Fatahönnun, Viðtöl
Leave a comment

Undraveröld Kron by Kronkron

Hugrún Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hafa undanfarin tíu ár hannað, framleitt og selt vörur undir merkjum Kron by Kronkron um allan heim. Þar á meðal eru um 1200 tegundir af skóm sem eru uppistaða yfirlitssýningar á verkum þeirra í Hönnunarsafni Íslands sem opnar á HönnunarMars.

„Þetta hlýtur að hafa verið í kortunum okkar Magna frá upphafi. Við höfðum bæði mikinn áhuga og sterka ástríðu fyrir óvenjulegum skóm á okkar yngri árum og ég safnaði hinum undarlegustu skóm án þess að það hvarflaði að mér að ég myndi síðar leggja þetta fyrir mig,“ segir Hugrún þegar hún er innt eftir því hvernig skóævintýri þeirra hjóna hófst. „Síðustu tíu ár hafa verið magnað maraþon og hreinlega dálítil klikkun en við höfum verið svo upptekin við líðandi stund að okkur hefur sjaldan gefist tækifæri til að líta yfir farinn veg.“ Hugrún viðurkennir að þegar þau lögðu fyrst út í skóframleiðslu á sínum tíma hafi þau ekki órað fyrir því hvað þau ættu í vændum en samt hafi aldrei annað komið til greina en að halda áfram. Hönnunar- og framleiðsluferlið bak við hvert skópar er ótrúlega flókið og tímafrekt en það tekur um eitt og hálft ár að koma hugmynd að Kron by Kronkron skópari frá skissu á blaði yfir í búðarglugga og hvert skópar getur verið samsett úr allt að 30 til 40 hlutum sem koma frá mörgum mismunandi birgjum á Ítalíu, Spáni og í Portúgal.

Hugrún útskýrir að í dag einkennist bransinn af ótrúlega miklum hraða. Á meðan flestir séu uppteknir af því að gera skó á sem einfaldastan, ódýrastan og söluvænstan hátt – meðal annars með því að nota sem ódýrast hráefni, framleiða sem fæstar tegundir og sneiða hjá handverksfólki – vilji þau hins vegar skapa sterka, tímalausa skó þar sem handverk og hráefni fær að njóta sín. Bak við hvert smáatriði sé handbragð sérhæfðs handverksfólks en frá byrjun hafi þau haft að leiðarljósi að vinna með handverksfólki þótt slíkt geri hlutina vissulega flóknari á marga vegu. „Þegar okkur tekst að finna réttan aðila í hvert verk – það er okkar adrenalínkikk. Þetta er allt handverksfólk sem brennur fyrir því sem það er að gera og það tengir okkur saman – þessi ástríða. Við Magni þekkjum af eigin raun hvernig það er að fara óhefðbundnar leiðir og það er okkur mikilvægt að geta tengt þessa ólíku aðila saman og skapa þeim verkefni. Það drífur okkur áfram.“

Í ljósi þess hve margt þarf að smella saman til að hvert skópar geti orðið að veruleika virkar fjöldi þessara 1200 skópara sem verða til sýnis á Hönnunarsafninu dálítið undraverður og yfirþyrmandi. Hugrún tekur undir það og játar að það hafi þurft nokkra sendiferðabíla til að flytja góssið upp á Hönnunarsafn. „Maður málar víst ekki alltaf sama málverkið! Merkilegt nokk þá höfum við hannað og framleitt alla þessa skó en við erum samt ekki skómerki sem býr til skó til þess eins að selja þá. Við höfum aldrei fylgt markaðsöflum heldur skapað okkar eigin heim þar sem við erum alltaf svolítið að spegla okkur sjálf. Þetta þekkja þeir sem hafa komið í verslanirnar okkar. Heimurinn okkar er litríkur og óháður tískustraumum. Einkenni Kron by Kronkron skónna eru sterk þótt hvert og eitt par standi sjálfstætt – og tímalaust. Okkar viðskiptavinir eru svo ólíkar týpur og við höfum margoft fengið að heyra frá kúnnum að það að kaupa skó frá okkur sé meira eins og að kaupa sér listaverk. Þetta eru ekki bara skór heldur svo miklu, miklu meira. Við viljum að fólk geti gleymt hversdagsleikanum þegar það kemur til okkar og á sýningunni í Hönnunarsafninu erum við svolítið að endurspegla það með því að gefa fólki sýn inn í okkar heim síðustu tíu árin.“


Texti Sunna Örlygsdóttir / Ljósmynd Anna Maggý og Kári Sverriss

Skildu eftir svar