Arkitektúr, Viðtöl
Leave a comment

Farfuglar

Dagur Eggertsson arkitekt

HA skyggnist inn í líf og starf Dags Eggertssonar, arkitekts hjá Rintala Eggertsson arkitektum í Noregi.

„Ég flutti til Noregs árið 1986 til að nema arkitektúr við Arkitektaháskólann í Osló. Ætlunin var að búa þar í þrjú ár en ég er hér enn, þrjátíu árum seinna. Árið 1995 flutti ég til Finnlands til að hefja mastersnám. Þar kynnist ég mínum helsta samstarfsmanni, Sami Rintala, en við sátum á móti hvor öðrum í tíma. Það er svolítið magnað því í náminu í Noregi sat ég á móti Vibeke Jenssen, sem í dag er eiginkona mín. Fólk ætti því að hugsa sig tvisvar um áður en það sest á móti mér.

Dagur Eggertsson. Mynd Jói Kjartans

Eftir tveggja ára mastersnám snéri ég aftur til Noregs til að starfa sem arkitekt, meðal annars með eiginkonu minni. Fimm árum síðar fékk ég símhringingu frá vini mínum Sami, sem þá var að flytja til Noregs. Í fyrstu hittumst við Sami bara til að spila fótbolta og leysa heimsmálin yfir bjór. Smátt og smátt fórum við að ráðleggja hvor öðrum við ýmis verkefni og að lokum ákváðum við að stofna arkitektastofuna Rintala Eggertsson árið 2007. Í augnablikinu erum við fjögur á stofunni; ég, eiginkona mín Vibeke, bókari í hlutastarfi og Sami, sem býr núna í Norður-Noregi. Við köllum það Bodø-útibúið okkar en aðalskrifstofan er hér í Ósló.

Viðskiptavinir okkar eiga það sameiginlegt að vilja skoða alla möguleika sem arkitektúr hefur upp á að bjóða frekar en að velja í blindni einhvern ákveðinn stíl eða hugmyndafræði. Við trúum því að mannlegi þátturinn skipti mestu máli þegar kemur að því að hanna byggingu og þess vegna vinnum við alltaf mjög náið með viðskiptavinum okkar.

Göngubrú yfir ánna Vosso í vesturhluta Noregs. Hönnun Rintala Eggersson arkitektar. Mynd: Dag Jenssen

Undanfarin misseri höfum við unnið að bók um þéttbýlaþróun. Bókin tengist verkefni sem við unnum fyrir sveitarfélagið Skien í Noregi. Tilgangur þess var að sporna við fólksflótta úr miðbænum. Bókin, sem er orðin nokkuð vinsæl í Noregi, fjallar um hvernig hægt er að snúa neikvæðri þróun við með afar einföldum reglum. Hugmyndin gengur út á að finna orku staðarins og leysa hana úr læðingi. Endurnýting á rými, greining á efnisnotkun, skoðun á byggingaraðferðum og svo framvegis er undirstaðan í þessu ferli. Aðferðin gengur hreinlega út á að lesa umhverfið eins og um byggingarhefð væri að ræða og spinna byggðavefinn út frá því.

Göngubrú yfir ánna Vosso í vesturhluta Noregs. Mynd: Dag Jenssen

Það getur verið snúið að starfa sem arkitekt á evrópskum markaði því strangar reglugerðir útiloka algjörlega að smærri stofur geti fengið stór opinber verkefni innan sambandsins. Óraunhæfar kröfur um háar veltutölur útiloka um 90% af öllum arkitektastofum frá opinberum samkeppnum og ef stofur ætla að taka þátt í samkeppnum þurfa þær einnig að sýna fram á að hafa áður unnið verkefni af sambærilegri stærðargráðu. Það er í eðli sínu þversagnakennt því þannig geta stofur ekki komist í stærri verkefni og sérhæfing er eina leiðin áfram. Þetta hefur stöðnun í för með sér og maður sér oft stofur endurtaka sig og fá lánað frá öðrum.

Við höfum verið mjög gagnrýnin á þetta regluverk sem er gjarnan misnotað af vanhæfum pólitíkusum. Regluverkið sem átti að vera lýðræðislegt, hvetja til samkeppni og koma í veg fyrir spillingu, hefur snúist upp í andhverfu sína á fáum árum. Ástandið er þó ekki alslæmt því í Noregi hefur orðið ákveðin hugarfarsbreyting. Fólk ber í auknum mæli virðingu fyrir sjónrænni menningu og fagnar nýjungum í stað þess að hræðast þær.

Rintala Eggertsson architects prototype in Karnataka, India

Í raun hef ég aldrei unnið sem arkitekt á Íslandi en nú eru fyrstu verkefnin þar á teikniborðinu og við erum mjög spennt. Ef eitthvað einkennir Íslendinga þá er það dugnaður og vinnusemi en einmitt þaðan held ég að ég hafi vinnugleðina. Afstaða til arkitektúrs og vinnu er nokkuð svipuð á Íslandi, í Noregi og öðrum nágrannalöndum en mér finnst samt sem áður töluverður munur milli borga og dreifbýlis. Í dreifbýli er nauðsynlegt að geta stokkið á milli mismunandi starfa og þannig er það einmitt á hinu strjálbýla Íslandi. Þar hikar fólk ekki við að ganga í öll störf og það er mjög algengt að fólk sé í fleiri en einni vinnu.

Rintala Eggertsson architects prototype in Karnataka, India

Borgarlífið elur af sér meiri sérfræðikunnáttu og þar er fólk vant því að greiða öðrum fyrir að leysa ýmis verkefni í stað þess finna lausnina sjálft. Það slæma við þessa þróun er að hún vinnur gegn skapandi hugsun. Með of mikilli sérhæfingu tapast oft dýrmæt kunnátta og færni á öðrum sviðum. Sömuleiðis geta öfgar í sérhæfingu einnig gert það að verkum að fagfólk einangrar sig í fílabeinsturni, sem kemur engum til góða.

Útsýnisturn við stöðuvatnið Seljord í Noregi, innblásinn af þjóðsögu um sæskrímsli sem býr í vatninu. Hönnun Rintala Eggertsson arkitektar. Mynd: Dag Jenssen

Það sem veldur mér áhyggjum á Íslandi er að fjármagnsöflin hafa allt of mikið vægi á húsnæðismarkaðinum og því miður eru hlutirnir að þróast í sömu átt hér í Noregi. Borgaryfirvöld virðast oft máttvana gagnvart fjárfestum sem kaupa upp íbúðir og leigja áfram í gegnum leigukerfi eins og Airbnb þannig að fólk hrökklast út úr miðbæjarkjarnanum. Sama gildir um verktaka, sem að mínu mati hafa allt of mikið vald yfir því sem framleitt er – og magn er nær alltaf tekið umfram gæði. Hönnuðir og arkitektar munu festast í því að fjöldaframleiða hugsanalaust drasl ef þeir láta ekki í sér heyra og reyna ekki að snúa við þessari neikvæðu þróun.

Í þessu samhengi er gott að enda á finnsku orðatiltæki sem er mér oft ofarlega í huga: Bara dauður fiskur syndir með straumnum. Þess vegna er nauðsynlegt að synda á móti straumnum til að finnast maður vera á lífi.“

Dagur lætur hér tvær bækur flútta. Mynd: Jói Kjartans


Grein birtist í HA nr.4Umsjón Arnar Fells og Sari Peltonen, myndir Jói Kjartans, Dag Jenssen og Pasi Aalto.

Skildu eftir svar