Gullsmíði & skartgripahönnun, Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Erling og Helga Ósk

Á sýningunni Andaðu munu Erling og Helga Ósk gullsmiðir kynna fyrstu sameiginlegu skartgripalínuna sína en þau opnuðu saman vinnustofu og verslun á Hverfisgötu 39 árið 2016. Þau segja að eftir að hafa setið andspænis hvort öðru í hálft annað ár, deilt hugmyndum af örlæti og veitt hvort öðru aðstoð við ýmis úrlausnarefni hönnunarinnar hafi nánara samstarf sprottið af sjálfu sér. Við fyrstu sýn virðast þau nálgast efnið með nokkuð ólíkum hætti en þau eru sammála um að þótt fagurfræði og stíll þeirra sé ólíkur þá deili þau keimlíkri afstöðu til skartgripahönnunar og snertifletir þeirra séu margir.

Þeim var báðum ljóst frá barnæsku að þau myndu fást við handverk og gullsmíðin reyndist þeirra farvegur. Á meðan Helga Ósk hefur sótt töluvert í íslenskan þjóðararf og smíðað skartgripi með tilvísun í rammíslenska hefð víravirkis hefur Erling leikið sér að sköpun nýrra forma. Bæði segjast þau þó leggja áherslu á að fara sem oftast og lengst að heiman og brjóta upp fagurfræði og reglur en eiga þó sín akkeri í faglegri þekkingu, áralangri reynslu og hefð.

Aðspurð hvað heilli þau við skartgripi segir Erling þá sveipaða dálítilli dulúð og Helga Ósk bætir við að það sé hve persónulegir þeir séu; að við fáum skartgripi oft á tímamótum í lífi okkar eða erfum þá frá ástvinum. Því tengist þeir gjarnan minningum og við berum þá meðvituð um söguna sem fylgir. „Skartgripir eru svo merkingarlausir hangandi einir úti í glugga,“ segir Erling, „án sögunnar er skartgripurinn ekki neitt“.

Erling og Helgu Ósk er vandað handverk hugleikið en jafnframt lífrænt ferli og algert frelsi við gerð skartgripa. Þau segjast líka pæla dálítið í þjóðmenningunni en telja óáhugavert að þvinga fram fyrirfram ákveðnar hugmyndir; bestu hlutirnir fæðist óþvingaðir og púslist saman af sjálfu sér. Þau vilja að öðru leyti lítið segja um nýju línuna en allt stefnir í spennandi útkomu; fislétta gullskartgripi þar sem formið er borið uppi af innri spennu efnisins.


Texti Ragnheiður Pálsdóttir / Ljósmynd Rafael Pinho

Skildu eftir svar