All posts filed under: Arkitektúr

HA 09 er komið út!

Í þessu níunda tölublaði, sem er í glænýju útliti eftir hönnunarteymið StudioStudio, er meðal annars skyggnst inn í heim hönnunar, matar og hnattvæðingar í gegnum verkefnið Banana Story eftir Johönnu Seelemann og Björn Steinar Blumenstein, Bergur Finnbogason hjá CCP og Space Popular færa lesendur inn í heim sýndar- og viðbætts veruleika og framtíðarfræðingurinn Helga Jósepsdóttir segir frá því hvernig hægt sé að hanna framtíðina. Gunnar Vilhjálmsson og Kalapi Gajjar-Bordawekar hjá letursmiðjunni Universal Thirst segja frá indverskri og arabískri týpógrafíu, fata- og textílhönnuðurinn Helga Lára Halldórsdóttir útskýrir hvernig það sem hún kallar „rýmisgreind vandræðaleikans“ varð að fatalínu. Þá deilir Philip Fimmano tísku- og lífsstílssérfræðingur hugleiðingum sínum, leirlistakonan og hönnuðurinn Kristín Sigfríður Garðarsdóttir segir frá ferlinu bakvið nýafstaðna einkasýningu sína í Hafnarborg og arkitektinn Rafael Pinho skrifar um krosslímt timbur (KLT) og möguleika í íslenskri skógrækt. Þetta og margt margt fleira í HA 09 – tryggðu þér eintak! Viltu fá HA heim að dyrum? Skráðu þig í áskrift hér. @hadesignmag #hadesignmag

Módernisminn mistókst

Magnea Guðmundsdóttir arkitekt

Ádögunum samþykkti meirihluti íbúa á Selfossi nýtt skipulag um breyttan miðbæ. Skipulagið felur í sér hugmyndir þróunarfélagsins Sigtúns um að reisa þrjátíu hús sem eru samtals rúmlega sextán þúsund fermetrar. Húsin verða í gömlum stíl eða endurbyggð gömul hús. Á vefsíðunni Miðbær Selfoss benda forsvarsmenn verkefnisins á að með því sé verið að „heiðra íslenskan byggingarstíl óháð tískusveiflum“: „Það er auðvitað hægt að byggja hús í nýjum stíl, úr steypu, stáli og gleri. En við höfum hvorki áhuga eða trú á slíkum húsum. Arkitektar hanna einnig hús í klassískum eða „gömlum“ stíl. Það hefði verið einfaldara, fljótlegra og ódýrara að hanna slík hús frá grunni en við töldum heiðarlegast og fallegast að fara alla leið og endurreisa heil hús sem horfin eru og gleymd. Þannig verður til söguleg tenging og menningararfleifðin verður áþreifanlegri.“ „Módernisminn mistókst“ er millifyrirsögn í grein Jóns Ólafs Ólafssonar arkitekts og verkefnastjóra um skipulag nýja miðbæjarins í Dagskránni, fréttavef Suðurlands. Á vefsíðu verkefnisins segir enn fremur: „Við höfum hvorki áhuga eða trú á slíkum húsum.” Það er ekki oft sem svo afgerandi yfirlýsing kemur fram í umræðu um arkitektúr …

Viðtal við Dag Eggertsson um framlag Rintala Eggertsson Architects til Feneyjatvíæringsins í arkitektúr 2018.

Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr er nú haldinn í sextánda sinn. Þemað í ár er Freespace og sýningarstjórn er í höndum hinna írsku Shelley Mcnamara og Yvonne Farrell hjá Grafton Architects (sjá manifesto þeirra hér). Arkitektastofan Rintala Eggertsson Architects var valin af sýningarstjórunum til að vera með innsetningu í Forte Marghera í borgarhlutanum Mestre. Sigrún Sumarliðadóttir ræddi við Dag Eggertsson hjá Rintala Eggertsson Architects um framlag þeirra, CORTE DEL FORTE dance pavilion. Þekktuð þið sýningarstjórana áður en þær buðu ykkur að taka þátt á tvíæringnum? Ekki mikið en við vissum af þeim og öfugt. Ég tók viðtal við þær fyrir 20 árum þegar ég var í stjórn Arkitektafélagsins í Osló og  þær voru að koma fram á sjónarsviðið. Þá bauð stjórnin þeim að halda fyrirlestur því okkur fannst þær vera að gera góða hluti og langaði að koma þeim á framfæri. Það er ákveðin samsvörum á milli þess sem er að gerast í arkitektúr á Norðurlöndunum og á Írlandi. Þar er „sóber“ arkitektúr sem tengist rýminu meira en tíðkast í breskri menningararfleið – sem er meira í …

Umbreytingar

Módernískar byggingar í Reykjavík

Laugavegur 66-68, Teiknistofan Ármúla sf. 1968, Adamson ehf. 2013. Byggingar frá sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar eru eitt af einkennum Reykjavíkur enda var mikil uppbygging á því tímabili. Nú, um 40 til 50 árum síðar, hafa margar af þeim gengið í gegnum miklar viðgerðir og breytingar. Garðar Snæbjörnsson arkitekt hjá Kurt og Pí arkitektum sýndi á HönnunarMars 2018 teikningar af nokkrum völdum módernískum byggingum í Reykjavík sem sýna þróun þeirra til dagsins í dag.  Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær. 

Farfuglar

Dagur Eggertsson arkitekt

HA skyggnist inn í líf og starf Dags Eggertssonar, arkitekts hjá Rintala Eggertsson arkitektum í Noregi. „Ég flutti til Noregs árið 1986 til að nema arkitektúr við Arkitektaháskólann í Osló. Ætlunin var að búa þar í þrjú ár en ég er hér enn, þrjátíu árum seinna. Árið 1995 flutti ég til Finnlands til að hefja mastersnám. Þar kynnist ég mínum helsta samstarfsmanni, Sami Rintala, en við sátum á móti hvor öðrum í tíma. Það er svolítið magnað því í náminu í Noregi sat ég á móti Vibeke Jenssen, sem í dag er eiginkona mín. Fólk ætti því að hugsa sig tvisvar um áður en það sest á móti mér. Eftir tveggja ára mastersnám snéri ég aftur til Noregs til að starfa sem arkitekt, meðal annars með eiginkonu minni. Fimm árum síðar fékk ég símhringingu frá vini mínum Sami, sem þá var að flytja til Noregs. Í fyrstu hittumst við Sami bara til að spila fótbolta og leysa heimsmálin yfir bjór. Smátt og smátt fórum við að ráðleggja hvor öðrum við ýmis verkefni og að lokum …

Snerting með birtu, andrúm í efni

Minningarorð um Högnu Sigurdardottur arkitekt

Það dugði ekki minna en fullt snjótungl, tímabundinn tunglmyrkva og halastjörnu til að kalla Högnu Sigurðardóttur upp til stjarnanna föstudagsnóttina síðastliðna. Öflugt ákall himintunglanna leysti hana loks úr viðjum langvinnra og erfiðra veikinda, að loknu ævistarfi sem um margt var sérstakt og örlátt. Högna fæddist á Heimaey í Vestmannaeyjum, þann 6.júlí 1929 en hún ákvað snemma að helga sig listinni að byggja. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fluttist hún Parísar þar sem hún lauk námi í byggingarlist frá hinum virta listaskóla École Nationale Supérieure des Beaux-Arts vorið 1960. Að sumu leyti má segja að örlögin hafi ráðið því að hún ílengdist að námi loknu, stofnaði teiknistofu og átti megnið af sínum starfsferli í Frakklandi, sem að sögn Högnu var sársaukafullt að ýmsu leyti. Með vinnunni ytra vann hún jafnframt handfylli verka á Íslandi, og önnur sem voru aldrei byggð, en lifa í fallegum teikningum og líkönum. Án efa eru það persónulegustu verk hennar, sem áttu sér rætur í íslenskum byggingararfi og landslagi sem hafa auðgað íslenska byggingarlist og menningararf. Hinir andstæðu heimar og …

Eðlisfræði arkitektúrs

Jón Kristinsson, frumkvöðull á sviði sjálfbærs arkitektúrs

Jón Kristinsson er áhugaverð samblanda af uppfinningamanni og arkitekt. Hann talar eins og eðlisfræðingur og hugsar allt út frá sjálfbærni. Jón hefur búið í Deventer í Hollandi meirihluta ævinnar og nam arkitektúr við Delft University of Technology þar sem hann síðar gegndi stöðu prófessors í umhverfistækni og hönnun. Hann er þekktur fyrir að hafa hannað vistvænustu byggingu Hollands og er víða þekktur fyrir uppfinningar sínar á sviði sjálfbærni. HA settist niður með Jóni til að komast að því afhverju hann er af mörgum í Hollandi kallaður faðir sjálfbærs arkitektúrs. Texti: Sigríður Maack og Arnar Fells Gunnarsson, ljósmyndir: Arnar Fells og Kristinsson Architects. Náttúruöflin heilluðu Á menntaskólaárum var Jón til sjós og fékk leyfi til að taka utanskólaspróf 1956. Jón fékk snemma áhuga á umhverfisáhrifum en hann segir sjómennskuna hafa ýtt við þeim áhuga. Á sjónum varð hann meðvitaður um umhverfið og náttúruöflin, hvort sem það var krafturinn í bátsvélinni, vindinum eða úthafsöldunni. Jón segir svipaða sögu af bróður sínum, Birni Kristinssyni verkfræðingi og fyrrum prófessors við HÍ, en þeir bræðurnir hafa í gengum tíðina unnið saman að ýmsum …

Falinn skógur

Rekaviður í hönnun

Rekaviður er viðfangsefni sýningar sem nú stendur yfir í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum, einum kyngimagnaðasta stað Strandanna. Sýningin ber nafnið FALINN SKÓGUR – Rekviður í hönnun en þar er sjónum beint að tækifærum sem leynast í nýtingu rekaviðar. Texti: Arnar Fells / Ljósmyndir: Halla E. Hansen og sýningastjórar Allt frá landnámi hefur rekaviðurinn talist til hinna mestu hlunninda og var viðurinn m.a. nýttur í húsa- og bátasmíð. Strandir komu þar helst við sögu enda státa þær af stórbrotnum rekafjörum, líklega þeim gjöfulustu hér á landi. Bróðurpartur rekans kemur langa leið frá Síberíu en fyrr á öldum var það trú sumra manna að trén yxu á hafsbotni norður af landinu. Heimildir herma að Strandamenn hafi verið mikið hagleiksfólk og að stór hluti tekna þeirra hafi komið frá sölu á smíðagripum og búsáhöldum sem þeir seldu víða um land. Sýningunni í Djúpavík er ætlað að endurvekja þessar gömlu hefðir og stuðla að frekari vinnslu úr staðbundnum efnivið og skerpa á sérstöðu Standanna. Í gömlu síldarverksmiðjunni ber að líta verk 26 sýnenda og spanna þau vítt svið, …

Hugsjónir í híbýlafræði

Kristín Guðmundsdóttir

Nafn Kristínar Guðmundsdóttur hefur ekki verið fyrirferðarmikið í íslenskri hönnunarsögu þrátt fyrir að hún hafi verið fyrst Íslendinga til að sækja sér menntun erlendis í innanhússarkitektúr. Höfundur: Halldóra Arnardóttir  / Ljósmyndir: David Frutos Kristín, sem kaus að kalla sig híbýlafræðing, ruddi brautina fyrir þá innanhússarkitekta sem á eftir komu. Hún átti frumkvæði að mörgum nýjungum í innanhúss­arkitektúr, sérstaklega hvað varðar hönnun eldhúsinnréttinga og notkun litasamsetninga. Enn í dag má finna upprunalegar innréttingar hannaðar af Kristínu en því miður hafa margar verið niðurrifnar. Í bókinni Kristín Guðmundsdóttir, híbýlafræðingur/Interior Designer, sem er væntanleg á markaðinn, fær Kristín verðskuldaða viðurkenningu sem brautryðjandi á sínu sviði. En hver er þessi merka kona? Kristín Guðmundsdóttir (f. 1923) var fyrst Íslendinga til að mennta sig í innanhússhönnun á háskólastigi. Í júní 1943 steig hún um borð í Brúarfoss sem sigldi síðan yfir Atlantshafið og lagðist að bryggju í New York 21. júlí. Siglingin frá Íslandi til New York tók mánuð með viðkomu í Skotlandi og Brúarfoss var eitt skipa af 70 í skipalest. Þessi ferðamáti var táknrænn fyrir hættur styrjaldarinnar og breytta stefnu …

Er Reykjavík að verða fullvaxta?

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030

Íbúaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 25 þúsund fram til ársins 2030, eða um 0,9% á ári miðað við 1,6% undanfarin 20 ár. Það er því fyrirséð að vöxtur Reykjavíkur muni dragast töluvert saman á næstu áratugum. Samantekt: Sigríður Maack Þetta er meðal þess sem liggur til grundvallar þeirri áherslu sem lögð er á þéttingu byggðar í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030. Hið nýja aðalskipulag var gefið út í fyrra í einkar vandaðri útgáfu af bókaforlaginu Crymogeu með fjölda skýringarmynda og vel aðgengilegum texta. Útlit og uppsetning bókarinnar er unnin af vinnustofu Atla Hilmarssonar. Að baki liggur nokkurra ára upplýsingaöflun og vönduð fagleg vinna fjölda sérfræðinga. Aðalskipulag Reykjavíkur er einnig hægt að nálgast í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar en hér verða dregnir fram nokkrir helstu þættir þess. Bindandi leiðarvísir Aðalskipulag er í eðli sínu samkomulag borgarbúa um hvernig staðið skuli að uppbyggingu borgarinnar. Í því er falin stefnumörkun sem er bindandi fyrir skipulagsákvarðanir. Eitt af þeim markmiðum sem sett voru við gerð nýs aðalskipulags var að bæta það sem stjórntæki …