar gömlu hefðir og stuðla að frekari vinnslu úr staðbundnum efnivið og skerpa á sérstöðu Standanna. Í gömlu síldarverksmiðjunni ber að líta verk 26 sýnenda og spanna þau vítt svið, …

Frystihúsið sem breyttist í hönnunarklasa

Íshús Hafnarfjarðar

„Við vildum kanna það hvort grundvöllur væri fyrir því að leigja út vinnurými og búa til samfélag skapandi einstaklinga, einskonar gróðrastöð fyrir frumkvöðla og nýsköpun í íslenskri hönnun,“ segir Anna María Karlsdóttir um þá nýju starfsemi sem er að finna í Íshúsi Hafnarfjarðar. Texti: Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson / Myndir: Arnar Fells Gunnarsson Á árum áður var starfrækt öflugt hraðfrystihús og fiskverkun í Íshúsi Hafnarfjarðar. Vinnandi fólk stóð ýmist í aðgerð, saltaði niður fisk, gerði að veiðafærum eða sinnti öðrum störfum fyrir útgerðina sem þar var. Áður en frystikistur urðu sjálfsagður hlutur á hverju heimili gátu Hafnfirðingar einnig leigt hólf í frystigeymslum Íshúsins. Í dag er öldin önnur og hefur stór hluti húsnæðisins fengið nýtt hlutverk. Breiður hópur hönnuða, iðnaðar- og listamanna hefur tekið við keflinu og komið sér fyrir í húsnæðinu. Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á Íshúsinu sem nú hýsir vinnuaðstöðu um 30 hönnuða sem fást við ólík viðfangsefni, svo sem hnífasmíði, keramik hönnun, trésmíði og textíl hönnun. Síðastliðin 15 ár heftur lítil sem engin starfsemi verið í hinu geysistóra …

Verkefnið sem hlaut fyrstu Hönnunarverðlaun Íslands

Hvergilandið

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt í fyrsta sinn í nóvember á síðasta ári. Verkefnið Austurland: Designs from Nowhere hlaut verðlaunin, sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Kristalssal Þjóðleikhússins. Hönnuði og arkitekta hefur lengi dreymt um slík verðlaun, enda hefur vantað vettvang til að verðlauna og beina sjónum að því besta sem gerist í hönnun og arkitektúr á Íslandi. Höfundar: Arnar Fells, Arnaldur Máni, María Kristín / Ljósmyndir: Brynjar S. Þrastarson og DFN Verðlaunin voru stofnuð af Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafn Íslands. Verðlaunaféð, sem veitt var af iðnaðar- og viðski taráðuneyti Íslands, var ein milljón króna. Mikilvægi hönnunarverðlauna er augljóst enda verður samfélagið sífellt meðvitaðra um mikilvægi góðrar hönnunar fyrir menningu, samfélag og efnahagslíf. Þó má velta upp þeirri spurningu hvort hönnunargeirinn hér á landi sé hreinlega nógu stór fyrir slík verðlaun. Málið var leyst með ákvörðun um að setja allar hönnunartengdar faggreinar í sama flokk og veita aðeins ein verðlaun. Haft var eftir dómnefndinni að við val á verðlaunahafa hefði verið leitað eftir framúrskarandi verki sem gæti staðið sem fulltrúi …

Þeir hæfustu lifa af

Laufforks

Hjólamenning Íslendinga hefur tekið mikinn þroskakipp á síðustu árum. Þjóðin sem áður gerði grín að hjólandi ferðamönnum í láréttri rigningunni er nú smám saman að uppgötva hjólið. Höfundur: Arnar Fells / Ljósmyndir: Lauf Forks og Arnar Fells Hjólreiðar og viðburðir þeim tengdir njóta vaxandi vinsælda og margir hjólreiðamenn hjóla nú allt árið um kring. Óvíst er hvað veldur þessum aukna hjólaáhuga þjóðarinnar en ljóst er að bættar hjólreiðasamgöngur og lýðheilsuátak stjórnvalda hefur haft sitt að segja. Sennilega hefur þó bakterían að mestu borist með íslenskum námsmönnum sem snúa aftur heim frá höfuðvígum reiðhjólsins, Danmörku og Hollandi. Lauf Forks er íslenskt fyrirtæki sem spratt upp úr þessari hjólabyltingu. Á þremur árum hefur því tekist að þróa og markaðssetja byltingarkenndan hjólagaffal sem nú er notaður af atvinnufólki í hjólreiðum um allan heim. Gaffallinn er hannaður fyrir svokölluð „hardtail“ fjallahjól sem hafa dempara að framan en ekki aftan. Hann vekur ekki aðeins athygli fyrir framandi útlit heldur er hann einnig viðhaldslaus og töluvert léttari en aðrir demparagafflar. Á skrifstofu Lauf Forks vinna fjórir ungir menn, umkringdir stöflum af …

Kúlur kveða sér hljóðs

Bryndís Bolla

Kúlur Bryndísar Bolladóttur má finna víða. Þær bregða sér í ólík hlutverk eftir því hvaða efni hún notar við uppbyggingu hennar. Í vörulínunni hennar KULA er meðal annars að finna snaga, hitaplatta, leikföng, hljóðdempara og hljóðdreifara. Grunnformið er þó alltaf hálf eða heil kúla þar sem efsta lagið er þæfð ull. Texti: Sigríður Maack / Myndir:Ernir Eyjólfsson & A2F arkitektar Bryndís er menntaður myndlistarmaður og textílhönnuður. Hún hefur unnið að framleiðslu sinni síðan 2009. Í upphafi hannaði hún skálar og diskamottur fyrir Örva starfsþjálfun þar sem hekl var hitapressað ofan í plast. Bryndís er meðal þeirra hönnuða sem hafa landað samningi á Design Match, sem er stefnumót hönnuða og framleiðenda á HönnunarMars ár hvert. Danski hönnunarvöruframleiðandinn Normann Copenhagen hóf framleiðslu á snögum og hitaplöttum í vörulínunni KULA sem þróaðir höfðu verið í samstarfi við Örva. Seinna fluttist framleiðslan austur á land þaðan sem vel lá við að flytja vörurnar með Norrænu til söluaðila um alla Evrópu. Í seinni tíð hafa viðfangsefni Bryndísar einkum snúist um listrænar hljóðlausnir. Nýverið vann hún áhugaverð hljóð- og innsetningarverk fyrir nýja framhaldsskólann …