Fatahönnun
Leave a comment

KALDA SS18 lína

Fetar nýjar slóðir

Það eru komin tvö ár síðan íslenska síðan íslenska fatamerkið KALDA breyttist í skóframleiðanda. Við ræddum við aðalhönnuðinn, Katrínu Öldu Rafnsdóttur.

Hvers vegna skór?
Ég hef alltaf verið hugfangin af skóm. Eftir að hafa hannað fatalínu vildi ég taka mér frí frá því og einbeita mér að einum vöruflokki og skóhönnun lá vel við.

Hver er munurinn á því að hanna skó og föt?
Það er mikill tími og vinna á bak við skóhönnun. Tæknilega séð er hún flóknari og tímafrekari en fatahönnun. Hvernig skór passa á þægilegan hátt, hvernig þeir eru upp byggðir og hvernig þeir endast — allt þetta þarf að hugsa öðruvísit en þegar maður hannar föt.

Lýstu hönnunarferlinu þínu.
Þegar ég hóf skóvinnuna langaði mig til að byrja upp á nýtt. Þótt skórnir séu augljóslega rökrétt framhald af KALDA línunni er þetta ný vara sem ég byrjaði með frá grunni. Ég leitaði á æskuslóðirnar og valdi hráefni úr umhverfinu þar sem ég aldist upp. Ég hugsaði mikið um hugmyndir mínar um fegurð þegar ég var að hanna skóna. Ég er mjög forvitin að vita af hverju ákveðnir hlutir veita okkur innblástur.

Ég ólst upp fyrir norðan, á Þórshöfn. Pabbi vann í frystihúsinu og ég vann oft með honum þar. Við gerð fyrstu skólínunnar minnar vann ég með íslensku sútunarstöðinni Atlantic Leather. Við bjuggum til stígvél með bútum úr laxaroði — og munum halda áfram að þróa þessa aðferð. Mér finnst mikilvægt að leita til upprunans þegar maður skapar eitthvað nýtt.

Hvar starfar þú?
Um þessar mundir deili ég tímanum jafnt á milli Íslands, London og New York.

Af hverju er fyrirtækið skráð á Íslandi?
Af því að við erum íslensk! Og varan er líka seld á Íslandi. Það er mikilvægt að fyrirtækið sé íslenskt. Þegar ég ólst upp var Ísland mjög einangrað og fólk þurfti að nýta það sem það hafði og treysta á sjálft sig. Það er gott að vera meðvitaður um það sem er að gerast í kringum mann. Ég les tímarit og fylgist með því sem er að gerast en ég tek öllu með fyrirvara. Þegar maður hefur verið einangraður frá heiminum verður maður að læra að treysta á sjálfan sig.

Það að undirstrika hinn íslenska uppruna hjálpar KALDA að greina sig frá samkeppnisaðilum. Á sama tíma þurfum við að ná til kaupenda og fjölmiðla sem koma ekki til okkar á Íslandi. Þess í stað þurfum við að fara til þeirra. Það er mikilvægt að sækja vörusýningar, tískuvikur og sýningarsali til að ná athygli annarra.

Fyrir hverja eru KALDA skór hannaðir?
Hugmyndin á bak við skóna er að þeir séu óvenjulega sérstakir („statement shoes“) en samt á viðráðanlegu verði. Ég hef ekki neina ákveðna stelpu í huga, nema að hún á að eiga auðvelt með að tjá sig í gegnum klæðaburð. Frá upphafi vildi ég að skórnir væru þægilegir — þeir eru fyrir stelpur sem eru sjálfstæðar og alltaf á ferðinni. Hælarnir eru aldrei hærri en 10 cm svo það sé hægt að ganga í skónum yfir daginn og fram eftir nóttu. Ég vil ekki að stelpurnar mínar líti út fyrir að vera í óþægilegum skóm. Það verður líka að vera eitthvað sérstakt við skóna; þeir geta ekki verið of venjulegir. Skórnir þurfa að vekja athygli. Það þarf að vera eitthvað við þá sem kemur á óvart. Ef ég tek ekki áhættu í hönnuninni þá veit ég að skórnir ganga ekki upp.

KALDA fæst í Browns London, Shopbop, Moda Operandi og Yeoman á íslandi


Viðtal: Sari Peltonen / Ljósmyndir : ?

Skildu eftir svar