Álit / pistlar, Arkitektúr
Leave a comment

Snerting með birtu, andrúm í efni

Minningarorð um Högnu Sigurdardottur arkitekt

Það dugði ekki minna en fullt snjótungl, tímabundinn tunglmyrkva og halastjörnu til að kalla Högnu Sigurðardóttur upp til stjarnanna föstudagsnóttina síðastliðna. Öflugt ákall himintunglanna leysti hana loks úr viðjum langvinnra og erfiðra veikinda, að loknu ævistarfi sem um margt var sérstakt og örlátt.

Högna fæddist á Heimaey í Vestmannaeyjum, þann 6.júlí 1929 en hún ákvað snemma að helga sig listinni að byggja. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fluttist hún Parísar þar sem hún lauk námi í byggingarlist frá hinum virta listaskóla École Nationale Supérieure des Beaux-Arts vorið 1960. Að sumu leyti má segja að örlögin hafi ráðið því að hún ílengdist að námi loknu, stofnaði teiknistofu og átti megnið af sínum starfsferli í Frakklandi, sem að sögn Högnu var sársaukafullt að ýmsu leyti. Með vinnunni ytra vann hún jafnframt handfylli verka á Íslandi, og önnur sem voru aldrei byggð, en lifa í fallegum teikningum og líkönum.

Frumdrög Högnu að Ofanleitiskapellu í Vestmannaeyjum frá 1981. Högna sá fyrir sér að byggingin stæði við hraunjaðarinn vestanmegin á eyjunni. Það er von marga að byggingin verði reist í náinni framtíð.

Án efa eru það persónulegustu verk hennar, sem áttu sér rætur í íslenskum byggingararfi og landslagi sem hafa auðgað íslenska byggingarlist og menningararf. Hinir andstæðu heimar og lífsskilyrði; annars vegar við frjálslegan uppvöxt hennar á óblíðri og vindasamri eldfjallaeyju í miðju Atlantshafi og hins vegar í ströngu háskólanámi á meginlandi Evrópu, endurspegla tvær hliðar á henni sjálfri sem birtast nokkuð skýrt í verkum hennar.

Í gegnum feril Högnu má greina eins konar spennu eða innri baráttu á milli óbeislaðrar náttúrunnar og aga hins manngerða umhverfis. Þannig virðist sem dálæti hennar á sterkum, lífrænum og þungum formum megi rekja í magnþrungið umhverfi virkra eldstöðva Vestmannaeyja, þar sem maðurinn má sín lítils gagnvart náttúruöflunum sem móta ásýnd landsins með svörtu hrauni úr iðrum jarðar.

Bakkaflöt 1 þykir eitt af merkari verkum í íslenskri nútímabyggingarlist. Bakkaflötin hefur hlotið margar viðurkenningar og var meðal annars valið ein af 100 merkilegustu byggingum 20. aldar í Evrópu. Ljósmynd: Íris Ann

Ástríða hennar fyrir ræktun og fallegum gróðri sem ófrávíkjanlegum hluta bygginga sinna fær í annan stað næringu í frjósamt ræktarland og skrúðgarðamenningu Frakklands, þar sem lifandi plöntur hafa um aldaraðir verið skornar og mótaðar til að mæta fagurfræðilegum kröfum hvers tíma. Sérlega athygli Högnu á úrvinnslu dagsbirtu í verkum sínum má skilja í ljósi áleitinnar nærveru og síbreytilegrar birtingarmyndar himinhvolfsins og árstíðabundinna sveifla sólargangsins yst við heimskautsbaug í heimahögum, þar sem sjóndeildarhringurinn er ýmist innan seilingar eða órafjarri. Fumleysi hennar eða óhvikul ákveðni í listrænu tilliti við sköpun bygginga hennar, bæði hvað heildarmynd og smáatriði varðar, sækir að öllum líkindum styrk sinn í kynni hennar af fágaðri franskri menningu og skilningi á mikilvægi fagurlista í tilveru mannsins.

Bakkaflöt 1 – Myndir fegnar með leyfi frá www.islanders.is Ljósmyndari: Íris Ann

Fyrir nær áratug síðan lagði ég upp í ferðalag að kynnast verkum Högnu með það að markmiði að setja upp sýningu á verkum hennar á Kjarvalsstöðum. Fyrir þann tíma þekkti ég í raun ekki vel nema íbúðarhúsið sem hún teiknaði að Bakkaflöt í Garðabæ, hús sem fyrir mér var bæði dularfullt og auðlesið, margrætt og skýrt, þroskað og ungt, lífrænt og fágað. Aðdráttarafl þess liggur meðal annars í fágætum eiginleikum að höfða til eðlislægrar skynjunar og upplifunar með áleitinni efniskennd og margvíslegri beitingu birtu ásamt því að vekja hugsanir og hugrenningar um gildi eða dýrmæti fegurðar í tilvist okkar á jörðinni. Til að geta skapað slíka byggingu þarf að búa yfir mýkt og þolinmæði gagnvart lífinu sem þar er lifað en jafnframt að treysta listrænu innsæi sínu til að feta ótroðnar slóðir. Höfundurinn þarf einnig að ávinna traust verkkaupa síns til að móta í form og í rými óefniskennda drauma sína um umgjörð hins daglega lífs, stunda með öðrum eða einveru með sjálfum sér.

Bakkaflöt 1. Ljósmyndari: Íris Ann

Á þeim tíma sem liðinn er hef ég orðið þess aðnjótandi að kynnast fleiri verkum Högnu, bæði hér á Íslandi og úti í Frakklandi, auk þess að hafa verið svo lánsöm að fá að skyggnast inn í hugarheim Högnu sjálfrar og landslag ferðalags míns tekið á sig fallegar myndir. Ég hef kynnst hugsunum sem teikna fyrir mér ferðalag hennar sjálfrar frá lítilli eldfjallaeyju í Norðurhafi til heimsborgar úr gömlu Evrópu, berandi með sér hið innra veðrabrigði og rok, fjölbreytilegar birtingarmyndir dagsbirtu og ótamins landslags í fáguðu umhverfi gamallar siðmenningar. Þessar andstæður setja svip sinn á öll verk Högnu, hvort heldur um er að ræða stórar opinbera byggingar í manngerðu umhverfi þéttbýlla borga Frakklands eða smáar persónulegar byggingar í víðáttumiklu landslagi Íslands.

Menntaskólinn í Bondoufle í Frakklandi, hannaður af Högnu Sigurðardóttur á árunum 1987-1991. Ljósmyndari: Arnór Kári Egilsson

Sameiginlegur þráður í ólíkum verkum Högnu er áhugi hennar á og umhyggja fyrir fólkinu sem þar dvelur, nærgætni fyrir þörf manna að draga sig í hlé með góða bók í notalegum krók með mjúka birtu ofanljóss yfir höfði sér og skilningur fyrir því hvernig skipulag, innra fyrirkomulag eða efnisáferð bygginga getur hvatt samskipti manna og örvað upplifun á augnablikinu. Annar ríkjandi þáttur í verkum Högnu er áhugi á og umhyggja fyrir samsetningum og frágangi byggingarhluta. Hún stefnir gjarnan festu á móti mýkt, svo sem hörðum steini á móti hlýlegum við, skugga á móti birtu, jörð á móti himni eins og til að koma til móts við og staðfesta ólík öfl efnis og anda á upplifun og skilning mannsins. Grófar steinhellur á gólfi drekka í sig mildi sólargeisla sem læðist inn um mjóa gluggarifu, og fastar innréttingar sem steyptar eru með gólfi og veggjum húss mynda staðfastan grunn fyrir létt og hreyfanleg veggþil úr hlýlegum við.

Orlofsbúðir við Álftavatn, afstöðumynd 1964. (óbyggð tillaga)

Byggingarlist Högnu Sigurðardóttur endurspeglar í óvenjulegum mæli karakter hennar sjálfrar þar sem persónuleg nánd og ljóðræn nálgun leggja grunninn að öruggu formi og umvefjandi rými, næmri efniskennd og sterkri tilfinningu fyrir birtu og myrkri. Verk hennar eru sannarlega vitnisburður um frumlegan og sérstakan metnað í fagi sem vegur salt á mörkum tækni, hönnunar og listar, samtímis því að ávarpa tilvist mannsins í heiminum, líkamlega sem andlega. Með Högnu er genginn afburða arkitekt sem sótti þræði sína aftur í tímann, í menningararf gamallar íslenskrar byggingarlistar og spann þá inn í nútímann með óvenjulegum og djörfum hætti, en byggingar hennar verða um ókominn tíma óður til íhygli og mannlegrar nándar í veðrabrigðum lífsins.

Með þakklæti til þín og kveðju til stjarnanna.


Texti : Guja Dögg Hauksdóttir

 

Skildu eftir svar